Fara í innihald

Svíney

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af Svínoy
Póstbáturinn siglir að Svíneyjareiði vestanverðu. Þorpið er hinum megin á eiðinu.

Svíney (færeyska: Svínoy) er eyja í Færeyjum. Hún er ein Norðureyja og er næstaustasta eyja Færeyja; aðeins Fugley, sem er næst fyrir norðan hana, nær lengra í austur. Eyjan er 27,1 km² að stærð. Hæsti tindur eyjarinnar heitir Hafnartindur og er 587 metra hár. Sagt er að nafn eyjarinnar sé komið til af því að svín hafi synt þangað frá annarri eyju en engar heimildir eru til um svínarækt á eynni. Svíney hefur verið byggð frá landnámsöld því stórbóndans Svíneyjar-Bjarna er getið í Færeyinga sögu.

Aðeins ein byggð er á eynni og heitir hún einnig Svíney. Þar voru 37 íbúar 1. janúar 2011 en voru 74 árið 2005. Íbúarnir lifa flestir á fiskveiðum og landbúnaði og þar er stórt kúabú. Höfn var gerð á eynni skömmu fyrir síðustu aldamót. Póstbátur siglir til eyjarinnar og einnig er flogið þangað reglulega með þyrlu en eyjan þykir afskekkt og atvinnulíf fábreytt. Skóli var á eynni en þar er nú ekkert barn á skólaaldri og hefur hann því verið lagður niður. Svíney var áður sjálfstætt sveitarfélag en hefur verið hluti af sveitarfélaginu Klakksvík frá 1. janúar 2008.

Víkur ganga inn í Svíney frá austri og vestri og skipta henni í tvennt en á milli þeirra er Svíneyjareiði. Suðurhlutinn er stærri og hálendari en norðurhlutinn. Þorpið Svíney er við víkina að austanverðu, sem heitir Svíneyjarvík, en þegar veður leyfir lendir póstbáturinn við bryggju í víkinni vestan á eynni til að spara sér alllanga siglingu.

Þegar Svíney festist

[breyta | breyta frumkóða]

Gömul þjóðsaga er að Svíney hafi áður flotið um hafið og eru svipaðar sögur raunar sagðar um sumar af hinum eyjunum. Hún kom í ljós öðru hverju en sást sjaldan því hún bar oftast með sér þoku sem huldi hana. Í Viðareiði á Viðey var til gylta en enginn göltur en þó gaut gyltan grísum á hverju ári og þótti undarlegt. Einhverjir þóttust þó muna að gyltan hyrfi stundum sjónum en kæmi jafnan aftur. Einu sinni hélt gyltan af stað þvert yfir eyna en kona nokkur elti hana og batt lyklakippu í hala hennar. Gyltan steypti sér út í sjó og synti burt. Nokkru síðar sáu menn á Viðareiði eyju birtast. Þeir flýttu sér í báta og gátu nú gengið á land, því að um leið og gyltan bar járn á eyna festist hún og þokan hvarf - og þarna hefur hún legið síðan.