Koltur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Séð til Kolturs frá Straumey.
Koltur, Heimi í Húsi
Kort af Koltur

Koltur er lítil eyja í Færeyjum, sunnan og vestan við Straumey. Allur norðurhluti eyjarinnar er eitt fjall sem heitir Kolturshamar eða Uppi á Oyggj og er 478 metra hátt en suðurhlutinn er langur og fremur láglendur tangi. Koltur og Hestur voru áður eitt sveitarfélag en eru nú í sveitarfélaginu Þórshöfn.

Koltur er aðeins 2,3 km² að stærð og hefur frá fornu fari aðeins verið ein bújörð, kóngsjörðin Koltur, en hún var þó tvískipt á seinni árum og kallaðist upprunalegi bærinn þá Heimi í Húsi en hinn Norðuri í Gerðum og á síðari árum Koltursgarður. Um tíma var raunar fjórbýlt í Koltri og þá voru íbúar 40-50 talsins. Lengi framan af 20. öld bjuggu tvær ættir í eynni, sín á hvorum bæ, og töluðust ekki við. Ástæðuna vissi enginn utanaðkomandi og sagt er að á endanum hafi fólkið sjálft ekki vitað hvers vegna. Báðar fjölskyldurnar yfirgáfu eyna seint á 9. áratugnum. Hún var í eyði 1989-1994 og eftir það hefur aldrei búið þar nema ein fjölskylda. Þar hefur verið stunduð sauðfjár- og nautgriparækt.

Samkvæmt manntali 1. janúar 2020 búa 2 í Koltri. Búið hefur verið á Koltursgarði frá því eyjan byggðist að nýju en upprunalegi bærinn, Heimi í Húsi, hefur verið byggður upp á vegum Føroya Forngripafelags og á þar að varðveita dæmigert gamalt færeyskt góðbýli. Tvær kvikmyndir hafa verið teknar upp þar, myndin Barbara og íslenska kvikmyndin Dansinn, sem gerð er eftir sögu Williams Heinesen.

Engar reglulegar ferjusiglingar eru til eyjarinnar en bátar fara þangað á sumrin frá Straumey og reglulegt þyrluflug hefur verið þangað allt árið.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]