Fara í innihald

Stríð Mexíkó og Bandaríkjanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stríð Mexíkó og Bandaríkjanna

Bandarískir hermenn hertaka Mexíkóborg árið 1848.
Dagsetning25. apríl 18463. febrúar 1848 (1 ár, 9 mánuðir, 1 vika og 1 dagur)
Staðsetning
Niðurstaða Bandarískur sigur. Mexíkó viðurkennir innlimun Bandaríkjanna á Lýðveldinu Texas. Mexíkó lætur af hendi landsvæði sem svarar til Kaliforníu, Nevada, Utah, Arizona, Nýju-Mexíkó, Colorado og hluta af Wyoming til Bandaríkjanna.
Stríðsaðilar
Bandaríkin Bandaríkin Mexíkó Mexíkó
Leiðtogar
Bandaríkin James K. Polk
Bandaríkin Zachary Taylor
Bandaríkin Winfield Scott
Mexíkó Antonio López de Santa Anna
Fjöldi hermanna
Bandaríkin 73.532 atvinnuhermenn og sjálfboðaliðar Mexíkó 70.000 atvinnuhermenn og 12.000 varaliðar
Mannfall og tjón
Bandaríkin 1.733 manns drepnir Mexíkó 10.000 manns drepnir

Stríð Mexíkó og Bandaríkjanna var stríð sem Mexíkó háði við Bandaríkin frá 1846 til 1848. Stríðið braust út eftir að Bandaríkin innlimuðu árið 1845 Lýðveldið Texas. Texas hafði í reynd unnið sjálfstæði sitt frá Mexíkó tíu árum fyrr í byltingu en Mexíkó hafði aldrei viðurkennt Texas sem sjálfstætt ríki og leit enn á það sem landsvæði sitt.

Mexíkó hafði unnið sjálfstæði sitt frá Spáni og spænska heimsveldinu árið 1821 og orðið að lýðveldi árið 1824. Óreiða ríkti í mexíkóskum stjórnmálum og því var ríkið illa undirbúið fyrir vopnuð milliríkjaátök tveimur áratugum síðar.[1] Á áratugunum í aðdraganda stríðsins höfðu árásir amerískra frumbyggja á hinn strjálbýla norðurhluta Mexíkó fengið mexíkósku ríkisstjórnina til að veita bandarískum innflytjendum fjárstyrk til að setjast að í mexíkóska fylkinu Texas. Þessir Bandaríkjamenn sem sest höfðu að í Texas gerðu árið 1836 uppreisn gegn ríkisstjórn Antonio López de Santa Anna forseta og stofnuðu sjálfstætt lýðveldi sem Mexíkanar viðurkenndu aldrei. Árið 1845 þáðu yfirvöld Lýðveldisins Texas boð frá bandaríska þinginu um að gerast 28. fylki Bandaríkjanna.[2]

Árið 1845 gerði hinn nýkjörni forseti Bandaríkjanna, James K. Polk, Mexíkönum tilboð um að kaupa af þeim umdeild landsvæði á milli Nueces-fljóts og Rio Grande. Þegar Mexíkanar höfnuðu tilboðinu sendi Polk bandaríska herinn suður inn á umdeilda svæðið. Þar kom til átaka við mexíkóska hermenn, sem drápu 12 bandaríska hermenn og tóku 52 til fanga. Þessir sömu mexíkósku hermenn sátu síðan um bandarískt virki við Rio Grande. Polk málaði þessa árás sem árás á landsvæði Bandaríkjanna og bað bandaríska þingið að lýsa yfir stríði.

Bandaríski herinn var fljótur að hertaka bæinn Santa Fe de Nuevo México við Rio Grande og síðan alla Kyrrahafsströnd Nýju-Kaliforníu. Síðan réðust Bandaríkjamenn inn í miðhluta Mexíkó og bandaríski sjóherinn setti hafnarbann og hertók ýmsar mexíkóskar hafnir sunnar á Kyrrahafsströndinni. Eftir nokkra blóðuga bardaga við mexíkóska herinn hertóku Bandaríkjamenn höfuðborgina Mexíkóborg.

Árið 1848 var friðarsáttmáli undirritaður í Guadalupe Hidalgo og Mexíkanar neyddir til þess að veita Bandaríkjamönnum landsvæði sem spannar í dag Kaliforníu og Nýju-Mexíkó. Bandaríkjamenn féllust á að greiða Mexíkó 15 milljónir Bandaríkjadala fyrir skemmdir sem unnar voru í stríðinu. Mexíkó viðurkenndi eign Bandaríkjanna á þessum svæðum og lýsti því yfir að þaðan í frá næmu landamæri ríkjanna við Rio Grande. Mexíkó hafði með stríðinu glatað þriðjungi þess landsvæðis sem ríkið réð yfir við sjálfstæði þess árið 1821.

Polk, leiðtogi Demókrata, hafði haft hug á útþenslu Bandaríkjanna til Kyrrahafsstrandar Norður-Ameríku.[3] Stríðið var í byrjun afar umdeilt meðal Bandaríkjamanna: Viggar, andstæðingar heimsvaldshyggju og andstæðingar þrælahalds mótmæltu því harðlega. Gagnrýnendur stríðsins í Bandaríkjunum bentu á mikið mannfall Bandaríkjahers í stríðinu miðað við fyrri stríð ríkisins og mikinn fjárkostnað sem því fylgdi. Stríðið, og deilur um það hvort þrælahald skyldi leyft á hinum nýunnu landsvæðum, ýtti undir ágreining meðal Bandaríkjamanna sem leiddi síðar til bandarísku borgarastyrjaldarinnar (1861–1865). Ulysses S. Grant, sem barðist í báðum stríðunum, taldi stríðið við Mexíkó eina helstu orsök borgarastyrjaldarinnar sem braust út rúmum áratug síðar. Í endurminningum sínum komst hann svo að orði:

„Uppreisn suðurríkjanna var að miklu leyti afsprengi af stríðinu við Mexíkó. Þjóðum, líkt og einstaklingum, er refsað fyrir afbrot þeirra. Okkur var refsað með einu blóðugasta og dýrasta stríði nútímasögunnar.“[4]

Í Mexíkó ríkti mikil stjórnmálaóreiða þegar stríðið braust út og varð að hreinum glundroða á meðan á átökunum stóð. Ósigur þeirra og landmissir í stríðinu var mikið reiðarslag fyrir Mexíkó og neyddi landsmenn til að líta í barm sér og endurmeta stöðu sína á alþjóðavettvangi.[5] Stuttu eftir stríðið lýstu mexíkóskir áhrifamenn því yfir að orsök stríðsins hefði verið „ómettandi metnaður Bandaríkjanna, tvíefldur af veikleika okkar“.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ramón Alcaraz, et al. The Other Side or Notes for the History of the War between Mexico and the United States. New York: Burt Franklin 1850, republished 1970, 1-2.
  2. See "Republic of Texas". Afritað af uppruna á 29. apríl 2009. Sótt 5. júlí 2014.
  3. See Rives, The United States and Mexico, vol. 2, p. 658
  4. Grant, Ulysses S. Personal Memoirs of U. S. Grant. New York: Charles L. Webster & Company, 1885–1886.
  5. Pedro Santoni, "U.S.-Mexican War" in Encyclopedia of Mexico, Chicago: Fitzroy Dearborn 1997, p. 1511.
  6. Alcaraz, et al. The Other Side, pp. 1-2.