Fara í innihald

Stefán Einarsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stefán Einarsson (9. júní 18979. apríl 1972) var íslenskur málfræðingur, sem var lengi prófessor við Johns Hopkins-háskóla í Baltimore í Bandaríkjunum.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Dr. Stefán Einarsson fæddist og ólst upp á Höskuldsstöðum í Breiðdal. Foreldrar hans voru Einar Gunnlaugsson (1851–1942), bóndi og póstafgreiðslumaður, og kona hans Margrét Jónsdóttir (1863–1923).

Stefán fór fyrst í Gagnfræðaskólann á Akureyri, en varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1917. Fór síðan í Háskóla Íslands og lauk meistaraprófi í íslenskum fræðum 1923. Stefán lagði stund á hljóðfræði, fyrst í Helsinki 1924–25 og um tíma í Cambridge í Englandi, en doktorsprófi lauk hann í Ósló 1927. Doktorsritgerðin var um hljóðfræði íslenskrar tungu: Beiträge zur Phonetik der isländischen Sprache, Oslo 1927.

Sama ár, 1927, fékk Stefán prófessorstöðu við Johns Hopkins-háskóla í Baltimore og starfaði þar uns hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1962. Vettvangur hans var aðallega við enskudeild skólans, sem kennari í norrænni og fornenskri málfræði, og frá 1945 í Norðurlandabókmenntum. Þegar Stefán lét af störfum fluttist hann til Íslands og bjó í Reykjavík til dauðadags, 9. apríl 1972.

Stefán var afkastamikill fræðimaður, samanber ritaskrá hans. Hann gaf m.a. út, ásamt Jóni Helgasyni prentsmiðjustjóra, allmikið rit um æskustöðvarnar: Breiðdæla. Drög til sögu Breiðdals, Reykjavík 1948. Þar eru tvær greinar eftir Stefán: „Landnáms- og byggðarsaga Breiðdals“ og „Breiðdælir fyrir vestan haf“, samtals um fjórðungur ritsins. Þá tók hann saman tvær af árbókum Ferðafélags Íslands: Austfirðir sunnan Gerpis (1955) og Austfirðir norðan Gerpis (1957). Meðal annarra verka hans má nefna:

  • History of Icelandic Prose Writers 1800–1940, Ithaca 1948, 14+269 bls. — Islandica 32–33.
  • Skáldaþing, Reykjavík 1948, 472 bls. — Greinasafn um íslensk skáld og rithöfunda.
  • Íslensk bókmenntasaga 874–1960, Reykjavík 1961, 12+519 bls.

Stefán var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Margarete Schwarzenburg (26. maí 18927. janúar 1953) frá Eistlandi, sagnfræðingur af þýskum ættum. Þeim varð ekki barna auðið.

Síðari kona Stefáns (1954) var Ingibjörg Jónheiður Árnadóttir (1896–1980) frá Njarðvíkum. Hún átti fjögur börn af fyrra hjónabandi.

Stefán var um árabil ræðismaður Íslands í Baltimore (frá 1942). Hann naut mikillar virðingar meðal fræðimanna og var heiðursfélagi í mörgum bókmennta- og vísindafélögum, var t.d. kjörinn í eitt virðulegasta vísindafélag Bandaríkjanna, The American Philosophical Society. Hann var sæmdur riddarakrossi Fálkaorðunnar 1939.

Í Breiðdalssetri í gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík, er verið að koma upp minningarstofu um Stefán Einarsson – Stefánsstofu.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]