Fara í innihald

Stóner-rokk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Stóner rokk)

Stóner-rokk eða stóner-metal er tegund þungarokks. Þar er blandað saman eiginleikum úr blúsrokki, sýrurokki, klassísku þungarokki og doom-metal. Stefnan einkennist af hægum töktum, þungum bassa og hljóðtrufluðum gíturum sem oft eru stilltir í lægri tóntegundir.[1] Framleiðsla og söngur er mjög hrá. Stefnan spratt upp á síðari hluta 20. aldar með hljómsveitum á borð við Kyuss og Sleep.

Uppruni heitis[breyta | breyta frumkóða]

Slangrið „stóner-rokk“ kom upprunalega með plötunni Burn One Up! A Music For Stoners, safnplötu frá plötufyrirtækinu Roadrunner Records sem gefin var út 1997.[2] Á henni mátti heyra í Kyuss, Sleep, Fu Manchu og Queens of the Stone Age. Stuttu eftir gaf MeteorCity Records út stóner-rokksafnplötuna Welcome To MeteorCity: Desert Rock, Sludge and Cosmic Doom. Margir voru ósáttir með gælunafnið sem stefnan hafði fengið og sögðu að nafnið gæfi til kynna neyslu kannabisefna hjá tónlistarmönnum og þar af leiðandi að hún höfði aðeins til takmarkaðs hóps fólks.[3]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Áhrifavaldar á 7. áratug til miðs 9. áratugs[breyta | breyta frumkóða]

Hægt er að benda á nokkrar hljómsveitir og tiltekin lög þegar rekja á rætur stóner-rokks. Stefnan er tegund af þungarokks og á þar af leiðandi rætur að rekja á svipaðar slóðir. Black Sabbath eru oft taldir frumkvöðlar stóner-rokks og miklir mótendur þungarokks yfirleitt. Plöturnar Master of Reality og Black Sabbath Vol.4 eru oft kenndar við uppruna stóner-rokksins.[4] Til að mynda hefur hljómsveitin Sleep gert ábreiður af lögum af þessum plötum. Fyrrum söngvari Sleep, Al Cisnero, segir sjálfur: „... tónlist hefur aðeins farið versnandi eftir útgáfu plötunnar Black Sabbath Vol.4“.[5] Greg Parto ritaði á síðunni Allmusic: „Þegar talað er um stóner-rokk þá er algengt að horft sé framhjá hljómsveitinni Blue Cheer."[6] Fyrsta plata þeirra Vincebus Eruptum er talin mikill áhrifavaldur í stóner-rokki og einnig mótun þungarokks.[7] Sir Lord Baltimore er hljómsveit stofnuð 1968 sem hefur verið kölluð guðfaðir stóner-rokks og einnig hefur hljómsveitinn Leaf Hound verið margoft tengd við stofnun stefnunnar.[8] Eina plata hljómsveitarinnar Primevil, Smokin‘ bats at Camton‘s frá árinu 1974, hefur verð kölluð „hornsteinn stóner-rokks“.[9] Jim DeRogatis segir stóner-rokkið vera undir áhrifum djammsena hljómsveita eins og Cream, Black Sabbath, Deep Purple og Hawkwind. Einnig bætir hann við að rætur stóner-rokks felist í plötunni Master of Reality með Black Sabbath, plötum Hawkwinds frá 1973-1977, frægustu lögum Blue Cheer, Machine Head með Deep Purple og safnplötunni Workshop of the Telescopes með Blue Öyster Cult.[10] Á Allmusic er stefnunni lýst svo: „Stóner-metalhljómsveitir uppfæra löngu „hugarbjagandi“ stefin og ofurþungu gítartaktana frá hljómsveitum á borð við Black Sabbath, Blue Cheer, Blue Öyster Cult og Hawkwind með því að sía sýrurokkáhrifin í gegnum hljóm gruggstefnunnar.“[11]

Sumar hljómsveitir fengu ekki innblástur frá gömlu rokkgoðunum. Josh Homme, fyrrum gítarleikari Kyuss og stofnandi Queens of the Stone Age, segir að hann hafi aldrei haft áhuga á þungarokki og hafi meira að segja reynt að forðast að hlusta á tónlist sem átti að vera innblástur í senuna. Frekar náði hann í innblástur frá pönkplötum á borð við My War með hljómsveitinni Black Flag.[12]

Stóner rokk á seinni hluta 9. áratugs til 21. aldarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Í Kaliforníu á seinni hluta 9. áratugarins mynduðust nokkrar hljómsveitir sem hófu stóner-rokksenuna. Þó er fyrsta plata Soundgarden, Ultramega OK sem kom út 1988, talin fyrsta platan sem mætti skilgreina sem stóner-rokk.[13] Stóner-rokkið myndaðist í kringum það sem mætti kalla Palm Desert-senuna. Í þeirri senu voru hljómsveitir á borð við Kyuss, Nebula, Fu Manchu og fleiri. Fyrsta plata Kyuss Blues for the Red Sun kom hljómsveitinni strax á kortið og er talinn mikill hornsteinn í stefnunni.[14] Árið 1992 kom út platan Sleep‘s Holy Mountain með hljómsveitinni Sleep. Þessi plata varð strax vinsæl meðal aðdáenda stóner-rokks og voru þessar tvær hljómsveitir kallaðar „leiðtogar senunnar“.[15] Sama ár kom úr platan Spine of God frá þeim félögum í Monster Magnet. Hljómsveitin kom frá New Jersey og hafði þá tileinkað sér hljóm frá áður upptöldum hljómsveitum. Hljómsveitin Acid Kings varð til í Kaliforníu á svipuðum tíma.

Í Bretlandi varð til hljómsveit að nafni Acrimony sem mótaði stóner-rokksenuna þar. Þótt hún hafi aldrei náð almennilegri frægð hjálpaði hún verulega við myndun stóner-rokks í Bretlandi.[16] Meðal breskra stóner-rokkhljómsveita má nefna Orange Goblin, Electric Wizard og The Heads.

Eftir að Kyuss hættu árið 1995 fór gítarleikari hljómsveitarinnar Josh Homme að vinna að nýu verkefni sem kallaðist Desert Sessions. Verkefnið fór af stað í ágúst 1997 og fékk hann í lið með sér tónlistarmenn úr Palm Desert-senunni og er verkefnið enn í gangi í dag.[17]

Í september 1997 var stofnuð verslun að nafni All That's Heavy í Albuquerque, New Mexico. Eigendur voru Jadd Shickler og Aaron Emmel og seldu þeir sjaldgæft efni með hljómsveitunum Kyuss, Monster Magnet og Fu Manchu. Verslunin fór fljótt að bæta við sig og tóku inn plötur frá hljómsveitum með svipaðan stíl. Tillaga var birt á heimasíðu fyrrum Kyuss-aðdáenda að verslunin ætti að gefa út plötu með tónlist sem myndi höfða til aðdáenda Kyuss. Var þá stofnað útgáfufyrirtækið Meteor City Records og gáfu þau út plötuna Welcome to MeteorCity: Desert Rock, Sludge and Cosmic Doom. Platan kom út í maí 1998 og innihélt lög með hljómsveitum eins og The Atomic Bitchwax, Sixty Watt Shaman, Dozer, Fatso Jetson, Los Natas, Lowrider, Demon Cleaner og Goatsnake. Allt voru þetta hljómsveitir úr neðanjarðarsenunni og þetta því í fyrsta sinn sem þær heyrðust á plötu.

Samkvæmt stofnendum MeteorCity Records var á þessum tíma ekkert sem hét beinlínis „stóner-rokk“ og var tónlistin oft kölluð einfaldlega þungarokk eða metal.[18] „Tónlistin féll ekki undir neina ákveðna senu sem var í gangi á þeim tíma; kalla þurfti tónlistina eitthvað og varð „stóner-rokk“ fyrir valinu.“[18] Seinna fóru þessar neðanjarðarhljómsveitir á samning hjá MeteorCity Records ásamt hljómsveitum úr Palm Desert-senunni og öðrum frá Evrópu og víðar.[19]

Vefslóðin Stonerrock.com var stofnuð árið 1999 og varð hún að ákveðinni grunnstoð hjá þungarokksaðdáendum. [20]

Stóner rokk á 21. öldinni til dagsins í dag[breyta | breyta frumkóða]

Matt Pike söngvari hljómsveitarinnar High on Fire.

Árið 2000 kom út platan Rated R með hljómsveitinni Queens of the Stone Age sem var annað verkefni hans Josh Homme. Platan vakti nokkra athygli á þeim tíma.[21] Næsta plata þeirra Songs for the Deaf er talin sjöunda besta metal-plata allra tíma samkvæmt Roadrunner Records.[22]

Plötufyrirtækið Small Stone Records stóð fyrir útgáfu þriggja platna þar sem tekin voru lög frá 1970 og þau endurgerð af stóner-rokkhljómsveitum[23]. Plöturnar heita Right in the Nuts: A tribute to Aerosmith (2000), Sucking the 70‘s (2002) og Sucking the 70‘s – back in the saddle again (2006).

Hljómsveitin High on Fire var stofnuð 1998 af fyrrum gítarleikara Sleep, Matt Pike. Fyrsta plata þeirra The Art of Self Defence kom úr árið 2000 og fékk þó nokkuð góðar móttökur.[24] Hljómsveitin er enn virk.[25]

Nokkrir hljómsveitarmeðlima Kyuss komu aftur saman í mars 2011 undir nafninu Kyuss Lives!. Þeir fóru í tónleikaferðalag undir því nafni og spiluðu víða um Evrópu. Í mars 2012 var lögð fram kæra af hálfu Josh Homme og bassaleikarans Scott Reeder gegn John Garcia og Brant Bjork vegna notkunar nafnsins Kyuss.[26]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. http://rateyourmusic.com/genre/Stoner+Rock/ Skoðuð 11.mars 2012.
 2. http://www.fastnbulbous.com/stoner-rock.htm Geymt 14 mars 2012 í Wayback Machine Skoðuð 11.mars 2012.
 3. Jessica Hundley og John Srebalus. 2008. Such Hawks Such Hounds. Long Song Pictures, Draw Pictures.
 4. http://www.allmusic.com/artist/black-sabbath-p3693/biography Skoðuð 13.mars 2012.
 5. Jessica Hundley og John Srebalus. 2008. Such Hawks Such Hounds. Long Song Pictures, Draw Pictures.
 6. http://www.allmusic.com/album/r787619 Skoðuð 11.mars 2012
 7. http://www.allmusic.com/artist/p3713
 8. Sleazegrinder (March 2007). "The Lost Pioneers of Heavy Metal". Classic Rock.
 9. http://www.allmusic.com/album/r63852 Skoðuð 11.mars 2012.
 10. http://www.jimdero.com/OtherWritings/OtherStonersMDhtm[óvirkur tengill] Skoðuð 11.mars 2012.
 11. http://www.allmusic.com/style/stoner-metal-ma0000011961 Skoðuð 11.mars 2012.
 12. http://www.guardian.co.uk/music/2011/mar/25/kyuss-stoner-queens-stone-age Skoðuð 12.mars 2012.
 13. https://web.archive.org/web/20071203020527/http://www.rollingstone.com/reviews/album/233746/review/5943680?utm_source=Rhapsody&utm_medium=CDreview Skoðuð 11.mars 2012.
 14. http://www.allmusic.com/artist/kyuss-p39911/biography Skoðuð 11.mars 2012.
 15. http://www.allmusic.com/artist/sleep-p5456/biography Skoðuð 12.mars 2012.
 16. http://www.allmusic.com/artist/acrimony-p276037/biography Skoðuð 12.mars 2012.
 17. http://www.allmusic.com/artist/desert-sessions-p562207/biography Skoðuð 13.mars 2012.
 18. 18,0 18,1 Jessica Hundley og John Srebalus. 2008. Such Hawks Such Hounds. Long Song Pictures, Draw Pictures.
 19. http://www.cuttingedgerocks.com/Meteor.html Geymt 4 október 2011 í Wayback Machine Skoðuð 13.mars 2012.
 20. http://www.metalglory.de/interviews.php?nr=708 Geymt 27 september 2011 í Wayback Machine Skoðuð 13.mars 2012.
 21. https://archive.today/20120530061643/http://www.chartstats.com/artistinfo.php?id=557 Skoðuð 13. mars 2012.
 22. http://pub37.bravenet.com/forum/static/show.php?usernum=3172289350&frmid=10&msgid=1021337&cmd=show Skoðuð 13.mars 2012.
 23. www.smallstonerecords.com Skoðuð 13.mars 2012.
 24. http://www.stylusmagazine.com/reviews/high-on-fire/the-art-of-self-defence.htm Geymt 10 maí 2012 í Wayback Machine Skoðuð 13.mars 2012.
 25. http://www.popmatters.com/pm/review/121162-high-on-fire-snakes-for-the-divine Geymt 8 júní 2012 í Wayback Machine Skoðuð 13.mars 2012.
 26. http://www.gigwise.com/news/71347/Josh-Homme-files-lawsuit-against-Kyuss-Lives Skoðuð 13.mars 2012.