Snúningshurð (stjórnmál)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Snúningshurð (e. revolving door) er myndhverfingarhugtak úr stjórnmálafræði sem lýsir hringrás vinnuafls milli einkageirans og hins opinbera. Þannig lýsir hugtakið ferli þar sem opinberir starfsmenn ráða sig í vinnu hjá einkareknum fyrirtækjum og öfugt. Stjórnmálamenn koma sér þannig fyrir í stjórnunarstöður í einkageiranum og geta nýtt sér sérhæfða þekkingu sína og tengslanet til að auka velgengni fyrirtækisins. Að sama skapi gerast aðilar úr einkageiranum gjarnan opinberir starfsmenn á sömu forsendum og þeir fyrrnefndu, annað hvort með beinum lýðræðislegum hætti í gegnum kosningar eða eru tilnefndir til slíkra starfa af ráðamönnum. Þannig leitast þeir eftir því að hafa bein áhrif á iðnaðinn eða starfsgeirann sem um ræðir og beita kröftum sínum til að liðka fyrir vinveittum einkafyrirtækjum.

Bandaríkin[breyta | breyta frumkóða]

Snúningshurðarfyrirbærið er algengt í bandarískum stjórnmálum og vilja stjórnmála spekúlantar meina að sá ávinningur sem af þessu hlýst leiði til óheilbrigðs sambands milli einkageirans og hins opinbera, enn fremur er talið að slíkt geti beinlínis gengið gegn þjóðarhag og leitt til reglugerðarhertöku. Þannig finnast í ýmsum löndum löggjafir sem banna mönnum að flakka milli starfa sem opinber starfsmaður á ákveðnu sviði og beint til einkafyrirtækis sem starfar innan þess geira. Í Bandaríkjunum finnast lög sem banna opinberum starfsmönnum er koma að úthlutun verkefna á vegum hins opinbera að fara rakleiðis til starfa hjá einkafyrirtæki á sama sviði. Lögin kveða á um að slíkir starfsmenn þurfi að bíða í eitt ár milli þess sem þeir ráða sig í þannig störf. Kjósi þeir hins vegar að hefja samstundis störf hjá einkafyrirtækinu eftir að opinberum störfum þeirra er lokið, þurfa þeir að vinna að málum alls ótengdum sínu fyrra starfssviði, a.m.k. fyrsta árið. Ýmsir hafa bent á ákveðna smugu í lögunum þar sem þau ná ekki til margra háttsettra stefnumótandi aðila í bandarískri stjórnsýslu, en þeir geta margir hverjir ráðið sig til stórfyrirtækja eða sest í stjórnir þeirra án nokkurs biðtíma.

Þekkt dæmi um hugtakið[breyta | breyta frumkóða]

Mörg dæmi eru til um snúningshurðarfyrirbærið í bandarískum stjórnmálum en eitt það þekktasta snýr að Dick Cheney fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna. Cheney á langan feril að baki í bandarískum stjórnmálaum og gegndi hann m.a. lykilhlutverki í þremur ríkistjórnum Repúblikanaflokksins. Hann var starfsmannastjóri Hvíta hússins í forsetatíð Gerald Fords og þá var hann varnarmálaráðherra í ríkisstjórn George H. W. Bush. Loks gegndi hann hlutverki varaforseta í forsetatíð George W. Bush. Í forsetatíð Bills Clinton var Cheney hins vegar utan embættis og réði sig sem stjórnarformann og framkvæmdastjóra Halliburton og starfaði þar á árunum 1995 til 2000. Halliburton er alþjóðlegt risafyrirtæki sem hefur umfangsmikla starfsemi í olíu- og orkuiðnaðinum en fyrirtækið á einnig fjöldann allan af dótturfyrirtækjum sem starfa í öðrum geirum eins og t.d. hergagnaframleiðslu. Það er ekkert launungarmál að Cheney hafði í embættismannatíð sinni komið sér upp víðtæku tengslaneti. Náði það meðal annars til ráðamanna í ríkjum við Persaflóa en Halliburton hefur einmitt víðtæka starfsemi á því svæði. Því er haldið fram að Cheney hafi notað tengsl sem hann myndaði í embættismannatíð sinni í Bandaríkjunum, gagngert til þess að greiða leið Halliburton að enn umfangsmeiri starfsemi á svæðinu og þannig auka afkomu fyrirtækisins. Gagnrýnendur Cheneys benda á þann gríðarmikla fjárhagslega ávinning sem hann öðlaðist eftir stjórnartíð sína hjá Halliburton en eignir hans eru metnar á bilinu 30-100 milljónir dollara og eru að stærstum hluta tilkomnar vegna vinnu hans hjá Halliburton. Cheney sagði starfi sínu lausu hjá Halliburton árið 2000 og hélt því síðar fram þegar hann hafði tekið við hlutverki varaforseta árið 2001 að engir hagsmunaárekstrar gætu orðið í starfi hans þar sem hann væri ekki lengur starfsmaður fyrirtækisins. Cheney hefur staðfastlega neitað því að hafa tryggt Halliburton og tengdum félögum verkefni á vegum hins opinbera en gagnrýnendur telja að hann hafi vísvitandi blekkt bandarísku þjóðina. Máli sínu til stuðnings benda þeir t.a.m. á ákvarðanir ríkistjórnar George W. Bush um að veita vinveittum bandarískum stórfyrirtækjum, líkt og Halliburton, afar verðmæta samninga tengda enduruppbyggingu í Írak en neitað íröskum- og öðrum erlendum fyrirtækjum aðkomu að því verkefni.

Þetta dæmi sýnir hversu neikvæðar afleiðingar snúningshurðarfyrirbærið getur haft í för með sér þar sem ákveðnir aðilar geta hagnast gríðarlega án nokkurs tillits til þjóðarhags.

Sjá einnig[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]