Fara í innihald

Myndhverfing

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Myndhverfing eða myndhvörf (forngríska: μεταφορά, metafora) er stílbragð sem felst í að orð er notað í óeiginlegri merkingu til að tákna eitthvert fyrirbæri sem hefur líkindi með bókstaflegri merkingu orðsins. Bókstaflega merkingin verður þá mynd sem brugðið er upp en afleidda merkingin verður merkingarmið hennar. Setningin „Öll veröldin er leiksvið“[1] er dæmi um myndhverfingu, leiksviðið er myndin en veröldin merkingarmiðið. Þegar sagt er: Maðurinn er blóm, þá er það myndhverfing, en sé sagt: Maðurinn er eins og svín, þá er það viðlíking.

Myndhvörf eru náskyld viðlíkingu en munurinn felst í að í viðlíkingu er myndin og merkingarmiðið borin saman berum orðum, til dæmis væri „Öll veröldin er eins og leiksvið“ viðlíking. Myndhvörf eru frábrugðin nafnskiptum á þann hátt að í myndhverfingu er ævinlega eitthvað líkt með mynd og merkingarmiði en í nafnskiptum eru tengsl án líkinda milli fyrirbæranna. Persónugerving er stundum talin tegund af myndhverfingu.

Myndhvörf eru algeng í ljóðlist en koma einnig víða fyrir í öðrum textum og töluðu máli.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Úr leikritinu Sem yður þóknast eftir William Shakespeare, 2.7. þýð. Helga Hálfdanarsonar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Jakob Benediktsson (1983). Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.
  • Óskar Halldórsson (1977). Bragur og ljóðstíll. Hið íslenska bókmenntafélag.

Fyrirmynd greinarinnar var „Metaphor“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 17. desember 2006.