Skrökva

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Skrökva - Félag flokksbundinna framapotara
Fylgi 13,6%
Formaður Þórarinn Snorri Sigurgeirsson
Varaformaður Freyja Steingrímsdóttir
Stofnár 2010
Lagt niður 20. janúar 2012
Höfuðstöðvar Bergstaðastræti 45, 101 Reykjavík
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Húmor, Umbótastefna
Einkennislitur Appelsínugulur
Sæti í Stúdentaráði
Sæti á Háskólaþingi
Vefsíða www.skrokva.hi.is

Skrökva - félag flokksbundinna framapotara, sem í daglegu tali er kölluð Skrökva, var hreyfing stúdenta við Háskóla Íslands, sem bauð fram lista til Stúdentaráðs HÍ árin 2010 og 2011 og hlaut tvo fulltrúa í Stúdentaráð í báðum kosningunum. Síðasti oddviti Skrökvu í Stúdentaráði var Kolbrún Þorfinnsdóttir. Kjörorð Skrökvu voru "Alveg eins og hinir - bara betri."

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Skrökva var stofnuð í janúar árið 2010 til þess að bjóða fram lista gegn Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta og Röskvu, samtökum félagshyggjufólks við HÍ. Skrökva var hugarfóstur nokurra stjórnmálafræðinema sem leiddist starfsemi ráðandi fylkinga og þótti skipulag Stúdentaráðs ábótavant. Fljótega vatt hugmyndin upp á sig og að endingu var ákveðið að bjóða fram lista til Stúdentaráðs. Nafnið Skrökva er vísun í nöfn hinna fylkinganna, Vöku og Röskvu, auk þess að vera háðsleg skírskotun í lygaeðli stjórnmála. Fyrsti formaður félagsins var Gunnar Hörður Garðarsson. Skrökva náði aldrei meirihluta í Stúdentaráði en í bæði skiptin sem félagið bauð fram náði það tveimur mönnum inn í ráðið.[1] Í fyrra skiptið sem Skrökva bauð fram tókst henni að raska meirihlutanum í Stúdentaráði, en fram að því höfðu Röskva og Vaka skiptst á að vera í algjörum meirihluta.[2] Fulltrúar Skrökvu neituðu að mynda meirihluta með fulltrúum Röskvu eða Vöku, svo fyrsta sinn í langan tíma var því enginn raunverulegur meirihluti í Stúdentaráði. Skiptar skoðanir hafa verið um ágæti meirihlutaleysisins, en fullvíst má telja að það hafi breytt landslaginu í háskólapólitík Háskóla Íslands. Einkennislitur Skrökvu var appelsínugulur, sem var valinn til þess að vera mitt á milli gula lit vöku og rauða lit Röskvu. Merki Skrökvu var snákur sem hringar sig utan um nafn félagsins, og er augljós vísun í táknfræði snáka og lyga. Haustið 2011 samþykktu allar fylkingar í Stúdentaráði ný lög fyrir Stúdentaráð sem tóku gildi árið 2013. Samkvæmt nýju lögunum er nú kosið innan sviða ásamt því að einstaklingum og smærri listum gefst kostur á að bjóða sig fram og kjósendur geta kosið þvert á lista. Í kjölfar breytinganna var Skrökva lögð niður á þriðja aðalfundi félagsins þann 20. janúar 2012.[3]

Stefna[breyta | breyta frumkóða]

Skrökva skilgreindi sig ekki eftir sömu aðferðum og Vaka og Röskva, þar sem helsta baráttumál Skrökvu var að útrýma flokkakerfinu í SHÍ, og þar með sjálfri sér. Félagið var háðsádeila sem beitti húmor og sandkassapólitík (eins og meðlimir hreyfingarinnar orðuðu það sjálf) til jafns við alvörugefna ádeilu á stjórnskipun Stúdentaráðs. Félagið gaf út tvöfalda stefnuskrá. Önnur bar heitið "Mikilvægasta manifestó í heiminum" og í henni bar Skrökva upp fráleitar kröfur á borð við "ókeypis ömmur sem hugga stúdenta á prófatímum" og "Stúdentaráð verði hjásvæfa stúdenta." Hin stefnuskráin hafði ekkert heiti og var öllu alvörugefnari, en með henni vildi Skrökva leggja áherslu á þau skaðlegu áhrif sem hún taldi flokkakerfi hafa á réttindabaráttu stúdenta. Skrökva hefur kallaði eftir breiðari þátttöku stúdenta í háskólapólitík og upptöku einstaklingskjörs innan deilda háskólans. Með því taldi Skrökva að hagsmunabarátta stúdenta yrði markvissari og áhrifaríkari.

Skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Skrökva hafði tvo fulltrúa í Stúdentaráði HÍ á tímabilinu 2010-2012, en taldi hreyfingin ekki nauðsynlegt að bjóða fram lista til háskólaþings. Æðsta vald Skrökvu var árlegur aðalfundur, sem kallaður var heimsyfirráð. Þess á milli stýrði æðsta ráð starfsemi Skrökvu og boðaði til reglulegra umræðu- og stefnunmótunarfunda sem voru opnir öllum áhugasömum og nefndust baktjaldamakk. Aukaaðalfundir Skrökvu nefndust Leifturstríð og spjallsvæði félagsins á vefnum nefndist Reykfyllta bakherbergið. Seinasti formaður Skrökvu var Þórarinn Snorri Sigurgeirsson.

Stúdentaráðsliðar Skrökvu 2011-2012[breyta | breyta frumkóða]

Varamenn

Snákaorða Skrökvu[breyta | breyta frumkóða]

Reglulega veitti formaður Skrökvu vel völdum einstaklingum Snákaorðuna sem er æðsta heiðursorða innan Skrökvu. Þeir sem gátu hlotið orðuna eru einstaklingar sem höfðu unnið stefnu Skrökvu brautargengi með einum eða öðrum hætti. Orðunni fylgdi titillinn Hinn háæverðurgi stórbarónn og erkiframapotari Skrökvu. Fyrsti orðuhafi Snákaorðunnar var Arnór Bjarki Svarfdal. Síðar voru einnig veittar Stórsnákaorða og Heiðursorða Skrökvu, sú síðarnefnda til aðila sem stóðu utan hreyfingarinnar.

Orðuhafar Snákaorðunnar[breyta | breyta frumkóða]

Snákaorðuhafar[breyta | breyta frumkóða]

 • Arnór Bjarki Svarfdal - Fyrir öfluga upplýsingamiðlun í þágu Skrökvu
 • Freyja Steingrímsdóttir - Fyrir flokkslega forystu sem varaformaður
 • Hjálmar Hinz - Fyrir ábyrga fjármálastjórnun
 • Kolbrún Þorfinnsdóttir - Fyrir pólitíska forystu sem oddviti
 • Stefán Rafn Sigurbjörnsson - Fyrir pólitíska forystu sem oddviti
 • Þórarinn Snorri Sigurgeirsson - Fyrir flokkslega forystu sem formaður

Stórsnákaorðuhafar[breyta | breyta frumkóða]

 • Gunnar Hörður Garðarsson - Fyrir framúrskarandi formennsku og allskonar
 • Viktor Orri Valgarðsson - Fyrir óbilandi einurð og öflugheit sem fremsti talsmaður Skrökvu

Heiðursorða Skrökvu[breyta | breyta frumkóða]

 • Hanna María Guðbjartsdóttir, Röskvu - Fyrir að vera öflugur talsmaður umbóta innan SHÍ og Röskvu
 • Stefán Þór Helgason, Vöku - Fyrir að vera öflugur talsmaður umbóta innan SHÍ og Vöku

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. http://mbl.is/frettir/innlent/2011/02/03/vaka_sigradi_i_kosningunum/ Mbl.is 03.02.2011
 2. http://mbl.is/frettir/innlent/2010/02/05/skrokva_i_oddaadstodu/ Mbl.is 05.02.2010
 3. http://mbl.is/frettir/innlent/2012/01/20/skrokva_leggur_sig_nidur/ Mbl.is 20.01.12