Fara í innihald

Sire Ottesen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sire Ottesen (17997. febrúar 1878) eða Sigríður Elísabet Þorkelsdóttir Bergmann var íslensk kona sem stundaði veitingarekstur í Reykjavík um miðbik 19. aldar og er þekktust fyrir samband sitt við Arthur Dillon, síðar lávarð. Hún þótti sérlega glæsileg kona og var af mörgum talin ein fegursta kona landsins á sinni tíð.

Hjónaband og skilnaður

[breyta | breyta frumkóða]

Sire var dóttir Þorkels Guðmundssonar Bergmann, sem var annar fyrsti kaupmaður í Reykjavík og um skeið forstjóri Innréttinganna, og Sigríðar Þorsteinsdóttur. Hún fæddist í Kaupmannahöfn og ólst þar upp að mestu, enda þótti málfar hennar ætíð mjög dönskublandið og sérkennilegt. Hún hafði ekki náð fimmtán ára aldri þegar hún giftist Lárusi Ottesen kaupmanni árið 1814. Hann var bróðursonur Sigurðar Stefánssonar Hólabiskups og Ólafs Stephensen stiftamtmanns. Sama ár eignaðist hún soninn Þorkel Valdimar Ottesen, síðar verslunarmann, og ári síðar fæddist annar sonur, Pétur Oddur Ottesen, bóndi og dannebrogsmaður á Ytra-Hólmi, afi Péturs Ottesen alþingismanns.

Sire og Lárus skildu að borði og sæng árið 1819, þegar hún var aðeins tvítug, og fór hún þá að vinna fyrir sér sem stofustúlka eða vinnukona. Nokkru síðar eignaðist hún son með ungum skólapilti og síðan annan með Petersen faktor, en hún var þá ráðskona hans. Báðir þessir drengir dóu á fyrsta ári. Þá var manni hennar nóg boðið og fékk hann lögskilnað við hana en hún var dæmd fyrir hórdóm.

Dillon lávarður

[breyta | breyta frumkóða]

Um 1830 var Sire Ottesen farin að sjá um Klúbbinn, sem var helsti skemmtistaður Reykvíkinga á þeim tíma, og var þar oft stíft drukkið og svallað. Sumarið 1834, þegar hún var 35 ára, kom til landsins 22 ára enskur aðalsmaður, Arthur Dillon, sem hugðist skrifa bók um ferðalag sitt. Hann fékk leigt herbergi í Reykjavík en var í fæði í Klúbbnum. Herbergið var óupphitað og þegar kólna fór í veðri sóttist hann mjög eftir hlýjunni í Klúbbnum, sem líklega hefur verið mest í faðmi veitingakonunnar, því ekki leið á löngu þar til hann var fluttur þangað og hún átti von á barni.

Sire fékk úthlutað lóð undir hús og matjurtagarð um veturinn og hóf þegar að láta reisa hús, sem Dillon kostaði. Þau fluttu þar inn áður en það var fullbyggt. Þann 13. júní 1835 fæddi Sire dóttur sem fékk nafnið Henrietta eftir móður Dillons. Hann hafði í hyggju að kvænast henni en þar voru ljón í veginum, annars vegar að Dillon var kaþólskur og þurfti undanþágu til að mega giftast og hins vegar að hann þurfti svaramenn sem gætu tekið ábyrgð á því að hjónabandið væri meinbugalaust. Þau Sire sóttu um hjúskaparleyfi til stiftsyfirvalda, sem vísuðu málinu til kansellísins í Kaupmannahöfn, en það synjaði um þær undanþágur sem til þurfti og varð ekkert af hjúskapnum.

Fjölskyldu Dillons mun ekki hafa litist á blikuna þegar þau fréttu af væntanlegum ráðahag og kom eldri bróðir hans til Reykjavíkur að telja honum hughvarf. Vera má að ástin hafi eitthvað verið tekin að dofna en svo mikið er víst að Dillon ákvað að snúa heim til Englands. Hann skildi þó Sire ekki eftir slyppa og snauða, heldur gaf henni húsið, sem jafnan var nefnt Dillonshús, og gerði auk þess erfðaskrá þar sem hann ánafnaði Henriettu 1500 sterlingspundum og Sire 700 pundum, sem var geysimikið fé. Þennan arf fengu þær þó aldrei, enda voru þær báðar látnar á undan Dillon, auk þess sem erfðaskráin týndist og var glötuð í heila öld, en fannst þá að nýju.

Veitingasali og húsmóðir

[breyta | breyta frumkóða]

Sire Ottesen bjó áfram í Dillonshúsi og rak þar lengi veitingasölu, hélt dansleiki og leigði út gistiherbergi. Á meðal leigjenda hjá henni var Jónas Hallgrímsson, sem bjó í Dillonshúsi veturinn 1841-1842, síðasta vetur sinn á Íslandi. Sire hætti dansleikjahaldi og vínsölu þegar dóttir hennar komst á unglingsár, að sögn vegna þess að hún vildi ekki að hún yrði fyrir áhrifum af svallinu, og hafði eftir það ýmsa leigjendur í húsinu, þar á meðal Ágústu og Þóru Johnson, dætur Gríms Jónssonar amtmanns, sem ráku þar fyrsta kvennaskóla landsins 1851-1853. Hann var undanfari Kvennaskólans í Reykjavík, sem Þóra stofnaði síðar.

Henríetta ólst upp með móður sinni og giftist árið 1862 dönskum kaupmanni að nafni Levinsen. Sire var lengi í skjóli dóttur sinnar en síðustu árin dvaldi hún hjá syni sínum, Pétri Ottesen á Ytra-Hólmi. Þar dó hún 78 ára árið 1878.

  • „„Titillinn einn og nokkur málverk minna á ættina." DV, 7. maí 1988“.
  • „„Eldheit ást fylgir Dillonshúsi." Morgunblaðið, 3. apríl 1998“.
  • „„Heimsókn í Dillonshús til Lárusar Sigurbjörnssonar skjalavarðar." Vísir, 20. september 1963“.
  • „„Hvað varð um afkomendur Dillons lávarðar á Íslandi?" Morgunblaðið, 13. janúar 1963“.