Sigtryggur Ólafsson silkiskegg
Sigtryggur Ólafsson silkiskegg (írska: Sihtric eða Sitric mac Amlaeibh), konungur í Dyflinni 989 – 1036, var sonur Ólafs Sigtryggssonar kvaran konungs í Dyflinni og Kormlaðar (Gormflaith) drottningar. Hann var helsti leiðtogi víkinga í Brjánsbardaga árið 1014, þó að hann tæki ekki þátt í bardaganum sjálfur.
Árið 989 tók Sigtryggur við af hálfbróður sínum, Glúniairn Ólafssyni sem konungur í Dyflinni. Hann var rekinn frá borginni 994 – 995 af Ívari (Imar) konungi í Waterford.
Árið 998 gerði frændi Sigtryggs, Máel Mórda mac Murchada konungur í Leinster, uppreisn gegn Brjáni yfirkonungi Írlands. Sigtryggur studdi frænda sinn, en þeir biðu ósigur 999 í orustunni við Glen Mama. Til þess að innsigla frið, giftist Brjánn Kormlöðu móður Sigtryggs, og gifti um leið Sigtryggi dóttur sína. Þegar Brjánn skildi við Kormlöðu nokkrum árum síðar, fór hún að æsa til uppreisnar gegn honum. Sigtryggur fékk til liðs við sig Sigurð Hlöðvisson Orkneyjajarl og víkingahöfðingjann Bróður frá Mön. Þetta leiddi til átaka (1012) sem lauk með Brjánsbardaga 23. apríl 1014. Írar undir forystu Brjáns unnu sigur, en Brjánn var drepinn eftir bardagann. Sigtryggur tók ekki þátt, heldur fylgdist með orustunni af virkisvegg Dyflinnar.
Sigtryggur silkiskegg ríkti lengst allra norrænna konunga í Dyflinni. Á hans dögum var fyrsta dómkirkjan þar byggð, um 1030, þar sem Kristkirkjan í Dyflinni stendur nú.
Sigtryggur lét af völdum um 1036. Hann átti þá ekki son á lífi og kaus sem eftirmann Margað Rögnvaldsson (Echmarcach mac Ragnaill) frænda sinn. Sigtryggur gekk síðar í klaustur og dó um 1042.
Ekki er vitað með vissu hvað kona Sigtryggs hét, en hún var dóttir Brjáns konungs. Meðal barna Sigtryggs voru:
- Ólafur, dó um 1030.
- Amlainbh (Haraldur), drepinn 1034.
- Gluniairn (Járnkné), dó 1031.
- Gofraid (Guðröður), dó 1036.
- Cailleach-Finnain, (dóttir), dó 1042 í sama mánuði og faðir hennar.
(Ath. Norsku og frönsku Wikipediunni ber ekki saman um börnin).
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Sigtryggr Silkiskegg“ á frönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 23. nóvember 2008.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Aðdragandi Brjánsbardaga, á ensku Geymt 6 júní 2014 í Wayback Machine