Brjánsbardagi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Brjánsbardagi (írska: Cath Chluain Tarbh) varð föstudaginn langa, 23. apríl 1014, á Uxavöllum (Clontarf – chluana = engi, tarbh = tarfur, uxi), sem eru norðan við höfnina í Dyflinni á Írlandi. Þar tókust á Brjánn yfirkonungur Írlands og konungurinn í Leinster, Máel Mórda mac Murchada, sem hafði fengið til liðs við sig málaliða frá Orkneyjum og Dyflinni, undir stjórn Sigtryggs silkiskeggs Dyflinnarkonungs. Bardaganum lauk með algerum ósigri Máel Mórda, en Brjánn var drepinn af nokkrum norrænum mönnum, sem á flótta rákust á tjald hans. „Brjánn féll, en hélt velli“, eins og segir í vísu um bardagann, undir lok Njáls sögu. Eftir orustuna breyttist Írland aftur í ríki nokkurra smákonunga, eins og verið hafði fyrir daga Brjáns konungs.

Aðalheimildir um orustuna eru írskar, m.a. samtímaannálar og ritið Landvörn Íra gegn víkingum (Cogadh Gáedhel re Gallaibh) frá 12. öld. Í Njáls sögu er eftirminnileg lýsing á Brjánsbardaga og aðdraganda hans, þar sem dularfull öfl leika stórt hlutverk.

Brjánsbardagi skipar sérstakan sess í hugum Íra, sem samið hafa söngva og sögur um bardagann og Brján konung.

Friðrik Ásmundsson Brekkan samdi skáldsögu um Brjánsbardaga: Saga af Bróður Ylfing. Hún kom fyrst út á dönsku 1924: Ulveungernes broder, en var brátt þýdd og að nokkru endursamin á íslensku (Akureyri 1929). Ljósprentuð 1988 í tilefni af aldarafmæli höfundarins.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]