William Turner
Joseph Mallord William Turner (23. apríl 1775 – 19. desember 1851) var enskur listmálari. Turner fylgdi rómantísku stefnunni og málaði aðallega landslagsmyndir. Stíll hans var nokkuð frábrugðinn flestra annarra málara rómantísku stefnunnar og litið er á hann sem eins konar forsmekk að impressionismanum, og hafði hann áhrif á impressionista á borð við Claude Monet.
Turner er frægur fyrir að mála ljós, t.d. sólsetur. Eitt þekktasta dæmið um þetta er málverkið The Fighting Temeraire tugged to her last Berth to be broken up, 1838, þar sem hæfni Turners til að mála áhrif ljóssins sjást vel. Einnig málaði hann önnur náttúrufyrirbrigði (t.d. storm og þoku), hamfarir og slys (t.d. skipsskaða). Þekkt dæmi um málverk hans af skipbrotum er The shipwreck of the Minotaur sem byggt var á raunverulegum atburði. Turner var reyndar byrjaður á verkinu löngu áður en atburðurinn átti sér stað en nefndi málverkið eftir slysinu vegna þess hve umtalað það varð á Englandi.
Turner ferðaðist víða um Evrópu til þess að læra og þróa list sína. Meðal annars ferðaðist hann til Frakklands og Ítalíu. Í Frakklandi lærði hann í Louvre safninu í París og á Ítalíu ferðaðist hann nokkrum sinnum til Feneyja, þar sem hann málaði mörg verk. Einnig ferðaðist hann til Rómar og málaði myndir af borginni, meðal annars verkið Modern Rome – Campo Vaccino sem árið 2010 varð dýrasta verk Turners er það seldist á uppboði á 29,7 milljón pund.
Turner var umdeildur málari í sinni samtíð en vegur hans hefur farið vaxandi enda er hann nú á dögum einn virtasti málari Englands. Málverkið The Fighting Temeraire var árið 2005 valið besta málverk Bretlands í skoðanakönnun BBC.
Myndasafn
[breyta | breyta frumkóða]-
Calais Pier (1803)
-
The shipwreck of the Minotaur (1810)
-
Chichester Canal (1828)
-
The Grand Canal - Venice (1835)
-
Ovid Banished From Rome (1838)
-
The Fighting Temeraire tugged to her last Berth to be broken up, 1838 (1839)
-
Modern Rome – Campo Vaccino (1839)
-
Rain, Steam, and Speed – The Great Western Railway (1844)