Sandra Day O'Connor

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sandra Day O'Connor
Dómari við hæstarétt Bandaríkjanna
Í embætti
25. september 1981 – 31. janúar 2006
ForveriPotter Stewart
EftirmaðurSamuel Alito
Persónulegar upplýsingar
Fædd26. mars 1930(1930-03-26)
El Paso, Texas, Bandaríkjunum
Látin1. desember 2023 (93 ára) Austin, Texas, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarísk
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiJohn Jay O'Connor (g. 1952; d. 2009)
Börn3
HáskóliStanford-háskóli
StarfLögfræðingur
Undirskrift

Sandra Day O'Connor (26. mars 1930 – 1. desember 2023) var bandarískur lögfræðingur, stjórnmálamaður og dómari sem sat í Hæstarétti Bandaríkjanna frá árinu 1981 þar til hún settist í helgan stein árið 2006. Hún var fyrst kvenna til að gegna embætti Hæstaréttardómara í Bandaríkjunum.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Sandra Day O'Connor fæddist í El Paso í Texas og ólst upp á búgarði í Arizona. Hún nam lögfræði við Stanford-háskóla og var þar samnemandi Williams Rehnquist, sem varð síðar forseti Hæstaréttarins. Hún hóf lagaferil sinn sem saksóknari í sýslunni San Mateo í Kaliforníu á árunum 1952 til 1953. Árið 1969 var hún kjörin á öldungadeild fylkisþings Arizona fyrir Repúblikanaflokkinn. Hún varð árið 1973 fyrsta konan til að leiða þingmeirihluta á efri deild fylkisþings í Bandaríkjunum.

Þann 19. ágúst árið 1981 útnefndi Ronald Reagan Bandaríkjaforseti O'Connor í Hæstarétt Bandaríkjanna eftir að Potter Stewart settist í helgan stein. Hún var fyrsta konan sem var útnefnd í Hæstaréttinn og tilnefning hennar var staðfest einhljóða af öldungadeild Bandaríkjaþings þann 21. september. Hún tók við embættinu þann 25. september 1981.

Á tíunda áratugnum og fyrsta áratugi 21. aldar gegndi O'Connor mikilvægu hlutverki í Hæstaréttinum þar sem hún stóð nálægt hugmyndafræðilegri miðju hans. Hún greiddi því úrslitaatkvæðið í mörgum dómsmálum, sér í lagi í málum sem tengdust trúarbrögum og þungunarrofum. Hún skrifaði meirihlutaálitið í dómi Bush gegn Gore þar sem komið var í veg fyrir endurtalningu atkvæða í Flórída eftir forsetakosningarnar árið 2000. Í máli Roper gegn Simmons í mars 2005 fór hún gegn meirihlutaáliti Hæstaréttarins um að dauðarefsingar á fólki yngra en 18 ára stæðist ekki stjórnarskrána.

Þann 1. júlí árið 2005 tilkynnti O'Connor að hún hygðist láta af störfum, en þá höfðu margir átt von á að forseti Hæstaréttarins, William Rehnquist, væri í þann mund að hætta.[2] Tilkynning hennar leiddi til átaka milli Repúblikana og Demókrata á þingi um eftirmann hennar. Þann 21. júlí 2005 útnefndi George W. Bush forseti John G. Roberts, dómara úr áfrýjunardómi höfuðborgarumdæmisins til að taka við af O'Connor.

Eftir að Rehnquist lést þann 3. september ákvað Bush að útnefna Roberts frekar í embætti forseta Hæstaréttarins. Þann 3. október útnefndi Bush ráðgjafa sinn, Harret Miers, til að taka við af O'Connor. Þessari útnefningu var illa tekið af þingmönnum beggja flokka og hún var að endingu dregin til baka. Loks útnefndi Bush dómarann Samuel Alito til að taka við sæti O'Connor í Hæstaréttinum. Öldungadeildin samþykkti útnefningu hans þann 31. janúar 2006. Síðasta meirihlutaálitið sem O'Connor flutti sem Hæstaréttardómari var í málinu Ayotte gegn Planned Parenthood of Northern New England þann 18. janúar, sem tengdist réttindum til þungunarrofs.

Árið 2008 tók O'Connor þátt í stofnun iCivics, samtaka sem framleiða fræðandi tölvuleiki sem dreift er á netinu.

Árið 2018 upplýsti O'Connor að hún hefði greinst með byrjunarstig vitglapa, líklega Alzheimer-sjúkdóm. O'Connor lést þann 1. desember árið 2023, 93 ára að aldri.[3]

Einkahagir[breyta | breyta frumkóða]

Sandra Day O'Connor var gift John Jay O'Connor frá árinu 1952 þar til hann lést úr Alzheimersveiki árið 2009. Þau áttu þrjá syni saman. Í október árið 2018 lýsti O'Connor því yfir að hún hygðist setjast alfarið í helgan stein eftir að hafa greinst með svipaða veiki.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Weisman, Steven R. (7. júlí 1981). „Reagan Nominating Woman, an Arizona Appeals Judge, to Serve on Supreme Court“. The New York Times. Sótt 10. september 2009.
  2. Alain Salles (2. júlí 2005). „Aux Etats-Unis, la démission d'une juge place la Cour suprême au coeur d'une bataille politique“ (franska). Le Monde. Sótt 5. ágúst 2020.
  3. „Sandra Day O'Connor látin“. mbl.is. 1. desember 2023. Sótt 1. desember 2023.
  4. „Justice Sandra Day O'Connor announces she has been diagnosed with dementia“ (enska). CNN. 23. október 2018. Sótt 5. ágúst 2020.