Sólarljóð
Sólarljóð – (nafnið er yfirleitt haft í fleirtölu: Sólarljóðin) – eru gamalt íslenskt helgikvæði sem líkist sumum Eddukvæðum að bragarhætti og myndmáli. Það hefur að geyma kristna lífsspeki og minnir um margt á Hávamál. Það er alls 82 (eða 83) erindi, er kveðið undir ljóðahætti, rétt eins og t.d. Hávamál og Hugsvinnsmál. Sólarljóð flokkast oftast undir leiðslukvæði. Höfundur þeirra er óþekktur.
Uppruni Sólarljóða
[breyta | breyta frumkóða]Í kvæðinu birtist kristinn og heiðinn hugarheimur á sérstæðan hátt, og töldu margir að kvæðið væri ort á mörkum heiðni og kristni. Nú er talið að eigið hugarflug skáldsins og kynni af Eddukvæðum hafi haft þessi áhrif. Þó að skiptar skoðanir séu um aldur kvæðisins, hallast flestir að því að kvæðið sé ort á árunum 1200–1250. Sólarljóð eru varðveitt í 44 pappírshandritum, og eru þau elstu frá 17. öld. Í einu þeirra er vitnað til skinnhandrits sem skrifað var eftir.
Innihald ljóðanna
[breyta | breyta frumkóða]Í Sólarljóðum birtist faðir syni sínum í draumi, og ávarpar hann frá öðrum heimi. Kvæðið getur því talist til leiðslubókmennta, sem voru vinsælar á miðöldum. Kvæðið birtir kaþólska heimsmynd og leiðsögn um refilstigu lífsins. Sá sem hafði tileinkað sér boðskap kvæðisins kunni bæði að lifa og deyja, og gat því hlotið eilífa sáluhjálp.
Nafnið Sólarljóð kemur fram í 81. erindi, og er sótt í vísur 39-45, sem allar byrja á orðunum, Sól eg sá ....
Sólarljóð eru með þekktustu kvæðum íslenskum, og þykja „eitt stórkostlegasta trúarljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu“ (Njörður P. Njarðvík). Sólarljóð eru einnig auðskilin nútíma lesendum; t.d. er seinni hluti 82. erindis fluttur við flestar íslenskar jarðarfarir:
- Hér við skiljumst
- og hittast munum,
- á feginsdegi fira.
- Drottinn minn
- gefi dauðum ró,
- og hinum líkn er lifa.
Í sumum handritum er bætt við 83. erindinu, sem er talið yngri viðauki og er sleppt í flestum útgáfum. Það hljóðar svo:
- Dásamlegt frœði
- var þér í draumi kveðið,
- en þú sást hið sanna.
- Firða enginn
- var svo fróður skapaður,
- er áður heyrði Sólarljóðs sögu.
Sæmundur fróði og Sólarljóðin
[breyta | breyta frumkóða]Sólarljóð eru í sumum handritum eignuð Sæmundi fróða, en það er úr lausu lofti gripið, og er höfundurinn óþekktur. Sú hugmynd kemur þó fram í þjóðsögum. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar stendur: „Sæmundur andaðist 1133, en með hverjum atburðum höfum vér eigi heyrt; þó segja menn, að hann þrídagaður hafi úr líkrekkjunni risið og þá kveðið þá drápu, er hans Ljóða-Eddu er vön að fylgja og kallast Sólarljóð.“
Útgáfur
[breyta | breyta frumkóða]Sólarljóð eru til í allmörgum útgáfum, oft sem viðauki með Eddukvæðum. Af útgáfum má einkum nefna:
- Edda rhytmica seu antiquor, volgo Sæmundina dicta. Pars I, Hafníæ 1787. – Frumútgáfan með latneskri þýðingu; fylgir Sæmundar-Eddu.
- Fredrik Paasche: Kristendom og kvad. En studie i nordisk middelalder. Kristiania 1914.
- Hjalmar Falk (útg.): Sólarljóð. Kristiania 1914.
- Björn M. Ólsen (útg.): Sólarljóð. Reykjavík 1915. Hið íslenska bókmenntafélag.
- Njörður P. Njarðvík (útg.): Sólarljóð. Reykjavík 1991. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Menningarsjóður, Íslensk rit 10. – Almenningsútgáfa.
- Njörður P. Njarðvík (útg.): Solsången. Gautaborg 1993. – Doktorsritgerð við Gautaborgarháskóla, fjallar að nokkru leyti um varðveislu textans.
- Hermann Pálsson: Sólarljóð og vitranir annarlegra heima. Reykjavík 2002. – Þar er m.a. umfjöllun um leiðslur.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Sólarljóð“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 28. ágúst 2008.
- Njörður P. Njarðvík (útg.): Sólarljóð. Reykjavík 1991.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Sólarljóð — Sophus Bugge gaf út 1867
- Sólarljóð — Björn M. Ólsen gaf út 1915
- Sólarljóð — Geymt 11 desember 2008 í Wayback Machine Texti úr Den norsk-islandske skjaldedigtning: Finnur Jónsson og Ernst A. Kock
- Sólarljóð — Útgáfa Guðna Jónssonar, 1949, með samræmdri stafsetningu
- Sögn um Sæmund fróða og Sólarljóð; — Smágrein í Lesbók Morgunblaðsins 1960. — Texti