Hermann Pálsson
Hermann Pálsson (26. maí 1921 – 11. ágúst 2002) var íslenskur fræðimaður og þýðandi, sem var lengst prófessor í íslenskum fræðum við Edinborgarháskóla.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Hermann Pálsson fæddist í Sauðanesi á Ásum, skammt frá Blönduósi í Húnavatnsþingi. Hann lést af völdum slyss í Bourgas í Búlgaríu.
Foreldrar hans voru Páll Jónsson (1875–1932) bóndi í Sauðanesi, og kona hans Sesselja Þórðardóttir (1888–1942) frá Steindyrum í Svarfaðardal. Systkini Hermanns voru tólf talsins.
Hermann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Akureyri 1943 og cand. mag. prófi við Háskóla Íslands 1947. Hann fór síðan til Írlands og lauk BA-prófi í keltneskum fræðum við Írlandsháskóla í Dyflinni. Frá árinu 1950 kenndi hann íslensk fræði við Edinborgarháskóla, fyrst sem lektor en um árabil sem prófessor. Frá árinu 1982 gat hann að mestu helgað sig fræðistörfum, uns hann fór á eftirlaun 1988.
Um tíma var hann gistiprófessor við Toronto-háskóla og Berkeley-háskóla. Hann var vinsæll fyrirlesari og flutti fjölmarga fyrirlesta víða um heim.
Hermann var afkastamikill fræðimaður á sviði norrænna fræða. Fjöldi fræðirita kom frá hendi hans, ekki síst eftir að hann fór á eftirlaun 1988, þau síðustu eftir að hann féll frá. Ungur vakti hann athygli fyrir bækurnar Söngvar frá Suðureyjum (1955) og Sagnaskemmtun Íslendinga (1962). Hann fékkst mikið við rannsóknir á Hrafnkels sögu Freysgoða og leiddi í ljós að ýmsar hugmyndir úr Alexanders sögu hefðu haft áhrif á hana. Síðari rit hans fjalla mörg hver um erlenda menningarstrauma sem höfðu áhrif á íslenskar fornbókmenntir, bæði um keltnesk og samísk áhrif, og ekki síður hina kirkjulegu bókmenningu miðalda. Lengi vel áttu viðhorf Hermanns heldur undir högg að sækja í fræðasamfélaginu hér á Íslandi, e.t.v. af því að hann gekk stundum nokkuð langt til að kanna þanþol hugmynda sinna. Erlendis var hann mjög virtur fræðimaður.
Þýðingar voru sérstakur kapítuli í ævistarfi Hermanns. Hann þýddi fjölda íslenskra fornrita yfir á ensku, oft í samstarfi við Magnús Magnússon, Denton Fox eða Paul Edwards, og var þar lögð áhersla á að textinn yrði á eðlilegu máli. Hlutu margar þessar þýðingar mikla útbreiðslu m.a. í ritröðinni Penguin Classics. Hefur verið sagt að á síðari hluta 20. aldar hafi enginn gert meira í að kynna íslensk fornrit í hinum enskumælandi heimi. Fyrsta þýðingin var Njáls saga (1960), en alls þýddi Hermann um 40 fornrit af ýmsu tagi. Einnig þýddi hann nokkur rit á íslensku, m.a. Írskar fornsögur (1953).
Hermann átti frumkvæðið að því að efnt var til alþjóðlegra fornsagnaráðstefna (International Saga Conference). Var hin fyrsta haldin í Edinborg 1971, og ritstýrðu þeir Hermann, Peter Foote og Desmond Slay ráðstefnuritinu. Fornsagnaráðstefnurnar eru nú haldnar á þriggja ára fresti. Einnig var Hermann einn af stofnendum Scottish Society for Northern Studies (1968), sat í stjórnarnefnd þess um árabil og var forseti 1970–1971.
Hermann var heiðursdoktor við Háskóla Íslands. Árið 1999 hlaut hann heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright, sem eru á vegum Vísindafélags Íslendinga.
Kona Hermanns (1953) var Guðrún Þorvarðardóttir (f. 28. mars 1927) stúdent. Þau áttu eina dóttur.
Helstu rit
[breyta | breyta frumkóða]Yfirlit um ritstörf Hermanns er í neðangreindum ritaskrám. Sjá einnig skrár Landsbókasafns Íslands. Nokkur síðustu rit hans voru:
- Hrímfaxi. Hestanöfn frá fyrri tíð til vorra daga og litir íslenska hestsins, Vatnsdal, Bókaútgáfan Hofi 1995, 276+24 s. — Texti á íslensku, þýsku og ensku.
- Keltar á Íslandi, Rvík, Háskólaútgáfan 1996, 240 s.
- Úr landnorðri. Samar og ystu rætur íslenskrar menningar, Rvík 1997, 199 s. — Studia Islandica 54.
- Hávamál í ljósi íslenskrar menningar, Rvík, Háskólaútgáfan 1999, 297 s.
- Vínland hið góða og írskar ritningar, Rvík, Háskólaútgáfan 2001, 243 s.
- Sólarljóð og vitranir annarlegra heima, Rvík, Þrös 2002, 213 s.
- Grettis saga og íslensk siðmenning, Vatnsdal, Bókaútgáfan Hofi 2002, 199 s. — Eftirmáli Baldur Hafstað: „Í minningu Hermanns Pálssonar“.
- Atviksorð í þátíð, Vatnsdal, Bókaútgáfan Hofi 2005, 78 s. — Ljóðmæli. Eftirmáli: Baldur Hafstað.
- Greinar
Hermann ritaði fjölmargar greinar og bókakafla um bókmenntir og menningu miðalda, sjá ritaskrár hans. Þar vantar m.a.:
- Barrey í Suðureyjum. Lesbók Morgunblaðsins 28. janúar 1951.
- Keltneskar þjóðir og tungur. Íslenskt mál og almenn málfræði 21, Rvík 1999, 161–171.
- Forn vinátta. Húnavaka 40, Akureyri 2000, 123–139.
- Málið á Hrafnkels sögu. Múlaþing 27, Egilsstöðum 2000, 86–100.
- Lífgjöf við Aðalból. Hugleiðingar um Hrafnkels sögu. Múlaþing 28, Egilsstöðum 2001, 114–123.
- Hrafnkell Freysgoði. Múlaþing 30, Egilsstöðum 2003, 86–95.
- Griðkur og garpaminni. Endurtekið stef í Íslendinga sögum. Skorrdæla, gefin út í minningu Sveins Skorra Höskuldssonar, Rvík 2003, 73–86.
- Afmælisrit
- Sagnaskemmtun. Studies in honour of Hermann Pálsson on his 65th birthday, Wien 1986, 358 s. — Ritstj.: Rudolf Simek, Jónas Kristjánsson og Hans Bekker-Nielsen. Ritaskrá Hermanns er á bls. 351–358.
- Finnugaldur og Hriflunga. Ævintýri um norræna menningu, Vatnsdal, Bókaútgáfan Hofi 1996, 144 s. — Bók eftir Hermann, gefin út í tilefni af 75 ára afmæli hans.
- Sagnaheimur. Studies in honour of Hermann Pálsson on his 80th birthday, Wien 2001, 8+322 s. — Studia Medievalia Septentrionalia 6. Ritstj.: Ásdís Egilsdóttir og Rudolf Simek. Ritaskrá Hermanns er á bls. 309–322.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Minningargreinar í Morgunblaðinu 20. október 2002.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Minningargreinar um Hermann Pálsson, með mynd — Af mbl.is.
- Hermann Pálsson prófessor hlýtur heiðursverðlaun Ásusjóðs 1999 — Af mbl.is.