Menningarsjóður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Næpan eða landshöfðingjahúsið árið 1974 þegar Menningarsjóður var þar til húsa.

Menningarsjóður var ríkisstofnun sem var stofnuð árið 1928 að frumkvæði Jónasar Jónssonar sem þá var dóms- og kirkjumálaráðherra. Menningarsjóður styrkti listamenn og var umfangsmikill í bókaútgáfu, einkum útgáfu fræðirita og þýðinga á erlendum meistaraverkum. Sjóðurinn var í upphafi fjármagnaður með sektum fyrir brot gegn áfengisbanninu. Menningarsjóður heyrði undir menntamálaráð. Árið 1940 var bókadeild menningarsjóðs sameinuð bókaútgáfu Hins íslenska þjóðvinafélags. Árið 1969 keypti menningarsjóður gamla landshöfðingjahúsið, Næpuna, við Skálholtsstíg. Árið 1992 var Menningarsjóður lagður niður að frumkvæði einkavæðingarnefndar og lager og útgáfuréttur seldur. Næpan var fengin Listasafni Íslands en 1998 keypti auglýsingastofan Mátturinn og dýrðin húsið og skömmu síðar eignaðist Guðjón Már Guðjónsson, forstjóri Oz efri hæðir hússins. Árið 2007 keypti hann neðri hæðirnar af Baltasar Kormáki og Lilju Pálmadóttur.

Meðal þekktustu útgáfuverka Menningarsjóðs var Orðabók Menningarsjóðs sem kom fyrst út árið 1963 og síðan 1983 í ritstjórn Árna Böðvarssonar. Mál og menning keypti útgáfuréttinn árið 1992 og hafa tvær nýjar útgáfur í ritstjórn Marðar Árnasonar komið út á vegum Eddu 2002 og 2007.