River Plate F.C.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Má ekki rugla saman við argentínska knattspyrnufélagið River Plate eða samnefnt úrúgvæskt félag.
River Plate Football Club
Fullt nafn River Plate Football Club
Gælunafn/nöfn Darseneros (hafnarverkamennirnir)
Stytt nafn River Plate
Stofnað 1897
Leikvöllur Parque Federico Saroldi
Stærð
Deild Úrúgvæska úrvalsdeildin
1923 26. sæti
Heimabúningur
Útibúningur

River Plate Football Club var úrúgvæskt knattspyrnulið frá Montevídeó, stofnað árið 1897. Á upphafsskeiði fótboltans í Úrúgvæ var River Plate einn af risunum fjórum ásamt Peñarol, Nacional og Montevideo Wanderers. Liðið varð fjórum sinnum úrúgvæskur meistari á árabilinu 1908-14 en dróst svo aftur úr keppinautunum og var slitið árið 1925.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1897 stofnaði hópur hafnarverkamanna frá Montevídeó knattspyrnulið sem fékk nafnið Cagancha F.C. Þegar kom að því að skrá félagið hjá úrúgvæska knattspyrnusambandinu fengust þau svör að einungis nöfn á ensku væru viðurkennd. Nafninu var snarlega breytt í River Plate F.C. en skráningunni var engu að síður synjað á þeirri forsendu að félög skyldu innihalda leikmenn sem fæddir væru á Bretlandseyjum.

Árið 1901 lét knattspyrnusambandið til leiðast og samþykkti umsókn River Plate um svipað leiti og Nacional, annað lið sem skipað var innfæddum leikmönnum, hafði fengið aðild. Fyrstu árin var River Plate yfirleitt í næst efstu deild. Treyjur liðsins voru svartar framan af en rauður og hvítur, einkennislitir úrúgvæsku byltingarinnar árið 1904, leystu síðar svörtu treyjurnar af hólmi.

River Plate vann sér sæti í efstu deild árið 1906 og varð landsmeistari tveimur árum síðar. Í aprílmánuðu 1910 mætti River Plate argentínska liðinu Alumni sem var sterkasta lið Argentínu um þær mundir. Viðureignin vakti því mikla athygli. Þar sem bæði lið léku í keimlíkum búningum varð úr að River Plate spilaði í ljósbláum treyjum og er það talið upphaf þess að úrúgvæska landsliðið leikur enn í dag í slíkum búningum.

Gullöld River Plate var á öðrum áratugnum þegar það bætti þremur meistaratitlum í safnið, en 1920 féll liðið niður um deild og náði sér aldrei aftur á strik. Félaginu var slitið árið 1925. Ekki má rugla því saman við Club Atlético River Plate sem nú leikur í úrúgvæsku deildarkeppninni.

Titlar[breyta | breyta frumkóða]

Úrúgvæskur meistari (4): 1908, 1910, 1913, 1914

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]