Montevideo Wanderers F.C.
Montevideo Wanderers Fútbol Club | |||
Fullt nafn | Montevideo Wanderers Fútbol Club | ||
Gælunafn/nöfn | Bohemios, Vagabundos | ||
---|---|---|---|
Stytt nafn | Danubio | ||
Stofnað | 1902 | ||
Leikvöllur | Estadio Alfredo Victor Viera, Montevideo | ||
Stærð | 10 000 | ||
Stjórnarformaður | Gabriel Blanco | ||
Knattspyrnustjóri | Antonio Pacheco | ||
Deild | Úrúgvæska úrvalsdeildin | ||
2024 | 8. sæti | ||
|
Montevideo Wanderers Fútbol Club eða Wanderers er úrúgvæskt knattspyrnulið frá Montevídeó, stofnað þann 15. ágúst árið 1902. Félagið státar af þremur úrúgvæskum meistaratitlum, þeim síðasta árið 1931.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Montevideo Wanderers var stofnað að frumkvæði bræðranna Enrique og Juan Sardeson árið 1902 í kjölfar heimsóknar þeirra til Englands þar sem þeir komust í kynni við knattspyrnuíþróttina. Nafnið var væntanlega dregið af Wanderers F.C., einu af elstu og sögufrægustu liðum Bretlandseyja eða jafnvel Wolverhampton Wanderers sem var í hópi öflugari félagsliða um aldamótin.
Wanderers tóku fyrst þátt í úrúgvæsku deildinni á sínu fyrsta starfsári, 1903. Árið 1906 varð félagið í fyrsta sinn úrúgvæskur meistari eftir að hafa unnið níu af tíu leikjum sínum og gert eitt jafntefli. Næstu tvö árin höfnuðu Wanderers í öðru sæti og urðu svo meistarar á nýjan leik árið 1909. Næstu árin var félagið í hópi þeirra sterkari í heimalandinu en varð þó að láta sér nægja sigra í minni bikarkeppnum.
Úrúgvæmenn urðu heimsmeistarar á heimavelli 1930 en Wanderers áttu einungis einn leikmann í 22 manna landsliðshópnum, Domingo Tejera sem kom við sögu í fyrsta leiknum gegn Perú. Það kom því töluvert á óvart þegar Wanderers urðu meistarar árið eftir, 1931. Reyndist það síðast meistaratitill félagsins til þessa dags.
Atvinnumennska var tviðurkennd í úrúgvæsku knattspyrnunni í byrjun fjórða áratugarins sem leiddi til yfirburðarstöðu tvíeykisins Nacional og Peñarol. Wanderers voru þó framan af þriðja öflugasta lið landsins og höfnuðu næstu árin margoft rétt á hæla hinna tveggja.
Obdulio Varela, ein skærasta stjarnan í sögu knattspyrnunnar í Úrúgvæ, sló í gegn sem leikmaður Wanderers á árunum 1938-40. Eftir að hann hvarf á önnur mið fór hins vegar að halla undan fæti og frá 1942 til 1962 tók við tveggja áratuga tímabil þar sem Wanderers lentu alltaf fyrir neðan þriðja sætið og máttu jafnvel sætta sig við fall niður í næstefstu deild.
Eftir um langt tímabil af miðjumoði, þar sem Wanderers flakkaði milli deilda, hafnaði liðið í öðru sæti leiktíðina 1980, sem var hæsta deildarstaða liðsins frá meistaratitilinum 1980. Einna mesta athygli það árið vakti 19 ára nýliði, Enzo Francescoli, sem síðar átti eftir að setja mark sitt á úrúgvæska knattspyrnu. Aftur tókst Wanderers að tryggja sér silfurverðlaunin árið 1985, þá undir stjórn ungs þjálfara Óscar Tabárez sem síðar átti eftir að stýra landsliðinu lengur en nokkur annar.
Wanderers mörkuðu ekki djúp spor í sögu úrúgvæsku deildarinnar næstu tæpu þrjá áratugina en leiktíðina 2013-14 mátti engu muna að liðið yrði afar óvænt meistari á nýjan leik. Félagið mætti þá Danubio F.C. í úrslitaeinvígi sem lauk með framlengingu og vítaspyrnukeppni, þar sem Danubio fór með sigur af hólmi eftir að leikmenn Wanderers misnotuðu fjórar af sex vítaspyrnum sínum.
Titlar
[breyta | breyta frumkóða]Úrúgvæskur meistari (3): 1906, 1909, 1931