Fara í innihald

Ritsími

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ritsími (áður fyrr kallað fréttaþráður) er tæki til skeytasendingar (t.d. með morsmerkjum eða fjarritun (telex) eftir þráðum með aðstoð rafstraums.

Sjónritsíminn

[breyta | breyta frumkóða]
Sjónritsími með merki efst á boðturni.

Upphaflega fóru skeytasendingarnar fram með því að mynda merki efst á svonefndum boðturni sem sást frá næsta boðturni. Þar báknuðu menn sömu skilaboðum að þeim næsta (þ.e. hermdu eftir skilaboðunum) og þannig koll af kolli þar til merkið náði áfangastað sínum. Fyrsta heildstæða kerfið sem þannig starfaði var sjónritsími Claude Chappe í Frakklandi sem starfaði frá 1792 til 1846.

Morse ritsíminn

[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi 19. aldar fundu menn upp ritsímasendingar um rafmagnsvír. Fyrsta rafknúna ritsímakerfið sem komst í almenna notkun var ritsímalína meðfram járnbrautarkerfi Great Western Railway í Bretlandi árið 1839. 1837 þróaði Samuel F. B. Morse sams konar kerfi í Bandaríkjunum og aðstoðarmaður hans, Alfred Vail, þróaði Morse-stafrófið. Tækið sem menn morsuðu skilaboðin á nefndist sendilykill og tækið sem tók við þeim ritsímatæki (eða Morseapparat).

Síðasta áratug 19. aldar sýndu Nikola Tesla og fleiri fram á kosti loftskeytakerfis (þráðlauss ritsíma). Slík kerfi voru fljótlega tekin í notkun um borð í skipum.

Ritsíminn á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Ritsíminn kom til Íslands með samningi sem Hannes Hafstein gerði við Stóra norræna ritsímafélagið, en í honum fólst lagning sæstrengs frá Danmörku. Hópur bænda mótmælti þessum samningi með hópreið til Reykjavíkur í ágúst 1905, en þeir töldu ráðlegra að taka tilboði frá Marconi-félaginu í London (fyrir milligöngu Einars Benediktssonar) um uppsetningu loftskeytakerfis, enda var það tilboð miklu lægra en það danska. Lokið var við að leggja sæstreng milli Seyðisfjarðar og Færeyja þann 23. ágúst 1906 og það kvöld barst fyrsta símskeytið til Seyðisfjarðar frá Færeyjum. Efni símskeytisins var sú frétt að s/s Mjölnir, skip Thoreskipafélagsins, væri lagt á stað þaðan áleiðis til Austfjarða en s/s Prospero, sem var farskip í eigu Wathneserfingja, væri ókomið til Færeyja. Sæsíminn var svo tekinn formlega í notkun 25. ágúst og haldin veisla á Seyðisfirði. [1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ísafold, 58. tölublað (12.09.1906)
  Þessi tæknigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.