Fara í innihald

Raunsæið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Góðan daginn, hr. Courbet, raunsæismálverk eftir Gustave Courbet frá 1854.

Raunsæið var raunsæ listastefna sem kom fram í Frakklandi eftir Febrúarbyltinguna í París 1848. Raunsæishyggjumenn höfnuðu rómantíkinni sem hafði verið ríkjandi á fyrri hluta 19. aldar. Þeir gagnrýndu rómantíkina fyrir ofuráherslu á framandi viðfangsefni, ýktar tilfinningar og leikræn tilþrif. Þess í stað lagði raunsæið áherslu á að sýna og segja frá samtímanum, með raunverulegu fólki og sönnum aðstæðum sem birtu líka óþægilegan veruleika. Hreyfingin hafnaði því að fegra viðfangsefni sín og leitaði fanga í hversdagslegum aðstæðum sem fram að því voru ekki álitnar verðugur listrænn efniviður. List raunsærra listamanna endurspeglaði oft þær samfélagslegu breytingar sem urðu í kjölfar iðnbyltingarinnar. Raunsæið hafði áhuga á að lýsa hlutum eins og þeir kæmu fyrir, en ekki út frá þeirri ímynd sem þeir höfðu.

Raunsæju skáldin horfðu mest á nútímann í leit að yrkisefninu. Samið var um raunveruleikann, ekki eins og í rómantíkinni, og ekkert var fegrað. Skáldin lýstu lífi og aðstæðum manna á sem trúverðugastan hátt. Þá var ekki skrifað um kóngafólk og þá sem háttsettir voru, heldur fátæktina og neyðina. Samúð með þeim sem minna mega sín og eru á neðri stigum samfélagsins er áberandi. Höfundar koma oftast lítið við sögu í raunsæisverkum og reyna eftir bestu getu að hverfa út úr verkinu. Raunsæismenn voru kallaðir siðleysingjar og smekkleysingjar.

Helstu forvígismenn raunsæisstefnunnar í Frakklandi voru listmálararnir Gustave Courbet og Honoré Daumier, og rithöfundarnir Émile Zola, Honoré de Balzac og Gustave Flaubert. Í Bretlandi hafa George Eliot og James Abbott McNeill Whistler verið kennd við stefnuna, ásamt Winslow Homer í Bandaríkjunum. Afsprengi raunsæisins voru natúralismi og verismi.

Raunsæið sem bókmenntastefna barst til Íslands seint á 19. öld. Síðustu áratugir 19.aldar voru erfitt tímabil á Íslandi, tíðafar var slæmt og veður kalt. Í þessum harðindum er talið að raunsæið á Íslandi hafi hafist.

  Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.