Ranavalona 2.
| ||||
Ranavalona 2.
| ||||
Ríkisár | 2. apríl 1868 – 13. júlí 1883 | |||
Skírnarnafn | Ramoma | |||
Fædd | 1829 | |||
Ambatomanoina, Madagaskar | ||||
Dáin | 13. júlí 1883 | |||
Antananarívó, Madagaskar | ||||
Gröf | Rovan'i Manjakamiadana, Antananarívó, Madagaskar | |||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Razakaratrimo | |||
Móðir | Rafarasoa Ramasindrazana | |||
Eiginmenn | Radama 2. Rainilaiarivony |
Ranavalona 2. (1829 – 13. júlí 1883) var drottning Madagaskar frá 1868 til 1883. Hún tók við af náfrænku sinni, drottningunni Rasoherinu.[1] Á valdatíð sinni kristnaði Ranavalona madagösku hirðina.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Ranavalona fæddist undir nafninu Ramoma árið 1829 í Ambatomanoina, á hálendinu nálægt höfuðborginni Antananarívó. Foreldrar hennar voru prinsinn Razakaratrimo og eiginkona hans, prinsessan Rafarasoa Ramasindrazana. Þegar Ranavalona var ung kona var hún, ásamt Rasoherinu frænku sinni, gift Radama 2. konungi Madagaskar. Frænkurnar urðu báðar ekkjur þegar Radama var myrtur í valdaráni aðalsmanna árið 1863. Forsætisráðherra landsins, Rainivoninahitriniony, hafði leikið lykilhlutverk í tilræðinu gegn Radama, en vegna reiði alþýðunnar neyddist hann í kjölfarið til að segja af sér. Yngri bróðir hans, Rainilaiarivony, varð nýr forsætisráðherra og kvæntist Rasoherinu, sem varð þá ríkjandi drottning Madagaskar. Þegar Rasoherina lést sá Rainilaiarivony til þess að Ranavalona 2. yrði ný drottning og kvæntist henni síðan til að halda sjálfur völdum.
Á árum sínum við madagösku hirðina hlaut Ramoma kennslu hjá kristnum trúboðum sem höfðu mikil áhrif á trúar- og stjórnmálaviðhorf hennar. Hún varð æ hlynntari kristnum trúarbrögðum á þessum tíma.[2]
Ríkisár
[breyta | breyta frumkóða]Ranavalona varð drottning eftir dauða Rasoherinu drottningar þann 1. apríl árið 1868. Þann 21. febrúar árið 1869 gekk hún í pólitískt hjónaband með Rainilaiarivony forsætisráðherra. Samhliða brúðkaupinu fór fram athöfn á torginu Andohalo fyrir utan konungshöllina þar sem madagaska hirðin gekkst formlega undir kristna trú.[2] Trúskiptin voru meðal annars ætluð til þess að hirðin gæti haft stjórn á hreyfingum kristinna mótmælenda, sem nutu æ meiri áhrifa í Madagaskar. Ranavalona lýsti því yfir að Madagaskar væri kristin þjóð og lét um leið brenna heiðna helgigripi í september 1869.[3]
Á ríkisárum Ranavalonu fóru Malagasar að bregðast við skógareyðingu á eyjunni. Drottningin leyfði gerð bygginga með múrsteinum og öðrum endingargóðum efnum innan veggja Antananarívó, en konungurinn Andrianampoinimerina hafði áður látið banna slíkar byggingar.[4] Ranavalona bannaði hefðbundnar landbúnaðaraðferðir (tavy) sem fólust í því að höggva niður tré og brenna jarðveginn til að búa til frjósamt en skammnýtt ræktarland. Hún bannaði einnig gerð kola og byggingu húsa inni á skóglendi.[5]
Árið 1873 lýsti breskur gestur við hirð Ranavalonu 2. drottningunni á eftirfarandi hátt:
„Ég held að drottningin sé um 45 ára gömul, dökk á hörund og með andlit sem ber merki um gæsku og velvild. Hún var drottningarleg ásýndum, klæddist gráum silkikjól og lamba-slæða úr silki féll kæruleysislega yfir herðar hennar. Hár hennar var svart og fallega greitt; hún bar ekki kórónu en frá hvirfli hennar hékk löng og fíngerð gullkeðja sem endaði í gullnum skúf, og aðeins drottningin má bera.“[6]
Dauði
[breyta | breyta frumkóða]Ranavalona 2. lést árið 1883 og var grafin í konungsgrafhýsinu í Ambohimanga.[2] Árið 1897 reyndu frönsk nýlenduyfirvöld að afhelga grafhýsið með því að grafa upp líkamsleifar konunganna og drottninganna sem þar hvíldu og létu flytja þau í grafhýsi við konungshöllina í Antananarívó. Þar var Ranavalona 2. grafin í grafhýsi Rasoherinu drottningar.[7] Ranavalona 3. varð drottning á eftir Ranavalonu 2., en hún varð síðasti einvaldur konungsríkisins Madagaskar.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Madagascar“. www.royalark.net. 23. maí. Sótt 2019.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Cousins, William Edward. Madagascar of to-day: A sketch of the island, with chapters on its past. The Religious Tract Society, 1895.
- ↑ Drapeyron, L. Revue de géographie, Volumes 38–39. C. Delagrave, 1896.
- ↑ Acquier, Jean-Louis (1997). Architectures de Madagascar (franska). Berlin: Berger-Levrault. ISBN 978-2-7003-1169-3.
- ↑ Gade, Daniel W. (1996). „Deforestation and its effects in Highland Madagascar“. Mountain Research and Development. 16 (2): 101–116. doi:10.2307/3674005. JSTOR 3674005.
- ↑ Chiswell, Alfred (1893). „A visit to the Queen, Madagascar“. The Newberry house magazine, Volume 2. Elsevier. bls. 459–466. Sótt 19. desember 2010.
- ↑ Frémigacci, Jean (1999). „Le Rova de Tananarive: Destruction d'un lieu saint ou constitution d'une référence identitaire?“. Í Chrétien, Jean-Pierre (ritstjóri). Histoire d'Afrique (franska). París: Editions Karthala. bls. 427. ISBN 978-2-86537-904-0. Sótt 19. desember 2010.
Fyrirrennari: Rasoherina |
|
Eftirmaður: Ranavalona 3. |