Rasoherina
| ||||
Rasoherina
| ||||
Ríkisár | 12. maí 1863 – 1. apríl 1868 | |||
Skírnarnafn | Rasoherina-Manjaka Rabodozanakandriana | |||
Fædd | 1814 | |||
Rovan' Ambatomanoina | ||||
Dáin | 1. apríl 1868 | |||
Amboditsiry | ||||
Gröf | Rovan'i Manjakamiadana, Antananarívó, Madagaskar | |||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Andriantsalamanandriana | |||
Móðir | Rafaramanjaka | |||
Eiginmenn | Raharolahy Radama 2. Rainivoninahitriniony Rainilaiarivony |
Rasoherina (1814 – 1. apríl 1868) (einnig þekkt undir nafninu Rasoherina-Manjaka)[1] var drottning Madagaskar frá 1863 til 1868. Hún tók við völdum af eiginmanni sínum, Radama 2. konungi, eftir að hann var myrtur.
Æskuár
[breyta | breyta frumkóða]Rasoherina var frænka drottningarinnar Ranavalonu 1. og fæddist undir nafninu Rabodo Zanakandriana árið 1814. Foreldrar hennar voru prinsinn Andriantsalamanandriana af Ambohitraina og prinsessan Rafaramanjaka.[2] Þegar Rasoherina var ung kona giftist hún Raharolahy, sem var kunnur stjórnmálamaður sem hafði hlotið 15 ríkisviðurkenningar og verið sendiherra í Bretlandi (1836–37), annar utanríkisráðherra í frönskum málefnum (1862), innanríkisráðherra (1862–64), ríkisstjórnarráðgjafi (1864–65) og landstjóri Toamasinu (1865). Hjónin skildu árið 1847 og Rabodo giftist syni og erfingja Ranavalonu drottningar, Rakoto. Þegar Ranavalona lést árið 1861 varð Rakoto konungur undir nafninu Radama 2. og Rabodo varð drottning hans.
Valdataka
[breyta | breyta frumkóða]Aðeins tveimur árum eftir að Radama 2. varð konungur reittu stefnumál hans ráðherrana svo til reiði að þeir skipulögðu valdarán gegn honum og virðast hafa myrt hann. Rannsókn sem gerð var á sjötta áratug 20. aldar bendir til þess að Radama hafi reyndar lifað af morðtilræðið og lifað fram á efri ár sem almennur borgari utan höfuðborgarinnar, en orðrómar þess efnis voru aldrei sannaðir á þeim tíma og í hirðinni var hann opinberlega talinn látinn. Sama dag og Radama var talinn af árið 1863 buðu leiðtogar valdaránsmannanna, bræðurnir Rainivoninahitriniony og Rainilaiarivony, Rabodo að gerast ríkjandi drottning Madagaskar með því skilyrði að hún skrifaði undir sáttmála sem breytti Madagaskar í þingbundið konungdæmi og færði raunveruleg völd í hendur forsætisráðherrans.[3] Meðal annarra skilmála sem þeir settu Rabodo var að tryggja trúfrelsi á Madagaskar. Rabodo var krýnd drottning þann 13. maí 1863 undir nafninu Rasoherina.[4]
Ríkisár
[breyta | breyta frumkóða]Í byrjun valdatíðar Rasoherinu voru öll raunveruleg völd í höndum forsætisráðherrans Rainivoninahitriniony, sem hafði átt frumkvæði að valdaráninu gegn eiginmanni hennar. Nokkrum vikum eftir krýningu Rasoherinu gengu drottningin og forsætisráðherrann í pólitískt hjónaband. Rainivoninahitriniony stjórnaði ríkismálum í reynd óskoraður þrátt fyrir að íhaldsmenn úr innsta hring Ranavalonu 1. drottningar nytu enn talsverðra áhrifa í hirð Rasoherinu. Framfarasinnaðir bandamenn Rainivoninahitriniony voru í meirihluta í ráði drottningarinnar og stefna þeirra í átt að nútímavæðingu og vinsamlegum samskiptum við Evrópu varð yfirsterkari íhaldsstefnunni.[5]
Stjórn Rainivoninahitriniony varð hins vegar sífellt gerræðislegri og forsætisráðherrann sást æ oftar ölvaður á almannafæri eftir því sem völd hans jukust. Sagt er að hann hafi ógnað drottningunni með hníf oftar en einu sinni.[6] Ári eftir að hún tók við völdum leysti Rasoherina Rainivoninahitriniony frá störfum og skipaði yngri bróður hans, Rainilaiarivony, nýjan forsætisráðherra. Til að innsigla valdaskiptin gekk hún jafnframt í pólitískt hjónaband ásamt Rainilaiarivony.[7]
Á valdatíð Rasoherinu voru sendiherrar sendir til London og Parísar og sunnudagsmarkaðir voru bannaðir. Stjórn hennar ógiltu hina svokölluðu Lambert-stofnskrá, sem hafði gefið Frökkum einkarétt til að nýta steinefnu og óræktað land á Madagaskar. Frakkar voru mjög óánægðir með þetta en stjórn Rasoherinu greiddi þeim andvirði 1.200.000 í sárabætur fyrir ógildingu verslunarsáttmálans.[8] Þann 27. júní árið 1865 undirritaði Rasoherina samning við Bretland sem gerði breskum ríkisborgurum kleift að leigja land og jarðeignir á eyjunni og til að halda eigið sendiráð.[3] Þann 14. febrúar 1867 undirritaði hún sáttmála við Bandaríkin sem takmarkaði innflutning á vopnum og útflutning á nautgripum frá eyjunni. Verið var að leggja drög að svipuðum samning við Frakkland á valdatíð hennar, en sá samningur var ekki undirritaður fyrr en eftir dauða hennar og valdatöku Ranavalonu 2. drottningar.[3]
Lokaár og dauði
[breyta | breyta frumkóða]Á síðustu æviárum drottningarinnar var afhjúpað samsæri um að víkja Rainilaiarivony forsætisráðherra úr embætti og tryggja að prins að nafni Rasata tæki við krúnunni eftir dauða Rasoherinu. Föstudaginn 27. mars 1868 reyndi æstur múgur vopnaður byssum og sverðum að ráðast á drottningarhöllina í höfuðborginni Antananarívó. Talið er að gamli forsætisráðherrann, Rainivoninahitriniony, hafi átt frumkvæði að óeirðunum og hafi viljað gerast forsætisráðherra á ný með Rasata sem strengjabrúðu sína. Uppreisnarmönnunum tókst að handtaka nokkra mikilvæga embættismenn, meðal annars foringja lífvarðasveita drottningarinnar. Annar hópur varða komst hins vegar undar og varaði Rainilaiarivony við, en hann var í Ambohimanga að heimsækja drottninguna sem var þá fárveik úr blóðkreppusótt. Forsætisráðherrann skipaði handtöku samsærismennina og margir þeirra voru strax handsamaðir þegar hermennirnir sneru aftur til höfuðborgarinnar. Klukkan fimm að kvöldi ávarpaði Rasoherina þjóð sína og bað trygglynda þegna sína að fylgja henni í gegnum höfuðborgina. Mikill mannfjöldi gekk með henni í gegnum borgina og sýndi þannig stuðning við áframhaldandi stjórn þeirra Rainilaiarivony. Drottningin flutti síðan ræðu við Andohalo og skipaði þegnum sínum að framselja alla samsærismenn svo hægt yrði að sækja þá til saka. Drottningin sneri síðan aftur til hallar sinnar. Sagt er að öllum gluggum hallarinnar hafi síðan verið lokað, annað hvort til þess að vernda drottninguna fyrir skotárásum eða til að fela veikindi hennar fyrir aðalsmönnum sem bjuggu nálægt höllinni.[6]
Drottningin lést fjórum dögum síðar, þann 1. apríl 1868. Á dánarbeði sínu gekkst hún undir rómversk-kaþólska trú og fól frænku sinni og arftaka, Ramónu, umsjá yfir börnum sínum. Ramóna var önnur af eiginkonum Radama 2. og eftir að Rasoherina var öll gerðist hún drottning undir nafninu Ranavalona 2.[3]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Bevans, Charles Irving (1968). Treaties and Other International Agreements of the United States of America, 1776-1949: Iraq-Muscat (enska). Department of State.
- ↑ „madagascar2“. www.royalark.net. Sótt 23. maí 2018.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 Cousins, William Edward. Madagascar of to-day: A sketch of the island, with chapters on its past. The Religious Tract Society, 1895.
- ↑ Frédéric Randriamamonjy, Tantaran'i Madagasikara Isam-Paritra (The history of Madagascar by Region), pages 529 – 534.
- ↑ Ade Ajayi, J.F.Africa in the nineteenth century until the 1880s. UNESCO, 1989.
- ↑ 6,0 6,1 De La Vaissière, Camille. Histoire de Madagascar: ses habitants et ses missionnaires, Volume 1.
- ↑ Laidler, Keith. Female Caligula: Ranavalona, the Mad Queen of Madagascar.
- ↑ Ralibera, Daniel. Madagascar et le christianisme. Karthala Editions, 1993.
Fyrirrennari: Radama 2. |
|
Eftirmaður: Ranavalona 2. |