Fara í innihald

Prjón

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Prjónaskapur)
Prjónað á tvo prjóna

Prjón eða prjónaskapur er aðferð til að framleiða vefnað eða voð með garni. Prjónað efni samanstendur af lykkjum sem dregnar hafa verið gegnum aðrar lykkjur. Lykkjurnar liggja á prjóninum þar til nýjar lykkjur eru dregnar í gegn með garninu sem notað er og fer lykkjufjöldinn á prjónunum eftir stærð flíkurinnar (verksins) sem verið er að prjóna. Einfaldast er að byrja og enda með sama fjölda af lykkjum en það er einnig mögulegt að bæta við (útaukning) eða fækka lykkjum (fella af lykkjur|fella af) meðan á vinnunni stendur. Margar aðferðir við prjónaskap eru til og mögulegt er að handprjóna og vélprjóna flíkur.

Prjón

Uppruni prjóns á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Elstu ritaðar heimildir um handverkshefðina prjónaskap hér á landi má finna í Bréfabók Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups frá seinni hluta 16. aldar en á þeim tíma voru landskuldir greiddar í prjónasaumi. Ennig má lesa í fornbréfi frá 1560 um prjónapreysur sem greiða mátti með landskuldir á bæ á norðurlandi. Talið er að prjón hafi borist til Íslands á fyrri hluta 16. aldar með þýskum, enskum eða hollenskum kaupmönnum og náði það fljótt mikilli útbreiðslu um landið. Auðvelt var fyrir landsmenn að framleiða ullarvarning með þessu nýja verklagi bæði til sölu og eigin nota og er það talin vera ástæða þess að prjón náði fljótt svo mikilli útbreiðslu. Elstu prjónauppskriftir, sem vitað er um hér á landi eru frá árunum 1760-1770 og eignaðar Skúla Magnússyni fógeta. Eru það uppskriftir af karlmanns- og kvenmannspeysu ásamt uppskriftir að karlmannssokkum, kvensokkum, nærbuxum og húfu.

Elstu dæmi um prjón á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að elsta prjónaða flík sem fundist hefur á Íslandi sé sléttprjónaður belgvettlingur frá 16. öld sem fannst við uppgröft að Stóru Borg árið 1981. Einnig hefur á sama stað fundist háleistur og sléttprjónaður smábarnasokkur sem talið er vera frá 1650-1750. Þessir sokkar eru þeir einu hér á landi sem varðveist hafa nokkurn veginn heilir. Árið 1927 fannst við fornleifauppgröft á Bergþórshvoli leifar af prjónlesi sem talið er vera frá fyrri hluta 17. aldar. Það heillegasta úr þeim fundi var belgvettlingur með einum þumli og sokkbol. Hann var ólíkur þeim belgvettlingi sem fannt á Stóru Borg bæði hvað varðar lögun þumalsins og úrtöku. Í Kaupmannahöfn hafa fundist nokkrir sléttprjónaðir belgvettlingar sem taldir eru vera af íslenskum uppruna.

Prjónar og prjónastærðir[breyta | breyta frumkóða]

Prjónasett
Bandprjónar
Hringprjónar

Ýmsar tegundir eru til af prjónum, þannig að oft getur verið erfitt að velja hvað á að nota. Hægt er að kaupa prjóna úr mismunandi málmi, málmblöndum, plasti, akrýl, bambus, birki rósavið svo eitthvað sé nefnt. Einnig er hægt að fá prjóna með mismunandi oddi, þ.e. "venjulegum oddi" eða oddhvassa sem sumum finnst betra að nota við prjón á gatamunstri. Hér áður fyrr var algengast að nota svo kallaða bandprjóna, stundum kallaðir peysuprjónar en það eru tveir langir (oftast 35sm) prjónar með haus á öðrum endanum. Hausinn á endanum á þeim kemur í veg fyrir að lykkjurnar detti út af prjóninum meðan verið er að prjóna. Þeir eru notaðir tveir saman þegar verið er að prjóna margar lykkjur fram og til baka, þá er ekki hægt að nota til að prjóna í hring. Síðar leystu hringprjónar, með áfastri snúru á milli tveggja prjónaodda (sjá mynd) bandprjónanna af. Enda eru þetta mjög hentugir prjónar sem hægt er að nota til að prjóna í hring eða fram og til baka allt eftir því hvað fólk vill. Núna er til mjög mikið úrval af prjónum, hægt er að fá prjóna sem eru með lausri snúru sem er þá annað hvort skrúfuð eða smellt á prjónana, en auðvitað er einnig hægt að fá hringprjóna með áfastri snúru. Til að prjóna t.d. sokka eða vettlinga eru notaðir 5 prjónar. þeir eru stuttir með oddum báðum megin ýmist úr málmi eða tré. Einnig er að nota þá þegar verið er að prjóna litla hluti og eru þá notaðir tveir prjónar í einu og prjónað fram og til baka.

Evrópskar prjónastærðir (mm) Bandarískar prjónastærðir
2,0 0
2,25 1
2,75 2
3,0 2/3
3,25 3
3,5 4
3,75 5
4,0 6
4,5 7
5,0 8
5,5 9
6,0 10
6,5 10,5
7,0 10,5
7,5 11
8,0 11
9 13
10 15

Það er mismunandi mælikvarði á prjónastærð eftir því hvort miðaða er við evrópu eða USA. Dæmi um það má sjá í töflunni. Á Íslandi eru notaðir prjónar í evrópskri stærð.

Að lesa prjónauppskriftir[breyta | breyta frumkóða]

Prjónauppskriftir eru mjög misjafnar og oft er erfitt fyrir byrjanda að lesa allar þessar skammstafanir. Uppskriftinar eru misjafnlega nákvæmar, og sumar gera ráð fyrir því að nokkur prjónareynsla sé til staðar. En aðra eru mjög ítarlegar og góðar fyrir byrjendur. Talað er um að best er að lesa alla uppskriftina yfir áður en byrjað er að prjóna til að fá yfirsýn yfir verkið. Í prjónauppskriftum er mikið um skammstafanir og því miður er ekki alltaf samræmi milli prjónauppskrifta hvað þessar skammstafanir þýða. Í eftirfarndi töflu má sjá dæmi um nokkra skammstafanir úr íslenskum uppskriftum. Á vefsíðu Storksins er að finna mjög gagnlega upplýsingar, þýðingar á skammstöfum úr ensku í íslensku.

Skammstafanir
sl = slétt prjón
br = brugðið
L = lykkja
pr = prjónn
umf = umferð
úrt = úrtaka
prj = prjóna
óprj = Óprjónuð lykkja
endut= endurtaka

Prjónafesta[breyta | breyta frumkóða]

Prjónafesta

Þegar prjónað er eftir uppskrift og viðeigandi stærð hefur verið valin, þarf að finna út prjónafestu. Rétt prjónafesta getur skipt öllu máli og verið lykillinn að vel heppnuðu verki. Prjónfesta (stundum kallað prjónþensla) er þá fjöldi lykkja mældur yfir t.d. 10 cm á breiddina á sléttu prjóni og fjöldi umferða mældar yfir 10 cm á hæðina á sléttu prjóni. Yfirleitt má ganga út frá því að prjónfesta sé mæld á slétt prjón og þannig er það gefið upp. Stundum er prjónfestan gefin upp í mynsturprjóni í uppskriftum. Þá getur verið mikilvægt að prjóna prufu af mynstrinu til að sannreyna prjónfestuna.

Hvernig fólk prjónar er einstaklingsbundið. Sumir prjóna fast meðan aðrir prjóna laust. þess vegna getur verið mikilvægt að gera fyrst prjónfestuprufu, þegar verið er að byrja prjónaskap er gott að prjóna sýnishorn 15x15 sm og mæla svo 10x10 sm bút og gá hvort réttur lykkjufjöldi sé innan 10 sm markanna og eins hvort umferðarfjöldinn sé réttur miðað við 10 sm. Ef lykkjurnar eru of margar er prjónað of fast og þarf því að fá sér grófari prjóna, ef lykkjurnar eru of fáar er prjónað of laust og þarf því fínni prjóna.

Margar tegundir prjóna eru til og getur það haft áhrif á prjónafestu hvað prjóna er verið að vinna með. Prjónar geta verið missleipir eða stamir. Best er að nota sams konar prjóna í alla flíkina, t.d ekki nota bambusprjóna í ermarnar og álprjóna í bolinn eða öfugt. Það fer reyndar eftir garni sem notað er hversu áberandi munurinn getur orðið ef notaðar eru margar tegundir af prjónum í sömu flík.

Lopaprjón[breyta | breyta frumkóða]

Lopapeysur með hefðbundnu mynstri

Fram á 20. öld var ullarvinna eitt helsta vetrarstarf Íslendinga. Ullina fengu bændur með eð því að rífa ullina af sauðfénu með höndum áður en hún datt alveg af, það var ekki fyrr en komið var fram á 19. öldsauðfé var rúið með klippum og skærum.

Eftir rúningu er ullin þvegin upp úr keytu í potti úti við læk en keyta er geymt hland sem notað var til þvotta fyrr á öldum. Síðan var ullin skoluð í læknum og lögð á þurrkvöll, sem þurfti helst að vera grasbrekka á móti suðri, til þurrkunar.

Íslensk ull er samsett úr tveimur hárgerðum, þeli og togi, þelið er fín, mjúk hár sem einangra sérstaklega vel. Togið er löng slétt hár sem hrinda frá sér vatni.

Þessar tvær einstöku hárgerðir gera íslensku ullina léttari en flestar ullartegundir. Ullin hrindir frá sér vatn og heldur húðinni þurri með því að hleypa í gegn útgufun frá líkamanum.

Þegar ull er unninn hér á árum aður var byrjað að draga togið úr þelinu. Síðan var ullin kembd, þelið í þelkömbum en togið í togkömbum. Ullin var síðan dregin úr kömbunum í kembu og var það undirbúningur fyrir spuna sem einmitt var næsta verk. Úr þelinu var spunninn fínn þráður en úr toginu grófur.

Fyrr á tímum var spunnið á halasnældu sem var ævafornt áhald en halasnældan var ómissandi í tóvinnu fyrri alda, bæði við að spinna úr ullinni svo og að tvinna þráð. Spunarokkar urðu ekki algengir á Íslandi fyrr en á 19. öld

Orðið lopi táknaði ull sem hafði verið kembd í kömbum og teygð út í lausan streng til undirbúnings því að spinna ullina í halasnældu og rokk þar til ullarverksmiðjur urðu til. Eftir það var einnig farið að nota orðið lopi um ullarstrengi sem voru á vinnslustingi á milli vélkembingar og vélspuna.

Handprjón úr lopa hófst þó ekki fyrr en um 1930. Á árunum eftir 1940 urðu handprjónaðar lopapeysur vinsælar. Voru þær prjónaðar á hringprjón. Íslenska lopapeysan er prjónuð með hringlaga mynstri og fara ýmsar sögur af hvaða sú fyrirmynd er, ýmist er talið að það sé komið frá Grænlandi eða Svíþjóð. Hafi íslenskar lopapeysur orðið til fyrir áhrif frá þessum löndum hefur þurft mikla hugkvæmni til að aðlaga snið, úrtökur og munstur. Telja verður því íslensku lopapeysuna frumhönnun.

Ekki er óhugsandi að enn eigi eftir að koma á daginn hver hinn raunverulegi höfundur hennar var.


Nokkrar prjónaaðferðir[breyta | breyta frumkóða]

Myndbönd með eftirfarndi efni er að finna í tenglasafninu hér fyrir neðan.

 • Að fitja upp - gamla góða aðferðin
 • Að fitja upp með því að nota aðeins einn þráð
 • Prjóna slétt og brugðið (íslenskar leiðbeiningar)
 • Fella af (íslenskar leiðbeiningar)
 • Prjóna tvo hluti á einn hringprjón
 • Prjóna slétt prjón fram og til baka
 • Prjóna Moebius hring
 • Nokkur skemmtileg prjónamunstur

Sjá einnig[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Fyrirmynd greinarinnar var „strikning“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. febrúar 2012.
 • Elsa E. Guðjónsson. (2011). „Um prjón á Íslandi.“ Í Oddný S. Jónsdóttir (ritstjóri), Prjónað úr íslenskri ull. Reykjavík: Vaka-Helgafell: 9-20.
 • Vigdís Stefánsdóttir. „Hvenær lærðu Íslendingar að prjóna og af hverjum?“. Vísindavefurinn 20.8.2003. http://visindavefur.is/?id=3669. (Skoðað 18.2.2012).
 • Kristín Axelsdóttir. Prjón á Íslandi „ ... las við rokk og prjóna.“ http://skemman.is/stream/get/1946/7986/20872/1/Prj%C3%B3n_%C3%A1_%C3%8Dslandi.pdf Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine (Skoðað 20.2.2012).
 • http://www.istex.is/ (Skoðað 20.2.2012).
 • http://www.islandia.is/boknord/Ad%20koma%20ull%20i%20fat%20texti.htm (Skoðað 20.2.2012).
 • http://is.alafoss.is/ (Skoðað 20.2.2012).
 • http://www.handknit.is Geymt 7 mars 2021 í Wayback Machine (Skoðað 20.2.2012).
 • http://www.storkurinn.is/?i=8&f=3&o=76 (skoðað 20.2.2012)
 • „Hvenær lærðu Íslendingar að prjóna og af hverjum?“. Vísindavefurinn.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]