Peder Hansen Resen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Peder Hansen Resen
Koparstunga úr J. P. Trap: Berømte danske mænd og kvinder (1868)

Peder Hansen Resen (17. júní 16251. júní 1688) var danskur sagnfræðingur sem meðal annars átti stóran þátt í útgáfu íslenskra fornrita, svo sem Snorra-Eddu og Völuspár, í Kaupmannahöfn á 17. öld. Einnig stóð hann að útgáfu gamalla norrænna lögbóka, en er þó einkum frægur fyrir Danmerkurlýsingu sína, Atlas Danicum.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Peder Resen var sonur Hans Hansen Resen, Sjálandsbiskups. Hann útskrifaðist með próf í guðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1645 og fór þá í hefðbundna námsreisu ásamt m.a. Rasmusi Bartholin til Hollands og Frakklands þar sem hann lagði stund á lögfræði og textafræði (fílólógíu). Eitt ár dvaldi hann í Padúa á Ítalíu og lærði lög. 1657 varð hann prófessor við háskólann í Kaupmannahöfn. Árið 1664 gerði konungur hann að borgarstjóra Kaupmannahafnar og 1669assessor í hæstarétti. Hann þjáðist af liðagigt síðustu ár sín og lést, barnlaus, í Kaupmannahöfn.

Útgáfustarfsemi[breyta | breyta frumkóða]

Peder Resen hafði mikinn áhuga á útgáfu fornra norrænna lögbóka og gaf út 1675 norsku Hirðskrána og ýmsar gamlar danskar lögbækur í tengslum við lögfræðikennslu sína við háskólann. Hann varð fyrstur til að gefa út á prenti íslensku fornritin Snorra-Eddu, Hávamál og Völuspá (1665), auk orðabókarinnar Lexicon Islandicum (1683) eftir Guðmund Andrésson.