Pípuhattur galdrakarlsins
Höfundur | Tove Jansson |
---|---|
Upprunalegur titill | Trollkarlens hatt |
Þýðandi | Steinunn S. Briem (1968) |
Land | Finnland |
Tungumál | Sænska |
Ritröð | Múmínálfarnir |
Stefna | Ævintýri, fantasía |
Útgefandi | Schildts |
Útgáfudagur | 1948 |
ISBN | ISBN 9789979345183 |
Forveri | Halastjarnan |
Framhald | Minningar múmínpabba |
Pípuhattur galdrakarlsins (sænska: Trollkarlens hatt) er þriðja bókin um Múmínálfana eftir Tove Jansson. Bókin kom fyrst út í Finnlandi hjá bókafélaginu Schildts. Hún kom út í íslenskri þýðingu Steinunnar S. Briem árið 1968.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Múmínsnáðinn, Snabbi og Snúður finna pípuhatt galdrakarlsins uppi á fjallstindi og vita ekki að hatturinn býr yfir dularfullum mætti. Eggjaskurn sem hent er ofan í hattinn breytist í fimm ský sem börnin geta flogið og leikið sér á. Næsta dag hafa skýin horfið og enginn veit hvaðan þau komu. Múmínsnáðinn felur sig í hattinum í feluleik og umbreytist til skamms tíma þannig að enginn getur þekkt hann.
Eftir að múmínfjölskyldan uppgötvar galdramátt hattsins og notar hann til að umbreyta nokkrum hlutum ákveður hún að farga honum með því að kasta honum í fljót. Múmínsnáðinn og Snúður bjarga hattinum um miðja nótt og fela hann í hellinum við sjóinn, þar sem bísamrottan verður skelfingu lostin þegar gervitennur hennar breytast í eitthvað skrýtið og ógnvekjandi í hattinum.
Múmínfjölskyldan fer í ferð til eyðieyju hattífattanna á bát sem þau finna og múmínhúsið breytist í frumskóg þegar múmínmamma fleygir af kæruleysi samankrumpaðri kúlu af jurtum ofan í hattinn. Frumskógurinn visnar upp þegar nótta tekur og er síðan notaður í eldivið til að steikja rixavaxinn mamelúka sem börnin hafa veitt.
Þöngull og Þrasi koma í múmínhúsið með stóra tösku sem inniheldur konungsrúbíninn, sem þeir stálu frá morranum. Eftir réttarhöld (sem snorkurinn stýrir) fellst morrinn á að skipta á rúbíninum og pípuhatti galdrakarlsins.
Þöngull og Þrasi stela veski múmínmömmu til að nota það sem rúm en skila því þegar þeir gera sér grein fyrir því hve döpur hún er. Múmínálfarnir halda veislu til að fagna fundi veskisins en þá birtist galdrakarlinn (með nýjan hatt) og heimtar konungsrúbíninn. Þöngull og Þrasi neita að láta hann eftir.
Galdrakarlinn ákveður að hugga sjálfan sig með því að láta óskir allra veislugestanna rætast, þar sem hann getur ekki látið eigin óskir rætast. Þótt sumir fái ekki alveg það sem þeir vonuðust eftir ákveða Þöngull og Þrasi að óska sér annars rúbíns til að gefa galdrakarlinum – drottningarrúbínsins.
Sviðssetning
[breyta | breyta frumkóða]Finnsk leikhúsútfærsla sögunnar var gerð árin 1996–1997 í samstarfi milli Vinasamtaka múmínálfanna (Muumien ystävät -yhdistys) og Tampere-leikhússins. Handrit leikritsins var skrifað af Annukka Kiuru og því leikstýrt af Lisbeth Nyström. Tónlistin var samin af Heikki Mäenpää.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Muumien ystävät -yhdistys Myy“ (finnska). Tampere: City of Tampere. Sótt 28. apríl 2021.