Pétur Hoffmann Salómonsson
Pétur Hoffmann Salómonsson (25. febrúar 1897 – 18. október 1980) var íslenskur sjómaður og kunn persóna í bæjarlífinu í Reykjavík. Hann reisti sér kofa í Selsvör þar sem hann bjó frá 1948 til 1960 og lifði á hrognkelsaveiðum. Hann safnaði ýmsu dóti sem hann fann á öskuhaugum borgarinnar í Selsvörinni og við Eiðisgranda og hélt sýningar á því. Hann hugðist bjóða sig fram til forseta þegar fyrsta kjörtímabili Ásgeirs Ásgeirssonar lauk 1956 en ekkert varð úr framboðinu, aðallega vegna þess að hann veiktist af flensu. Ævisaga hans, Þér að segja: veraldarsaga Péturs Hoffmanns Salómonssonar, var skrifuð af Stefáni Jónssyni fréttamanni og kom út 1963. Þar sagði Pétur m.a. frá því þegar hann slóst við hóp bandarískra hermanna í Selsvörinni 1943 og hafði betur. Þetta var kallað Selsvararorrustan og gert ódauðlegt í vinsælum dægurlaga texta eftir Jónas Árnason, „Hoffmannshnefar“.
Níels Óskarsson kvað og gaf út Rímu af Pétri Hoffmann Salómonssyni, sægarpi í Stóru-SelsVör.Ríman er 25 vísur og segir í henni frá afrekum Péturs Hoffmanns. Ein síðasta vísan í rímunni hljóðar svo:
- Og til minja um afrek þar
- útgaf dali Selsvarar.
- Pétur myntir mótandi
- manna fyrst á íslandi.
Pétur gaf nokkuð út af smáritum, meðal annars endurminningar, leiðbeiningar um álaveiðar og vangaveltur um atgeir Gunnars á Hlíðarenda.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Pétur Hoffmann Samúelsson látinn, Morgunblaðið, 21.10.1980, Bls. 3
- Fróðárundrin eru nú auðskilin (viðtal vð Pétur Hoffmann), Frjáls þjóð, 46. Tölublað (16.12.1961), Bls. 3
- Þegar ég stóð fyrir herréttinum á Akranesi, Frjáls þjóð 19.12.1959, Bls. 1
- Hræddir við álinn, Alþýðublaðið 22.09.1964 Bls. 8
- Hoffmannshnefar - dægurlagatexti eftir Jónas Árnason Geymt 28 janúar 2022 í Wayback Machine