Fara í innihald

Staðarfell

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Staðarfell er bær og kirkjustaður á Fellsströnd í Dalasýslu, áður höfðingjasetur og stórbýli um langan aldur en frá 1927 var þar húsmæðraskóli og frá 1980 starfsemi á vegum SÁÁ.

Bærinn stendur á fremur mjórri undirlendisræmu undir samnefndu fjalli, sem er bratt og klettótt. Staðarfell er mikil hlunnindajörð og þar bjuggu jafnan höfðingjar. Þorvaldur Ósvífursson, fyrsti maður Hallgerðar langbrókar, bjó þar, eða á Meðalfellsströnd undir Felli, eins og segir í Njálu. Þórður Gilsson, faðir Hvamm-Sturlu, bjó á Staðarfelli á 12. öld. Á fyrri hluta 19. aldar bjó þar fræðimaðurinn Bogi Benediktsson, sem skrifaði mikið um ættfræði og fleira og er þekktastur fyrir ritið Sýslumannaævir. Sýslumenn Dalamanna sátu oft á Staðarfelli og Hannes Hafstein bjó þar til dæmis í eitt ár 1886-1887.

Á fyrstu áratugum 20. aldar bjuggu hjónin Soffía Gestsdóttir og Magnús Friðriksson á Staðarfelli. Einkasonur þeirra drukknaði ásamt fleirum af bát sem hvolfdi fyrir landi jarðarinnar 1920 og í minningu hans gáfu foreldrarnir jörðina til stofnunar húsmæðraskóla. Skólinn hóf starfsemi 1927 og starfaði til 1976. Árið 1980 var svo endurhæfingarstöð á vegum SÁÁ komið á fót í húsnæðinu og hefur hún verið rekin þar síðan.

Staðarfellskirkja var vígð árið 1891 og er friðuð.