Eiríkur Briem
Eiríkur Briem (17. júlí 1846 – 27. nóvember 1929) var íslenskur prestur, kennari, kennslubókahöfundur og stjórnmálamaður. Hann var alþingismaður um árabil og forseti Sameinaðs þings um skeið.
Eiríkur var fæddur á Melgraseyri við Ísafjarðardjúp, sonur Eggerts Briem, sem þá var sýslumaður Ísfirðinga, og konu hans Ingibjargar Eiríksdóttur, og var elstur nítján barna þeirra, en þrettán náðu fullorðisaldri. Þar á meðal voru alþingismennirnir Ólafur Briem, Gunnlaugur Briem og Páll Briem amtmaður og ein systra hans var Elín Briem, stofnandi Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Eggert Briem varð sýslumaður Eyfirðinga 1848 og settist þá að á Espihóli og 1861 fékk hann Skagafjarðarsýslu og fluttist fjölskyldan þá að Viðvík.
Eiríkur fór í Lærða skólann og lauk stúdentsprófi þaðan 1864. Síðan lagði hann stund á guðfræðinám í Prestaskólanum og útskrifaðist þaðan 1867. Hann varð svo biskupsritari hjá Pétri Péturssyni biskupi og gegndi því starfi til 1874, þegar hann fékk Þingeyraprestakall og settist að í Steinnesi. Hann gegndi prestsembætti þar til 1880 og var prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi frá 1876. Síðasta veturinn var hann þó í framhaldsnámi við Kaupmannahafnarháskóla. Árið 1880 lét hann af prestsskap en fékk stöðu kennara við Prestaskólann og gegndi henni til 1911. Hann fékk prófessorsnafnbót þegar skólinn var lagður niður við stofnun Háskóla Íslands. Hann kenndi jafnframt við Lærða skólann, bæði guðfræði og stærðfræði. Hann var mikill stærðfræðingur og samdi kennslubækur í reikningi, sem lengi voru notaðar, óg ýmsar aðrar kennslubækur.
Eiríkur var alþingismaður Húnvetninga frá 1880 til 1892 og síðan konungkjörinn alþingismaður frá 1901 til 1915. Hann var forseti Sameinaðs þings 1891 og aftur 1901-1907. Bæjarfulltrúi í Reykjavík var hann 1883-1888 og aftur 1894-1900 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var forseti Hins íslenska fornleifafélags 1893-1917 og forseti Bókmenntafélagsins 1900-1904.
Kona Eiríks var Guðrún Gísladóttir (28. janúar 1848 – 2. mars 1893) og komust tvö af börnum þeirra upp, Ingibjörg og Eggert.