Páfabiskupar
Páfabiskupar voru biskupar sem voru tilnefndir af páfanum í Róm. Íslenskir biskupar voru páfabiskupar frá 1350 til u.þ.b. 1442.
Kirkjuþingið í Lateran 1215 samþykkti að dómklerkaráð hverrar dómkirkju ætti að kjósa biskup. Af því að slík ráð voru ekki á íslensku biskupsstólunum gaf þetta kórsbræðrum í Niðarósi færi á að kjósa biskupa til Íslands, þó að stundum væri farið að vilja Íslendinga í því efni. Um 1350 varð nokkur breyting á í Noregi þegar páfi tók fram fyrir hendur kórsbræðra og áskildi sér skipunarrétt í embætti biskupa. Eftir 1380 kom Margrét drottning því til leiðar að hún réð því hverjir yrðu skipaðir, og kom það til af því að biskupar í Niðarósumdæmi áttu sæti í ríkisráði Noregs, og því var mikilvægt fyrir einingu ríkisins að biskupar hér væru ekki andvígir stefnu konungsvaldsins. Voru þá hagsmunir íslensku kirkjunnar síður hafðir í huga. Fyrst í stað voru danskir menn áberandi, en eftir 1430 virðist páfi hafa fengið frjálsari hendur um skipun í biskupsembætti. Varð þá þjóðerni biskupa fjölbreyttara, og aðrir en Danir boðið betur.
Kirkjuþingið í Basel hafði árið 1437 viðurkennt rétt dómklerkaráðsins í Niðarósi til að kjósa biskupa til Íslands. Það varð til þess að Áslákur Bolt erkibiskup greip fram fyrir hendur páfa um 1442 og skipaði Gottskálk Keniksson í embætti Hólabiskups, áður en Robert Wodborn, sem páfi hafði skipað, náði að taka við embættinu. Var það upphaf þess að Íslendingar tóku biskupskjör í eigin hendur.
Páfabiskupar í Skálholti:
- 1382 – 1391: Mikael (danskur)
- 1391 – 1405: Vilchin Hinriksson (danskur)
- 1406 – 1413: Jón (norskur)
- 1413 – 1426: Árni Ólafsson
- 1426 – 1433: Jón Gerreksson (sænskur)
- 1435 – 1437: Jón Vilhjálmsson Craxton (enskur)
- 1437 – 1447: Gozewijn Comhaer (hollenskur, ekki páfaskipaður)
- 1448 – 1462: Marcellus (þýskur)
- 1462 – 1465: Jón Stefánsson Krabbe (danskur)
Á Hólum:
- 1358 – 1390: Jón skalli Eiríksson (norskur)
- 1391 – 1411: Pétur Nikulásson (danskur)
- 1411 – 1423: Jón Tófason eða Jón Henriksson (danskur eða sænskur)
- 1425 – 1435: Jón Vilhjálmsson Craxton (enskur)
- 1435 – 1440: Jón Bloxwich (enskur)
- 1441 – 1441: Robert Wodborn (enskur)
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Sigurður Líndal (ritstj.): Saga Íslands V, 40-42.