Fara í innihald

Ríkisráð Noregs

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ríkisráð Noregs, hið forna, var æðsta valdastofnun norska ríkisins, næst á eftir konungi.

Ríkisráðið varð til úr samkundu embættismanna, sem voru ráðgjafar og trúnaðarmenn konungs. Slíkir ráðgjafar hafa ávallt fylgt konungdæminu, án þess þó að um fasta stofnun væri að ræða. Á höfðingjafundi, sem Hákon háleggur Noregskonungur stóð fyrir 1302, var nafnið „ríkisins ráð“ fyrst nefnt, og telst það föst stofnun frá þeim tíma.

Með tilkomu Kalmarsambandsins 1397 gekk Noregur í samband við Danmörku um sameiginlegan konung. Ríkisráð Noregs var þó áfram við lýði og stjórnaði norska ríkinu, var það einkum valdamikið þegar konungslaust var. Árið 1450 ákváðu norska og danska ríkisráðið að standa sameiginlega að konungskjöri. Árið 1537 innlimaði Kristján 3. Danakonungur Noreg í danska ríkið, og var ríkisráð Noregs þá lagt niður. Færðist stjórn Íslandsmála þá að fullu undir danska ríkisráðið og Danakonung.

Ísland laut norska ríkisráðinu og áttu íslenskir biskupar rétt til setu í ráðinu (eins og aðrir biskupar ríkisins), þó að þeir af eðlilegum ástæðum hefðu sjaldan tækifæri til að sitja fundi þess. Seinastir til þess voru Jón Arason og Ögmundur Pálsson, og fól ríkisráðið þeim einnig völd hirðstjóra á Íslandi.

  • Einar Laxness: Íslandssaga i–r, Rvík 1998.