Norðurreið Skagfirðinga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Teikning af Grími Jónssyni

Norðurreið Skagfirðinga var ferð sem fjölmennur hópur Skagfirðinga fór í maí 1849 að amtmannssetrinu á Möðruvöllum í Hörgárdal til að mótmæla embættisfærslu Gríms Jónssonar amtmanns og krefjast afsagnar hans. Megn óánægja ríkti á meðal bænda um störf Gríms en hann var sagður hrokafullur og skeytingarlaus gagnvart Íslendingum og hugsa fyrst og fremst um hag Dana. Norðurreið Skagfirðinga hefur verið nefnd fyrstu fjöldamótmæli á Íslandi.[1]

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Töluverð ólga ríkti á Íslandi um miðja 19. öld í kjölfar byltinga í Evrópu og afnáms einveldis í Danmörku. Grímur Jónsson amtmaður á Möðruvöllum þótti konunghollur og afturhaldssamur þótt hann væri raunar frjálslyndur að ýmsu leyti, og hafði safnast upp óánægja með embættisverk hans, ekki síst í Skagafirði. Grímur hafði þjónað í danska hernum og þótti beita miklum aga og naut lítilla vinsælda.[2]

Helsti orsakavaldur Norðurreiðarinnar voru þó uppboð á klausturjörðum til festu. Rentukammerið hafði fyrirskipað slík uppboð 26. mars 1842. Þetta þýddi í raun hærri leigu fyrir bændur eða vinnuhjú sem vildu búa á jörðunum. Einnig gerðist það í auknum mæli að leigunni fylgdu sérstakar kvaðir sem sektað var fyrir að fylgja ekki. Ábúendur í þessum sveitum tóku sig saman og sniðgengu uppboðin. Af þessum sökum bauð enginn í góðar jarðir á borð við Möðruvelli sjálfa en það var til þess að leigja þurfti það Vilhelmínu Lever, sem var þá ráðskonan á Möðruvöllum og er þekkt fyrir að vera fyrsta konan sem kaus í kosningum á Íslandi.[3]

Þann 22. maí 1849 safnaðist stór hópur Skagfirðinga – um 160 manns – saman við Vallalaug í Skagafirði, þar sem samþykkt var ályktun þar sem lýst var vanþóknun á valdstjórninni og áskorun á Grím um að segja af sér.[4] 40–50 manna hópur reið svo norður að Möðruvöllum til að leggja fram kröfur sínar og nokkrir Eyfirðingar slógust í för á leiðinni. Hópurinn hafði viðdvöl í Öxnadal á leiðinni og kom að Möðruvöllum 23. maí.

Atburðurinn[breyta | breyta frumkóða]

Leiði Gríms Jónssonar er við Möðruvallakirkju

Þegar þangað kom hittu þeir þó ekki amtmann, enda var hann veikur og lá í rúminu, en þess í stað gengu Skagfirðingarnir umhverfis húsið, lásu upp samþykkt fundarins við Vallalaug, hrópuðu „Lifi þjóðfrelsið! Lifi félagsskapur og samtök! Drepist kúgunarvaldið!“ og festu miða með mótmælum á girðingu. Amtmaður lést örskömmu síðar og vildu sumir meina að honum hefði orðið svo mikið um heimsóknina. Nokkur eftirmál urðu af norðurreiðinni og voru flestir sem tóku þátt í henni kallaðir fyrir rétt og yfirheyrðir.

Þeir fáu gestir, sem að þessu sinni heimsækja þetta hús, eru víst ekki nema lítið sýnishorn af þeim stóra mannflokki, sem misst hefur sjónar á tilhlýðilegri virðingu og trausti á amtmanns embætti því, sem nú er fært á gömlu Möðruvöllum, eru því þess vegna hingað komnir, fyrst til að ráðleggja og því næst til að biðja þann mann, sem hér nú færir þetta embætti, að leggja það niður með góðu nú þegar í sumar, áður en verr fer
 
— Yfirlýsing Skagfirðinga

Norðurreiðin var í raun fyrsta skipulagða mótstaða gegn yfirvöldum frá því um siðaskipti og er að því leyti merkilegur atburður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en það var þó ekki eini tilgangurinn, bændurnir voru einnig að krefjast aukins valds hreppstjóra til að leggja hömlur á frelsi fólks og eflingar vistarbandsins. Strax ári seinna gerðu nemar Lærða skólans aðsúg að rektor skólans sem kallað er Pereatið.

Tilvitnanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sögusýningin í Þjóðviljanum
  2. Ólafur Oddsson. „Norðurreið Skagfirðinga vorið 1849“. bls. 19.
  3. Ólafur Oddsson. „Norðurreið Skagfirðinga vorið 1849“. bls. 20-21.
  4. Ólafur Oddsson. „Norðurreið Skagfirðinga vorið 1849“. bls. 26.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Kristmundur Bjarnason (2008). Amtmaðurinn á Einbúasetrinu. Iðunn. ISBN 9789979104674.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]