Nasrin Sotoudeh
Nasrin Sotoudeh نسرین ستوده | |
---|---|
Fædd | 30. maí 1963 |
Menntun | Shahid Beheshti-háskóli |
Störf | Lögfræðingur |
Trú | Sjía |
Maki | Reza Khandan |
Verðlaun | Sakharov-verðlaunin (2012) |
Vefsíða | nasrinsotoudeh.com |
Nasrin Sotoudeh (persneska: نسرین ستوده) er íranskur mannréttindalögfræðingur. Hún hefur talað máli margra stjórnarandstæðinga sem hafa komist í kast við lögin í Íran frá árinu 2009 og hefur einnig varið fanga sem hafa verið dæmdir til dauða fyrir glæpi sem þeir frömdu þegar þeir voru ólögráða. Meðal skjólstæðinga hennar má nefna Nóbelsverðlaunahafann Shirin Ebadi. Hún hefur einnig varið konur sem hafa verið handteknar fyrir að sýna sig á almannafæri án hijab-slæðu, sem er ólöglegt í Íran.
Sotoudeh var handtekin í september árið 2010 fyrir að breiða út áróður og grafa undan þjóðaröryggi og var því sett í einangrunarvist í Evin-fangelsi. Í janúar árið 2011 var Sotoudeh dæmd til 11 ára fangelsisvistar auk þess sem hún var svipt lögmannsréttindum og bannað að yfirgefa landið í 20 ár. Síðar sama ár mildaði áfrýjunardómstóll dóm hennar í 6 ára fangelsisvist og kvað á um að hún hlyti aftur lögmannsréttindin eftir 10 ár. Sotoudeh var sleppt úr haldi árið 2013, stuttu áður en Hassan Rouhani forseti Írans hélt til New York til að ávarpa Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.[1]
Sotoudeh var aftur handtekin í júní árið 2018 fyrir að dreifa áróðri og móðga æðstaklerk Írans, Ali Khamenei. Þann 12. mars árið 2019 var hún dæmd til fangelsisvistar í Teheran eftir að hafa verið sakfelld fyrir ýmis brot gegn írönskum öryggislögum. Dómari í Teheran sagði írönskum ríkismiðlum að hún hefði verið dæmd til sjö ára fangelsisvistar en samkvæmt eiginmanni Sotoudeh var dómurinn í raun mun þyngri. Samkvæmt honum og öðrum heimildarmönnum var Sotoudeh dæmd til 148 svipuhagga og allt að 38 ára fangelsisvistar.[2]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Sleppa 11 pólitískum föngum í Íran“. mbl.is. 18. september 2013. Sótt 15. mars 2019.
- ↑ Sunna Ósk Logadóttir (14. mars 2019). „Ofsótt fyrir að verja kvenréttindi“. mbl.is. Sótt 15. mars 2019.