Nýja Holland
Nýja Holland (hollenska: Nieuw-Nederland, latína: Novum Belgium eða Nova Belgica) var heitið á því landsvæði sem Hollendingar réðu yfir á austurströnd Norður-Ameríku á 17. öld. Nýja Holland náði yfir hluta þess lands sem í dag tilheyrir bandarísku fylkjunum Maryland, Delaware, Pennsylvaníu, New Jersey, New York, Connecticut og Rhode Island. Nafnið Nýja Holland var fyrst notað á landakorti sem Adriaen Block gerði og kynnti fyrir hollenska stéttaþinginu árið 1614. Árið 1621 fékk Hollenska Vestur-Indíafélagið einkaleyfi á verslun á landsvæðinu en frá 4. áratugnum tóku enskir landnemar að flykkjast til landsins án þess að Hollendingar fengju rönd við reist. Með Hartford-samningnum 1650 létu Hollendingar Connecticut-á Englendingum eftir og árið 1664 ákváðu Englendingar að leggja Nýja Holland undir sig sem leiddi til annars stríðs Englands og Hollands 1665-1667. Árið 1673 lögðu Hollendingar landið aftur undir sig með 21 skipa flota undir stjórn Cornelis Evertsen de Jongste en Westminster-sáttmálinn sem batt enda á þriðja stríð Englands og Hollands 1674 kvað endanlega á um að landið tilheyrði Englandi.