Niels Fuhrmann
Níels Fuhrmann (1685 – 10. júní 1733) var norskur embættismaður sem var amtmaður á Íslandi frá 1718 til dauðadags. Hann var æðsti embættismaður á landinu um árabil, kom að mörgum málum, fékk yfirleitt gott orð og naut vinsælda meðal landsmanna en er þó helst minnst fyrir svonefnt Hrafnhettumál eða Schwartzkopf-mál.
Uppruni og embættistaka
[breyta | breyta frumkóða]Fuhrmann var frá Björgvin í Noregi. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan prófi en varð síðan ritari Christians Sehested aðmíráls, sem þá var einn helsti valdamaður í Danmörku.
Árið 1716 var Fuhrmann svo skipaður aðstoðarmaður Christians Müller, amtmanns á Íslandi, og skyldi fá helming launa hans. Hann fór þó ekki til Íslands fyrr en 1718, þegar Müller hafði látið af embætti, með herskipinu Gottenborg, sem var stærsta herskip sem til landsins hafði siglt, og settist þegar að á Bessastöðum ásamt danskri ráðskonu sinni, Katrínu Holm, og fleira þjónustufólki. Gottenborg strandaði hins vegar við Þorlákshöfn á leið frá Íslandi um haustið en meirihluti áhafnarinnar bjargaðist á land.
Embættisár
[breyta | breyta frumkóða]Fuhrmann var röggsamur framkvæmdamaður sem hafði hug á að gera ýmsar breytingar á stjórnsýslu og eitt af því fyrsta sem hann gerði var að koma því á að farið skyldi eftir norskum lögum við dóma og var þá hætt að nefna sex eða tólf menn í dóma sem skera skyldu úr málum, heldur dæmdi yfirdómari einn í flestum málum. Ennfremur var það lagt af að menn skyldu fá sex eða tólf menn til að sverja með sér eið að sakleysi sínu, heldur skyldu þeir einir sverja eiðinn. Þannig breyttist réttarfar í landinu mikið með embættistöku Fuhrmanns.
Eitt þeirra hlutverka sem Fuhrmann var falið var að draga úr deilum embættismanna innbyrðis og tókst honum það að hluta en dróst þó sjálfur inn í miklar deilur við aðra embættismenn. Skömmu eftir komu sína til landsins komst hann í kynni við Guðmund Þorleifsson ríka í Brokey og fór svo vel á með þeim að Guðmundur og kona hans arfleiddu hann að öllum sínum miklu eignum, en þau höfðu misst öll börn sín í Stórubólu. Áður hafði Oddur Sigurðsson lögmaður, sem hafði verið heitbundinn einni dóttur þeirra, átt að erfa þau, en slest hafði upp á vinskapinn og hjónin fengu liðsinni Fuhrmanns til að ná aftur af Oddi eignum sem þau höfðu þegar afhent honum. Margt fleira varð þeim til ósættis, enda var Oddur mjög yfirgangssamur og hafði verið valdamesti maður landsins um alllangt skeið. Meðal annars tók Fuhrmann af Oddi umboð sem hann hafði haldið í heimildarleysi og afhenti Jóhanni Gottrup. Var það upphaf að hatrömmm og langvinnum deilum milli Odds og Jóhanns.
Lýsing
[breyta | breyta frumkóða]Jón Halldórsson í Hítardal lýsir Fuhrmann svo að hann hafi verið „með hærri mönnum á vöxt, fyrirmannlegur, skarpvitur, vel talandi, forfarinn í flestum lærdómslistum og tungumálum, svo ég efast um, hvort hér hafi verið lærðari veraldlegúr yfirmaður, þar með var hann frlðsamur, ljúfur, lítillátur, glaðsinna og veitingasamur. Á alþingi var oftast nær alsetið í kringum hans borð um máltíð af fyrirmönnum landsins og hans góðum vinum, er hann lét til sín kalla. Sótti ekki eftir neins manns falli eður hrösun, stundaði til að halda landinu við frið og landsrétt.“
Hrafnhetta
[breyta | breyta frumkóða]Fuhrmann þótti glæsimenni og var sagður kvennamaður mikill. Á Kaupmannahafnarárum sínum hafði hann trúlofast stúlku að nafni Appollónía Schwartzkopf, dóttur Daniels Schwartzkopf, norsks gullsmiðs í Kaupmannahöfn. Er hún sögð hafa verið fögur og hrífandi, dökkhærð en hörundsljós. Ást Fuhrmanns entist þó ekki lengi og hann brá heiti við Appollóníu og fór til Íslands. Hún lögsótti hann fyrir heitrof og vann málið bæði fyrir undirrétti og hæstarétti og var Fuhrmann dæmdur til að giftast henni, en þar til af brúðkaupinu yrði skyldi hún fá tvo þriðju embættislauna hans. Hún sigldi til Íslands sumarið 1722, settist upp á Bessastöðum og beið brúðkaupsins. Fuhrmann hafðist við í tjaldi á túninu þar til búið var að afþilja sérstaka íbúð fyrir hann í amtmannsbústaðnum. Gegndi Appollónía að ýmsu leyti húsmóðurstörfum á Bessastöðum næsta árið þótt amtmaður gerði sig ekki líklegan til að efna til brúðkaups.
Sumarið 1723 kom til landsins með Grindavíkurskipi stúlka, Karen Holm, dóttir Katrínar ráðskonu á Bessastöðum, og bendir allt til þess að þau Fuhrmann hafi verið kunnug áður. Eftir komu hennar versnaði samkomulag kvennanna á Bessastöðum til mikilla muna. Um veturinn sagði Appollónía Kornelíusi Wulf landfógeta, sem einnig bjó á Bessastöðum, að sig grunaði að verið væri að byrla sér eitur, og hún bjó einnig við illt atlæti, lélegan mat og köld húsakynni. Hún var mikið veik um veturinn og vorið, bæði líkamlega og andlega, og dó 20. júní 1724.
Mikið var talað um veikindi hennar og dauða og 1725 fékk bróðir hennar, Franz Schwartzkopf parrukmeistari í Kaupmannahöfn, Friðrik 4. konung til að skipa dóm til að rannsaka málið. Fuhrmann virðist þó aldrei hafa verið grunaður um að eiga aðild að láti heitkonu sinnar, heldur voru Holms-mæðgur sakaðar um að hafa eitrað fyrir henni. Ekkert sannaðist þó og voru þær sýknaðar. Margar tilgátur hafa komið fram um ástæður fyrir dauða Appollóníu en nú telja flestir að þunglyndi ásamt illum aðbúnaði hafi átt þátt í dauða hennar.
Ævilok
[breyta | breyta frumkóða]Fuhrmann bjó áfram á Bessastöðum með Karen Holm en giftist henni aldrei. Hann dó snemmsumars 1733 og var grafinn í kór Bessastaðakirkju. Hann arfleiddi Karenu að öllum eigum sínum meðan hún lifði en eftir lát hennar skyldu þær ganga til lögerfingja hans. Í Bessastaðakirkju eru tveir stórir koparstjakar sem Karen Holm gaf til minningar um amtmann.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „Af för skal frægð kenna“. Fálkinn, 14. tbl. 1965.
- „Bitur eru brögð kvenna“. Fálkinn, 15. tbl. 1965.
- „Grimm örlög af afbrýði og hatri“. Fálkinn, 16. tbl. 1965.
- „Málarekstur vegna dauða Schwartzkopfs“. Fálkinn, 17. tbl. 1965.
- „Nokkrar Kópavogs-minjar. Schwartzkopf-mál“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags, 42. árgangur, 1929.
- Árbækur Espólíns XXXVI. Kap. Frá landshöfðingjum[óvirkur tengill]
Fyrirrennari: Christian Müller |
|
Eftirmaður: Joachim Henriksen Lafrentz |