Fara í innihald

Mulningskjarni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Grindcore er öfgakennd tónlistarstefna og undirgrein pönks og þungarokks. Stefnan varð til um miðjum níunda áratug seinustu aldar í Norður-Ameríku og Evrópu og þá sérstaklega á Englandi. Stefnan einkennist af miklum ofsa, hraða og stöðugri keyrslu. Venjuleg grindcore-hljómsveit samanstendur af þungum gítar og bassa sem er í lægri stillingum en vanalega og eru keyrðir í gegnum hljóðbjagara. Trommuleik sem er hraður og líkist vélbyssu og síðan er það öskrari sem flytur boðskapinn. Bresku hljómsveitirnar Napalm Death og Carcass eru þekktustu grindcore-hljómsveitirnar og eru flestir sammála um að þær hafi lagt grunninn að sjálfri stefnunni. Frá Bretlandi dreifði stefnan sér um alla Evrópu, Norður-Ameríku og til Japans.[1]

Einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Órjúfanlegur partur af grindcore er reiðin. Hana er bæði að finna í sjálfum hljóðfæra leiknum og textum. Stefnan tekur til sín áhrif á bæði pönki og þungarokki en er á sama tíma allt öðruvísi en hinir flokkarnir. Öll áhersla er lögð á keyrsluna, kraftinn í sjálfu laginu. Trommarinn eða trommuvél eru í miklu aðalhlutverki í grindcore og sjá þeir um blastbeat. Melódíur og jafnvel textar eru í aukahlutverkum.

Ólíkt þungarokki, þá hefur pönk verið meðvitaðara um félagsleg málefni. Grindcore er ekki frábrugðið og oftast er gengið skrefinu lengra en í pönktónlist og heiminum sagt stríð á hendur. Margir af frægustu tónlistarmönnum stefnunar er meðlimir í grasrótasamtökum. Þar berjast þeir fyrir jafnrétti kynja sem og dýra. Einnig er mikil áhersla lögð á að verja náttúruna og berjast gegn stríðsátökum og kapítalisma. Textarnir eru því margir félagslegs eðlis. Krafan sem þeir gera er sú að við vöknum, tökum slæðuna frá augunum og horfumst í auga við allan þann hrylling sem við samþykkjum. Ljótleiki tónlistarinnar, endurspeglar ljótleika heimsins.

Annað mikilvægt umræðuefni í grindcore er viðbjóður (á ensku gore). Þær hljómsveitir sem yrkja um viðbjóð og hrylling falla undir goregrind. Þar er hryllilegum dauðadögum lýst, hvort sem það er af völdum sjúkadóma, stríðs, þess yfirnátturlega eða bara af hversdagslegum ástæðum. Þar er öllum minnstu smáatriðum lýst og mest áhersla lögð á að gera viðbjóðinn yfirgengilegan. Mörgum finnst þetta var óþarfa fantasíur og flótti frá raunveruleikanum. Þeim finnst að grindcore eigi að geta sýnt hin raunverulega hrylling en ekki eigi að hylja yfir hann með yfirgengilegum hrylling.[2]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Á níunda áratug seinustu aldar var mikil gróska í öllu jaðarrokki. Tónlistarstefnur voru að myndast um allan heim og höfðu mikil áhrif hvor á aðra. Það sem rak þetta allt áfram var viljinn um að vera hraðari, harðari og þyngri heldur sá sem kom á undan þér. Hver einasta plata hækkaði alltaf staðalinn meir og meir. Grindcore var því samblanda af þessu öllu en samt eitthvað allt annað. Þyngdin var tekinn frá thrash metal og dauðarokki. Póltíkin, árásargirndin og hraðinn var síðan tekinn frá harðkjarna og crust-pönki.

Í Birmingham á Englandi fæddist síðan grindcore. Sömu bágu aðstæður og ólu af sér Black Sabbath sköpuðu hljómsveitir á borð við Napalm Death. Þeir tóku fátæktina og ömurleikann og gerðu tónlist sem endurspeglaði þessar aðstæður. Þeirra fyrsta plata Scum var endurspeglun á samfélagi sem var að rotna að innan. Á plötunni voru 28 lög og stysta lag sem hefur verið tekið upp, you suffer, sem er aðeins ein sekúnda að lengd. Aðrar hljómsveitir sem fylgdu í fótspor Napalm Death voru Carcass, Sore throat og Extreme Noise Terror. Með Napalm Death þá varð Carcass ein frægasta grindcore hljómsveit í heimi. Upphaflega spilaði hún D-beat pönk en færðist yfir í þessa ofbeldisfullu stefnu með plötunni Reek of Putrefaction. Ólíkt Napalm Death sem fjallaði aðallega um félagsleg mál, þá voru meðlimir Carcass heillaðir af mannslíkamanum. Þeir höfðu sankað að sér bókum um anatómíu og læknisfræði. Bækurnar voru innblástur textasmíðanna og Carcass voru þar með fyrsta gore-grind hljómsveitin.

Í upphafi vildu engin plötufyrirtæki styðja svona tónlist. Til þess að geta komið sér á framfæri var því afskaplega mikil DIY vitund bæði hjá hljómsveitum og aðdáendum. Spóluskipti (enska: Tapetrading) voru lykillinn á því að kynnast öðrum hljómsveitum og dreifa sinni eigin tónlist. Það fór þannig fram að hljómsveit tók eitthvað upp, setti á spólu og gaf út í einhverjum eintökum. Sá sem fékk eintak afritaði sitt eintak og lét aðra fá sem gerðu það sama. Spóluskiptanetið náði útum allan heim og var afar afkastamikið og keppst var um að reyna eignast hvert einasta demó sem gefið var út. Annað sem var líka mikilvægt voru tónlistarblöð sem aðdáendur gáfu út. Þar var bæði hægt að lesa sér til um allar hljómsveitirnar og setja sig í samband við þær. Hljómsveitir skipust því reglulega á bréfum og spólum heimsálfanna á milli.

Upp frá þessu mynduðust litlar en metnaðarfullur senur útum allan heim. Í Bandaríkjunum voru það hljómsveitir á borð við Repulsion, Terrorizer og Assück sem gáfu allar út áhrifamiklar plötur. Terrorizer með World Downfall, Repulsion með Horrifier, Assück með Anticapital.

Nútíminn[breyta | breyta frumkóða]

Síðan að Scum kom út hefur stefnan vaxið og dafnað. Hún hefur þroskast og blandast öðrum stefnum og alið af sér margar undirstefnur. Það er náttúrulegt að blanda sumum stefnum saman eins og svartamálmi og dauðarokki. Hatrið og tómhyggjan sem einkennir svartamálm er fullkominn blanda við keyrsluna og reiðina sem einkennir grindcore, hljómsveitir eins og Anaal Nathrakh spila í þessum stíl. Eins er það þunginn og þykki hljómurinn sem dauðarokkið hefur, en Napalm Death færðu sig einmitt í byrjun 10. áratugarins yfir í þennan stíl.

Rafgrind hefur sótt í sig veðrið á seinustu árum. Hljómsveitin the Locust standa þar fremstir í flokki. The Locust sættu mikillar gagnrýni frá íhaldssömum aðdáendum í upphafi fyrir að blanda saman hljóðgervlum og öðrum raftónlistaráhrifum við grindcore.Grindcore hefur hins vegar alltaf átt góð samskipti við raftónlistargreinina, þá sérstaklega hráa raftónlist eins og noise.[3]

Aðrar stefnur sem hafa komið undan grindcore eru meðal annars powerviolence og pornogrind. Powerviolence er grindcore án allra þungarokks áhrifana. Sami hraði, engin áhersla á melódíur og hrátt. Sama reiði sem einkennir grindcore og sama félagslega meðvitund. Pornogrind er síðan eins og nafnið gefur til kynna, grindcore sem einblínir á grófar klám fantasíur.

Ísland[breyta | breyta frumkóða]

Í langan tíma var Forgarður Helvítis eina starfandi grindcore hljómsveitin. Hún var stofnuð árið 1991 og eftir hana liggja nokkrar demó plötur og breiðskífan Gerningaveður. Af ungum sveitum er hægt að nefna Logn, World Narcosis og Manslaughter.

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Yardley (2009): 180.
  2. Yardley (2009): 46.
  3. Yardley (2009): 52.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Allmusic:Explore: Grindcore“. Sótt 13.maí 2012.
  • Yardley, Miranda. (2009). „Birth of Grind“, Terrorizer Magazine.
  • Yardley, Miranda. (2009). „Electro Grind“, Terroizer Magzine.