Milan Kundera
Milan Kundera árið 1980. | |
Fæddur: | 1. apríl 1929 Brno, Tékkóslóvakíu |
---|---|
Látinn: | 11. júlí 2023 (94 ára) París, Frakklandi |
Starf/staða: | Rithöfundur |
Þjóðerni: | Tékkneskur (frá 2019), franskur (frá 1981) og tékkóslóvakískur (til 1979) |
Þekktasta verk: | Óbærilegur léttleiki tilverunnar (1984) |
Undirskrift: |
Milan Kundera (fæddur 1. apríl 1929 í Brno, Tékkóslóvakíu, dáinn 11. júlí, 2023) var tékkneskur rithöfundur sem var búsettur í Frakklandi frá 1975.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Faðir hans var þekktur píanóleikari í heimalandi sínu, ekki síst vegna þess að hann fór ótroðnar slóðir sem píanóleikari og var iðinn við að kynna og leika verk eftir nútímatónskáld, einkum eitt merkasta tónskáld Tékka á 20. öld, Leoš Janáček.
Kundera gekk árið 1945 í Ungliðahreyfingu Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu, en var rekinn úr flokknum þremur árum síðar, árið 1948, aðeins nítján ára að aldri. Um svipað leyti sendi hann frá sér sína fyrstu bók, ljóðabók sem nefnist Maðurinn, þessi mikli garður. Árið 1957 sendi hann frá sér aðra ljóðabók og þá síðustu sem hann hefur skrifað fram til þessa, Eintöl. Strax í þeirri bók byrjar hann að glíma við viðfangsefni sem koma fyrir aftur og aftur í bókum hans: hann veltir fyrir sér spurningum um orð manna og athafnir, gerir stólpagrín að ástinni og kynlífinu og þykir strax þá ansi berorður og frakkur. Í byrjun sjöunda áratugarins skrifar hann svo nokkrar smásögur sem hann birti í þremur smáritum á árunum 1963 til 1968 og voru sjö þeirra síðan gefnar út árið 1969 undir titlinum Hlálegar ástir.
Hann var þó ekki alveg búinn að snúa baki við ljóðlistinni því hann þýddi heilmikið safn ljóða eftir franska skáldjöfurinn Guillaume Apollinaire og fylgdi því úr hlaði með ritgerð um þetta höfuðskáld Frakka á öldinni.
Um 1960 fór Kundera að kenna kvikmyndahandritagerð við Kvikmyndastofnunina í Prag, en hann hafði áður verið við nám þar og átti sinn þátt í tékkneska vorinu í kvikmyndagerð. Meðal nemenda hans á þessum tíma var kvikmyndaleikstjórinn Miloš Forman (Gaukshreiðrið, Amadeus, Larry Flint). Hann fékkst einnig við að skrifa leikrit og í aprílmánuði árið 1962 frumsýndi framsækið leikhús í Prag, Svalaleikhúsið, leikrit hans, Eigendur lyklanna.
Meðan á Vorinu í Prag stóð var Kundera einn þeirra sem vildi endurbæta kommúnismann og ljá honum „mannlega ásýnd“ eins og það var kallað, en það mætti harðri andstöðu meðal íhaldsmanna innan tékkóslóvakíska kommúnistaflokksins og allt sprakk í loft upp á fjórðu ráðstefnu tékkneska rithöfundasambandsins árið 1967.
Sama ár hófst hinn eiginlegi ferill hans sem skáldsagnahöfundar þegar hann sendi frá sér skáldsöguna Brandarinn. Sagan er í senn lítil, falleg ástarsaga og saga tékknesku þjóðarinnar frá 1948 til 1964. Brandarinn varð feykivinsæll í Tékkóslóvakíu á sínum tíma og hefur með tímanum orðið einn af samnefnurum þess sem kallað hefur verið Vorið í Prag og raunar gott betur, því hún er sú skáldsagna hans sem hefur náð hvað mestri útbreiðslu í heiminum, ef skáldsagan Óbærilegur léttleiki tilverunnar er undanskilin.
Eins og áður segir var Kundera rekinn úr Kommúnistaflokknum árið 1948 en hann gekk aftur í hann í upphafi sjöunda áratugarins þegar ógnartími Stalíns var liðinn hjá. En hann rakst illa flokki eins og fyrri daginn og var aftur rekinn úr flokknum árið 1970, tveimur árum eftir innrás Rússa, sem komu afturhaldssömustu kommúnistunum til aðstoðar, eins og frægt er orðið, og gerðu Tékkóslóvakíu að leppríki sínu. Kundera var rekinn úr starfi sínu við Kvikmyndastofnunina, bækur hans voru bannaðar, fjarlægðar úr öllum bókasöfnum og nafn hans máð út úr öllum ritum um tékkneskar bókmenntir. Yfirvöld gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir að hann héldi áfram að skrifa, en hann þrjóskaðist við og tókst að fá næstu bók sína, Lífið er annars staðar, þýdda á frönsku og hún birtist fyrst í París árið 1973.
Hann var þá orðinn nokkuð þekktur í Frakklandi. Brandarinn hafði komið þar út árið 1969 með formála eins þekktasta og áhrifamesta rithöfundar Frakka um þær mundir, súrrealistans Louis Aragons. Árið 1975 bauðst Kundera að taka að sér kennslu við háskólann í Rennes í Bretagnehéraði í Frakklandi vestanverðu. Nokkrum mánuðum eftir að hann kom til Frakklands, 1976, sendi hann frá sér sína þriðju skáldsögu, Kveðjuvalsinn, og þremur árum síðar kom Bókin um hlátur og gleymsku út, en hún varð til þess að tékknesk stjórnvöld sviptu hann hinu tékkneska þjóðerni sínu árið 1980. Hann hlaut franskan ríksborgararétt árið 1981 þegar François Mitterrand varð forseti Frakklands. Sama ár kom leikritið Jakob og meistarinn, hylling til Denis Diderot út. Árið 1984 kom út hans frægasta bók, Óbærilegur léttleiki tilverunnar, tveimur árum síðar, eða 1986, kom út ritgerðasafnið List skáldsögunnar, skáldsagan Ódauðleikinn 1990, ritgerðasafnið Svikin við erfðaskrár 1993, skáldsagan Með hægð 1995 og skáldsagan Óljós mörk 1997, en sú bók kom fyrst í heiminum út hérlendis. Nýjasta skáldsaga hans, Fáfræðin, kom út á íslensku haustið 2000. Eftir það hefur hann sent frá sér tvö ritgerðasöfn um skáldskap, tónlist og myndlist, Tjöldin, árið 2005 og Kynni í lok mars 2009. Öll verk hans, skáldsögur, smásögur, leikrit og ritgerðir hafa komið út á íslensku í þýðingu Friðriks Rafnssonar.
Kundera bjó ásamt konu sinni, Veru, í París. Hann kenndi til skamms tíma við École des Hautes Études en Sciences Sociales þar sem hann fjallaði um skáldsöguna í Mið-Evrópu og samband tónlistarinnar og skáldsögunnar, þessara tveggja sérevrópsku listforma. Hann hætti því hins vegar fyrir nokkrum árum og sinnir nú alfarið ritstörfum.
Verðlaun
[breyta | breyta frumkóða]Kundera hlaut margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir ritverk sín, m.a. Medicis-verðlaunin árið 1973 fyrir skáldsöguna Lífið er annars staðar, Jerúsalemverðlaunin í árið 1985 fyrir skáldsöguna Óbærilegur léttleiki tilverunnar, Aujourd‘hui verðlaunin árið 1993 fyrir ritgerðasafnið Svikin við erfðaskrárnar, Herderverðlaunin árið 2000 og Grand prix frönsku akademíunnar árið 2001 fyrir höfundarverk sitt í heild. Hann hlaut hin virtu Heimsverðlaun Simone og Cino del Duca stofnunarinnar þann 10. júní 2009 og voru þau afhent við hátíðlega athöfn í Frönsku akademíunni í París. Kundera var gerður að heiðursborgara í fæðingarborg sinni, Brno í Tékklandi, haustið 2009.
Tenging við Ísland
[breyta | breyta frumkóða]Kunderahjónin komu nokkrum sinnum til Íslands. Ísland kemur fyrir í nokkrum bóka Kundera: Kveðjuvalsinum (minnst á laxveiðar á Íslandi), Bókinni um hlátur og gleymsku (minnst á einvígi Fischers og Spasskís í Reykjavík), Svikunum við erfðaskrárnar (vangaveltur út frá orðinu fjölskylda, gönguferð um gamla kirkjugarðinn í Reykjavík), Fáfræðinni (orðið söknuður, heimþrá og beinamál Jónasar koma þar m.a. við sögu), í Tjöldunum (fjallað nokkuð um Íslendingasögurnar) og í þeirri nýjustu, Kynnum, er kafli um skáldsöguna Svaninn eftir Guðberg Bergsson. Auk þess skrifaði hann formála að bók um Kristján Davíðsson listmálara sem Listasafn Íslands gaf út í tilefni af yfirlitssýningu á níræðisafmæli listamannsins (2008).
Verk
[breyta | breyta frumkóða]- Skáldsögur og smásögur
- Brandarinn, (skáldsaga, 1967; útgefin á íslensku 2007)
- Hlálegar ástir, (smásögur, 1968; útgefin á íslensku 2002)
- Lífið er annars staðar, (skáldsaga, 1973; útgefin á íslensku 2005)
- Kveðjuvalsinn, (skáldsaga, 1973; útgefin á íslensku 1992)
- Bókin um hlátur og gleymsku, (skáldsaga, 1978; útgefin á íslensku 1993)
- Óbærilegur léttleiki tilverunnar, (skáldsaga, 1984; útgefin á íslensku 1986)
- Ódauðleikinn, (skáldsaga, 1990; útgefin á íslensku sama ár)
- Með hægð, (skáldsaga, 1995; útgefin á íslensku sama ár)
- Óljós mörk, (skáldsaga, 1997; frumútgefin á íslensku)
- Fáfræðin, (skáldsaga, 2000; útgefin á íslensku sama ár)
- Hátíð merkingarleysunnar, (skáldsaga, 2013; útgefin á íslensku 2014)
- Leikrit
- Jakob og meistarinn, hylling til Denis Diderot, (1981; leikið á íslensku 1984)
- Ritgerðir
- List skáldsögunnar, (1986; útgefin á íslensku 1999)
- Svikin við erfðaskrárnar, (1993)
- Tjöldin, (2005, útgefin á íslensku 2006)
- Kynni, (2009; útgefin á íslensku 2009)
- Vesturlönd í gíslingu eða harmleikur Mið-Evrópu/Bókmenntir og smáþjóðir (2024).
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Úr einkaorðabók Kundera; grein í Lesbók Morgunblaðsins 2002
- Bækur eftir Kundera á íslensku; tengill á vef Forlagsins
erlendir
- Kundera í sjónvarpsviðtali 1987 Geymt 9 ágúst 2010 í Wayback Machine
- Milan Kundera Geymt 8 september 2020 í Wayback Machine
- Milan Kundera gerður að heiðursborgara Brno