Sagnmyndir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Miðmyndarending)

Sagnir hafa þrjár myndir, germynd, miðmynd og þolmynd. Ræðst notkun þeirra af því hvort áhersla er fremur lögð á geranda eða þolanda.

Germynd[breyta | breyta frumkóða]

Germynd (skammstafað sem gm. eða germ.) er algengasta sagnmyndin. Áherslan er á geranda setningarinnar; t.d. Jón klæddi sig, móðirin klæðir drenginn.

Miðmynd[breyta | breyta frumkóða]

Miðmynd (skammstafað sem mm. eða miðm.) þekkist á því að endingin -st (sem kallast miðmyndarending) bætist við germyndina (t.d. Jón klæddist). Á undan miðmyndarendingunni falla þó niður endingarnar -ur, -r og r-ð

Dæmi:

  • þú kemur → þú kemst

Miðmynd segir frá því hvað gerandi/gerendur gerir/gera við eða fyrir sjálfan/sjálfa sig, t.d. hann leggst, þeir berjast.

Fyrir kemur að germynd lítur út sem miðmynd, t.d. þú stökkst út í lækinn. Til að greina á milli er hentugt að skipta um persónu eða tölu; þú stökkst út í lækinn - > ég stökk út í lækinn - sem leiðir í ljós germynd þar eð endingin -st verður að vera í öllum persónum í miðmynd.

Miðmyndarsögn[breyta | breyta frumkóða]

Sumar sagnir eru aðeins til miðmynd (t.d. sagnirnar nálgast, vingast, óttast, öðlast, ferðast, heppnast og kallast) og eru þær kallaðar miðmyndarsagnir.

Miðmyndarending[breyta | breyta frumkóða]

Miðmyndarending er endingin -st (áður -zt og í forníslensku -sk)[1] sem bætt er við germyndina til að mynda miðmynd.

Miðmyndarendingin -st fellur niður á eftir -st eða -sst í germynd:

  • haldast: Staðan hélst óbreytt
  • festast: Fóturinn hefur fest
  • kyssast: Hjónin hafa kysst
  • hittast: Höfum við hist?

Miðmyndarendingin í forníslensku[breyta | breyta frumkóða]

Um árið 1200 endaði -umk í fyrstu persónu eintölu þar sem -mk hlutinn er komin af orðinu mik (gömul mynd persónufornafnsins mig),[2] og í öllum öðrum beygingarmyndum endaði hún á -sk sem er komið orðinu sik (sem er gömul mynd afturbeygða fornafnsins sig).[2]

Upp úr 1200 fær 1. persóna einnig endinguna -sk/-zk í staðin fyrir -mk.[1][2] Hætt var að nota -sk um lok 13. aldar (um 1300) og endingin -z notuð í staðinn. Á 14. öld komu endigarnar -zt og -zst fram (og virðist framburðurinn þá orðinn st eins og hann er núna)[1] en á 15. öld er endingin -zt nær eingöngu notuð. Á 15. öld koma fram nýjar endingar; -nzt og -zt og síðar -nst og -st. Á 17. öld var farið að bæta við endinguna -st þannig að hún varð -ustum (berjustum). Á 18. öld endurvöktu málhreinsunarmenn gömlu miðmyndarendinguna -umst og er það endingin sem notuð er í dag (köllumst, berjumst, elskumst..)

Upp úr 1200 Undir lok 13. aldar 14. öld-15. aldar 15. öld-17. aldar 17. öld
-sk -zk -z -zt -nst -st -stum
1. persóna eintala berjumsk berjumzk berjumz berjumzt berjunst berjust berjustum

Og svo miðmyndarsögnin kallast sé tekin til dæmis í öllum persónum;

Í forníslensku Undir lok 13. aldar Lok 13. aldar
-mk/-sk -z
1. persóna eintala kollumk köllumz köllumst kallast
2. og 3. persóna kallask kallaz kallast
1. persóna fleirtala kollumsk köllumz köllumst
2. persóna kallisk kalliz kallist
3. persóna kallask kallaz kallast

Þolmynd[breyta | breyta frumkóða]

Þolmynd (skammstafað sem þm. eða þolm.) er mynduð með hjálparsögninni ‚að vera‘ eða ‚að verða‘ og lýsingarhætti þátíðar af aðalsögn. Þolmynd leggur áherslu á þolanda setningar en geranda er sjaldnast getið, dæmi:

  • Jón var klæddur af móðurinni.
  • Vitað er að jörðin er lífvænleg.
  • Henni var hjálpað.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Bjarni Ólafsson (1995). Íslenskur málfræðilykill. Mál og menning. ISBN 9979-3-0874-5.
  • Björn Guðfinnson (án árs). Íslensk málfræði. Námsgagnastofnun.
  • Þórunn Blöndal (1985). Almenn málfræði. Mál og menning.
  1. 1,0 1,1 1,2 http://www.timarit.is/?issueID=425850&pageSelected=9&lang=0 Íslenskt mál 264. þáttur
  2. 2,0 2,1 2,2 Á hvaða sviði málfræðinnar hafa mestar breytingar orðið frá forníslensku til dagsins í dag?[óvirkur tengill]

Frekara lesefni[breyta | breyta frumkóða]

  • Kristján Árnason; Jörgen Pind (2005). Íslensk tunga I. Almenna bókafélagið. ISBN 9979-2-1900-9.
  • Guðrún Kvaran (2005). Íslensk tunga II. Almenna bókafélagið. ISBN 9979-2-1900-9.
  • Höskuldur Þráinsson (2005). Íslensk tunga III. Almenna bókafélagið. ISBN 9979-2-1900-9.