Fara í innihald

Probus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Marcus Aurelius Probus)
Probus
Rómverskur keisari
Valdatími 276 – 282

Fæddur:

Um 19. ágúst 232
Fæðingarstaður Sirmium

Dáinn:

September/október 282
Dánarstaður Sirmium
Forveri Florianus
Eftirmaður Carus
Fæðingarnafn Marcus Aurelius Probus
Keisaranafn Caesar Marcus Aurelius Probus Augustus
Tímabil Illýrísku keisararnir

Marcus Aurelius Probus (um 19. ágúst 232 – september/október 282) var keisari Rómaveldis í sex ár, frá 276 til 282. Probus var keisari á tímum 3. aldar kreppunnar í Rómaveldi, tímabili sem einkenndist af óstjórn og utanaðkomandi ógn. Þegar Probus varð keisari hafði þó nokkrum stöðugleika verið náð eftir hernaðarsigra Claudiusar Gothicusar og Aurelianusar.

Aurelianus keisari var myrtur árið 275 og í kjölfarið var Tacitus hylltur sem keisari af öldungaráðinu. Tacitus var svo myrtur aðeins ári síðar og fékk bróðir hans, Florianus, þá stuðning hjá hluta af hernum til að taka við völdunum. Fljótlega hylltu þó herdeildir austast í Rómaveldi Probus sem keisara. Probus og Florianus börðust á árinu 276 um völdin en á endanum var Florianus myrtur af sínum eigin hermönnum.

Ástandið í Gallíu var slæmt þegar Probus varð keisari og því varð það fyrsta verk hans að reka hina ýmsu germönsku þjóðflokka, sem höfðu ráðist þar inn, aftur norður yfir Rín. Þetta voru, meðal annarra, Frankar, Búrgundar og Alemannar. Að því loknu styrkti hann varnir við landamærin við Rín. Einnig notaði hann hermenn sína sem vinnuafl við að gróðursetja vínekrur þar sem landið var illa farið eftir afleiðingar langvinnra stríðsátaka.

Probus var á leiðinni í herferð gegn Sassanídum, árið 282, þegar Carus, yfirmaður lífvarðasveitar keisarans, var hylltur sem keisari. Probus sendi herlið til að kveða niður uppreisnina en herliðið snerist á sveif með Carusi. Í kjölfarið var Probus myrtur af eigin hermönnum og Carus varð keisari.


Fyrirrennari:
Florianus
Rómarkeisari
(276 – 282)
Eftirmaður:
Carus