Fara í innihald

MERS-CoV

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Middle East respiratory syndrome coronavirus (MERS-CoV) er heilkenni lungnabólgu af völdum áður óþekktrar kórónaveiru (CoV) sem fyrst var greind í Mið-Austurlöndum árið 2012. Egypskur veirufræðingur Dr. Ali Mohamed Zaki í Jeddah í Sádi-Arabíu tilkynnti fyrstur veiruna 24. september 2012 en hann einangraði og greindi þessa kórónaveiru í lungum 60 ára gamals manns með bráðalungnabólgu og nýrnabilun.

Veiran MERS-CoV er sjötta nýja tegundin af kórónaveiru sem líkist SARS en er þó að frábrugðin bæði SARS og þeirri kórónaveiru sem veldur venjulegu kvefi. Fram að 23. maí 2013 var oft vísað til veirunnar MERS-CoV sem veiru sem líkist SARS/HABL eða nýja kórónaveiran eða nefnt „Saudi SARS“.

Vísindamenn víða um lönd unnu saman að því að greina MERS-CoV. Dr. Zaki einangraði og greindi áður óþekkta kórónaveiru og þann 15. september 2012 voru niðurstöður hans birtar á vefsetri ProMed-mail sem er til að fylgjast með sjúkdómum sem eru að brjótast fram. Heilsustofnun í Bretlandi (UK Health Protection Agency) staðfesti svo greiningu á alvarlegum öndunarfærasjúkdómi sem tengdist nýrri tegund af kórónaveiru í öðrum sjúklingi, 49 ára karlmanni frá Qatar sem var nýkominn til Bretlands. Sá sjúklingur dó á sjúkrahúsi í London. Stofnunin í Bretlandi gaf kórónaveirunni nafni London1_novel CoV 2012 og útbjó grunngögn varðandi genamengi veirunnar, genaraðir sem fengust úr RNA-sýnum úr sjúklingnum frá Qatar. Þann 25. september 2012 tilkynnti Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) að verið væri að skoða hina nýju kórónaveiru og samræma viðbrögð og aðvaraði öll aðildarríki sín varðandi veiruna.

Rannsóknarsetrið The Erasmus Medical Center í Rotterdam gerði prófanir á, raðaði og greindi sýni sem EMC veirufræðingurinn Ron Fouchier fékk sent frá Ali Mohamed Zaki í nóvember 2012. Ron Fouchier er í fararbroddi í rannsóknum á kórónaveirum. Hann varpaði fram þeirri kenningu í september 2012 að veiran hefði átt upptök sín í leðurblökum. Þann 8. nóvember 2012 birtust ítarlegri rannsóknarupplýsingar í The New England Journal of Medicine frá Dr. Zaki og samhöfundum hans frá the Erasmus Medical Center undir nafninu Human Coronavirus-Erasmus Medical Center (HCoV-EMC) en þar var genagerð veirunnar lýst og þeim veirum sem hún er skyldust þar á meðal SARS-veirunni. Í maí 2013 var veiran opinberlega nefnd Middle East Respiratory Syndrome Coronavirus (MERS-CoV) af alþjóðlegri nefnd um veiruflokkun (Study Group of the International Committee on Taxonomy of Viruses) og var sú flokkun tekin upp af Alþjóða heilbrigðistofnuninni (WHO).

Vísindamaðurinn Fouchier og rannsóknarhópur hans hafa kortlagt genamengi þessarar nýju kórónaveiru og gefið því nafnið Human Coronavirus-Erasmus Medical Center (hCoV-EMC) eftir rannsóknarsetri sínu og birtu þau gögn í fræðiriti haustið 2012. Embættismenn í Sádi-Arabíu gáfu ekki Dr. Zaki leyfi til að senda sýni af veirunni til Fouchier vegna þess að Fouchier segist hafa einkaleyfi á genamenginu. Dr. Zaki var rekinn frá starfi sínu fyrir að deila niðurstöðum rannsókna sinna. Í Bandaríkjunum fengu rannsóknarverkefni sem beindust að hættulegum veirum ekki fjárstyrki um tíma. Þann 21. febrúar 2013 tilkynnti WHO að þrettán tilvik sýkinga hefðu komið upp á rannsóknarstofum, sex tilfelli (fjögur banvæn) í Sádi-Arabíu, tvö tilfelli (bæði banvæn) í Jórdaníu, tvö tilvik frá Qatar og þrjú frá Stóra-Bretlandi.

Flestar sýkingar milli fólks af kórónaveirum eru vægar og tengdar venjulegum kvefpestum. Sumar kórónaveirur eins og MERS-CoV geta valdið alvarlegum og stundum banvænum sýkingum í mönnum. MERS-CoV hefur þegar valdið mörgum dauðsföllum en enn þá er aðalútbreiðsla veirunnar í Sádi-Arabíu en tíu af þeim 22 sem hafa látist og 22 af 44 skráðum tilvikum eru þar. Karlmenn eru 80% þeirra tilvika.

  Þessi heilsugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.