Le Journal d´un ingénu
Le Journal d'un ingénu (Íslenska Dagbók hrekkleysingja) er fjórða bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2008. Höfundur og teiknari sögunnar er Frakkinn Émil Bravo. Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Sagan hefst í Brussel sumarið 1939. Svalur er bláfátækur, munaðarlaus vikapiltur á hóteli . Hann er hjartahrein fyrirmynd smástrákanna í hverfinu, en jafnframt fáfróður og áhugalítill um umheiminn og stöðu heimsmálanna. Hann hittir uppáþrengjandi slúðurblaðamanninn Val sem reynir að gera hann að uppljóstrara sínum um frægðarfólk sem gistir á hótelinu.
Heimsfrægur hnefaleikakappi og ástkona hans, þekkt kvikmyndastjarna, heimsækja hótelið og vingast við vikapiltinn unga. Annars staðar á hótelinu eiga sér stað leynilegar samningaviðræður milli fulltrúa Póllandsstjórnar og þýsks nasistaforingja. Viðræðurnar eru lokatilraun til að afstýra styrjöld milli ríkjanna.
Svalur vingast við unga herbergisþernu á hótelinu og verður ástfanginn. Hún reynist vera gyðingur af pólskum ættum og furðar sig á fáfræði Svals um veröldina. Samband þeirra verður til þess að heimsmynd Svals breytist. Hann notar allt sparifé sitt í að kaupa heimsatlas og fræðist um fjarlæg lönd.
Blaðamaðurinn Valur heldur áfram að snuðra í kringum hótelið í leit að safaríkri slúðurfrétt, en kemst þá fyrir tilviljun að leynilegu samningaviðræðunum. Þar er allt stál í stál þar sem Þjóðverjar hóta stríði. Svalur blandar sér óvænt í málið og stingur upp á snjallri þausn sem Þýskaland og Pólland virðast geta felt sig við. Vikapilturinn á hótelinu virðist hafa afstýrt heimsstyrjöld!
En Adam var ekki lengi í paradís. Íkorninn Pési hafði nagað í sundur símalínu hótelsins og þegar samningamennirnir leita skýringa á málinu sprettur Valur fram með myndavél sína og tekst að móðga þýska sendifulltrúann, sem segir að samningaviðræðum sé lokið. Nú taki við stríð.
Heimsstyrjöldin skellur á og Svalur hittir vinkonu sína ekki aftur. Síðar fréttir hann að hún hafi verið kommúnisti og sinnt njósnum fyrir Sovétríkin. Hún hafi horfið í Úkraínu og líklega endað í útrýmingabúðum nasista. Niðurbrotinn sver Svalur þess eið að klæðast alltaf vikapiltsbúningnum til minningar um æskuástina.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Emile Bravo, höfundur sögunnar, er mikill unnandi myndasagnanna um Tinna. Sem vísun í þær sögur klæðir Svalur sig upp eins og Tinni fyrir stefnumót með vinkonu sinni.
- Gæluíkorninn Pési fylgir Sval alla söguna. Hann er illa upp alinn og á til að naga rafmagnskapla. Eftir að hafa fengið raflost við þá iðju verður breyting á heilastarfsemi dýrsins sem byrjar að hugsa eins og maður en ekki skynlaus skepna.
- Bókin hlaut afar góðar viðtökur meðan myndasöguáhugamanna og hlaut fjölda verðlauna.