Fara í innihald

Samtökin 22

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá LGB teymið)
Samtökin 22
Stofnun2020; fyrir 4 árum (2020)
ForstöðumaðurEldur Ísidór Deville
Vefsíðahttps://www.samtokin22.is/

Samtökin 22 eru íslensk félagasamtök sem lýsa sjálfum sér sem hagsmunasamtökum homma og lesbía. Þar sem samtökin viðurkenna ekki tilvist trans fólks og hafa beitt sér gegn aukinni vernd þeirra og fræðslu um trans málefni líta gagnrýnendur þeirra á þau sem transfóbíska hreyfingu. Samtökin sjálf hafna slíkum ásökunum.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Samtökin 22 voru upphaflega stofnuð árið 2020 að undirlagi Elds Ísidórs Deville, Ivu Marínar Adrichem og fleiri sem íslensk systursamtök bresku samtakanna LGB Alliance(en).[1] LGB Alliance eru samtök sem klufu sig úr Stonewall(en), hagsmunasamtökum hinsegin fólks í Bretlandi, vegna óánægju með jákvæða afstöðu samtakanna til trans fólks.[2] Samtökin voru stofnuð undir nafninu LGB teymið en breyttu síðar nafninu í Samtökin 22, sem samsvarar nafni Samtakanna '78, stærstu hagsmunasamtaka hinsegin fólks á Íslandi. Þrátt fyrir líkindin með nöfnum hreyfinganna er ekki um að ræða tengd félög.[3]

Samtökin 22 vöktu fyrst þjóðarathygli á Íslandi í nóvember 2022 þegar þau skiluðu inn umsögn til Alþingis um lagafrumvarp þingkonunnar Hönnu Katrínar Friðriksson um bann við bælingarmeðferðum á hinsegin fólki. Í umsögninni sögðust samtökin fagna fyrirætlunum um að banna bælingarmeðferðir gegn samkynhneigð en mótmæltu því að bælingar á kynvitund og kyntjáningu yrðu einnig bannaðar.[4] Í þingræðu þann 15. nóvember 2022 gagnrýndi Daníel E. Arnarsson, varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og framkvæmdastjóri Samtakanna '78, það að tekið hefði verið við umsögn Samtakanna 22 um frumvarpið og sagði samtökin tengjast erlendum samtökum sem væru á lista yfir haturssamtök. Samtökin 22 brugðust við ummælum Daníels með því að kvarta til forseta Alþingis yfir meintum brotum hans gegn siðareglum þingsins.[5] Kvörtun þeirra var vísað frá í desember sama ár.[6]

Í apríl árið 2023 skrifuðu tæplega 300 samkynhneigðir Íslendingar undir grein sem birt var á vefmiðlinum Vísi þar sem Samtökin 22 voru fordæmd og því mótmælt að þau kölluðu sig hagsmunasamtök samkynhneigðra. Undirrituð að greininni sögðu ljóst að starf Samtakanna 22 „[snerist] ekki um réttindabaráttu eða hagsmunagæslu samkynhneigðra heldur baráttu gegn réttindum og hagsmunum annarra hópa“.[7][8]

Í september 2023 tilkynnti Reykjavíkurborg Samtökin 22 til lögreglu eftir að Eldur Deville og tveir aðrir meðlimir samtakanna komu óboðnir inn í Lang­holts­skóla. Að eigin sögn voru þeir komnir til að krefjast svara vegna ábendingar foreldra um að plaköt með upplýsingum um BDSM væru á veggjum skólans. Þeir tóku upp myndbönd af skólastarfsfólki á meðan þeir kröfðu það svara en var síðan vísað burt.[9]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Sylvía Hall (21. september 2020). „Efast um að „LBG teymið" eigi upp á pallborðið hjá hinsegin samfélaginu“. Vísir. Sótt 17. september 2023.
  2. Freyr Rögnvaldsson (21. september 2020). „Gagnrýna tilraun til stofnunar transfóbískra samtaka á Íslandi“. Stundin. Sótt 17. september 2023.
  3. „Samtökin 22“. Samtökin '78. Sótt 17. september 2023.
  4. „Öll erindi í 45. máli: almenn hegningarlög (bælingarmeðferð) 153. löggjafarþing. Erindi og umsagnir“. Alþingi. Sótt 17. september 2023.
  5. Heimir Már Pétursson (17. nóvember 2022). „Tekist á um bælingarfrumvarp“. Vísir. Sótt 17. september 2023.
  6. Bjarki Sigurðsson (7. desember 2022). „Máli Samtakanna 22 gegn varaþingmanni VG vísað frá“. Vísir. Sótt 17. september 2023.
  7. „Samtökin 22 eru ekki í okkar nafni“. Vísir. 24. apríl 2023. Sótt 17. september 2023.
  8. Kolbeinn Tumi Daðason (24. apríl 2023). „Samtökin 22 eru ekki í okkar nafni“. Vísir. Sótt 17. september 2023.
  9. Margrét Marteinsdóttir (8. september 2023). „Reykjavíkurborg tilkynnir Samtökin 22 til lögreglu“. Heimildin. Sótt 17. september 2023.