Lúxemborg (hérað)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Fáni
Fáni
Skjaldarmerki
Upplýsingar
Höfuðborg: Arlon
Flatarmál: 4.443 km²
Mannfjöldi: 264.084 (1. janúar 2008)
Þéttleiki byggðar: 59/km²
Vefsíða: [1][óvirkur tengill]
Lega

Lúxemborg (franska: Province de Luxembourg) er suðaustasta hérað Belgíu og frönskumælandi. Það var áður fyrr hluti af furstadæminu Lúxemborg en klofnaði frá því í belgísku uppreisninni 1839. Höfuðborg héraðsins er Arlon.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Héraðið Lúxemborg er 4.443 km2 að stærð og er því stærsta hérað Belgíu. Það er hins vegar fámennast með rúmlega 260 þúsund íbúa. Lúxemborg er suðaustast í landinu og á landamæri að Frakklandi í suðri og furstadæminu Lúxemborg í austri. Auk þess eru belgísku héruðin Namur fyrir vestan og Liège fyrir norðan. Ardennafjöll teygja sig yfir nær allt héraðið, sem er mjög hæðótt og skógi vaxið. Hæsta fjallið nær þó ekki nema 650 m hæð.

Fáni og skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Héraðsfáni Lúxemborgar er eins og lúxemborgski fáninn, nema hvað héraðsskjaldarmerkið er fyrir miðju. Þegar héraðinu var skipt út úr furstadæminu Lúxemborg þótti óþarft að búa til öðruvísi fána. Skjaldarmerki héraðsins er einnig nánast eins og skjaldarmerki furstadæmisins. Rauða ljónið hefur verið notað í aldaraðir. Kórónan er tákn konungsríkisins Belgíu.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Í gegnum aldirnar var héraðið hluti af stórhertogadæminu Lúxemborg. Þegar Niðurlönd urðu að konungsríki 1830, var hertogadæmið hluti af því, en konungurinn í Hollandi var jafnframt hertogi Lúxemborgar. Árið 1839 hófst belgíska uppreisnin, sem endaði með því að Belgía sleit sig frá Hollandi og lýsti yfir sjálfstæði. Lúxemborg klofnaði þá í tvennt. Vesturhlutinn, frönskumælandi íbúar, tók þátt í uppreisninni og varð að héraði í Belgíu. Austurhlutinn, sem var þýskumælandi, varð að sjálfstæðu ríki. Höfuðborg héraðsins varð Arlon, þrátt fyrir að hún væri að mestu þýskumælandi. Ástæðan fyrir því var sú að í belgíska hluta Lúxemborgar var engin stærri borg sem gæti tekið höfuðborgarhlutverkið að sér. Því er í héraðinu lítill minnihluti sem enn í dag talar lúxemburgísku.

Borgir[breyta | breyta frumkóða]

Í Lúxemborg eru 44 sveitarfélög, en engar eiginlegar borgir. Stærstu bæir héraðsins:

Röð Bær Íbúar Ath.
1 Arlon 28 þúsund Höfuðborg héraðsins
2 Marche-en-Famenne 17 þúsund
3 Aubange 15 þúsund
4 Bastogne 14 þúsund

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]