Fara í innihald

Vestur-Flæmingjaland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Fáni
Fáni
Skjaldarmerki
Upplýsingar
Höfuðborg: Brugge
Flatarmál: 3.125 km²
Mannfjöldi: 1.150.487 (1. janúar 2008)
Þéttleiki byggðar: 366/km²
Vefsíða: [1][óvirkur tengill]
Lega

Vestur-Flæmingjaland (hollenska: West-Vlaanderen) er vestasta hérað í Belgíu og það eina sem nær að sjó. Ferðamennska er snar þáttur í efnahagi héraðsins. Höfuðborgin er Brugge.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Vestur-Flæmingjaland er stærsta héraðið í hollenska hluta Belgíu með 3.125 km2. Það liggur við Norðursjó og er gjörvöll strandlengja Belgíu innan marka héraðsins. Nyrst liggur héraðið að Hollandi (Sjálandi) en í suðvestri að Frakklandi. Auk þess liggur flæmska héraðið Austur-Flæmingjaland að því í austri og vallónska héraðið Hainaut í suðri. Í Vestur-Flæmingjalandi eru nokkrar stærri hafnir sökum nálægðar við sjó, en þær helstu eru í Brugge, Oostende og Zeebrugge, en sú síðastnefnda er næststærsta höfn Belgíu (á eftir Antwerpen). Íbúar héraðsins eru 1,1 milljón talsins.

Fáni og skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Í fána Vestur-Flæmingjalands eru tólf geislar, sex bláir og sex gulir, en fyrir miðju er auður rauður skjöldur. Merking fánans er mjög gömul, eldri en greifadæmið í Flandri. Honum var síðast breytt 1997.

Skjaldarmerkið er tvískipt. Til vinstri er fáninn, en til hægri er hið svarta ljón greifanna í Flæmingjalandi. Skjöldurinn var búinn til árið 1816 þegar Vestur-Flæmingjaland var stofnað sem hérað. Eitt sinn var skjöldurinn þrískiptur og vísaði þriðji hluti skjaldarins til Hollands, en hann féll burtu þegar Belgía lýsti yfir sjálfstæði 1830.

Flæmingjaland (einnig Flandur) heitir eftir germönskum þjóðflokki sem kallaðist Vlamingen á hollensku, eða Flæmingjar. Flæmingjaland í heild er allur hollenskumælandi hluti Belgíu, en Austur- og Vestur-Flæmingjaland eru tvö vestustu hollenskumælandi héruðin í landinu.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Norðursjávarströndin við bæinn De Penne

Í gegnum aldirnar var héraðið hluti af greifadæminu Flandri (Graafschap Vlaanderen). Þegar Frakkar hertóku Niðurlönd 1794 leystu þeir greifadæmið upp og mynduðu sýslurnar Schelde (úr austurhlutanum) og Leie (úr vesturhlutanum). Þær voru aftur leystar upp þegar Frakkar hurfu úr landi 1814. Greifadæmið var þó ekki endurreist, heldur voru flæmsku hlutarnir áfram aðskildir og urðu héruð í nýstofnuðu ríki Niðurlanda. Vestur-Flæmingjaland var formlega stofnað 1816. Þó að Flæmingjar tækju ekki þátt í belgísku uppreisninni 1830, urðu lönd þeirra engu að síður hluti af Belgíu, ekki Hollandi.

Í Vestur-Flæmingjalandi eru 64 bæir eða sveitarfélög. Stærstu borgir eru:

Röð Bær Íbúar Ath.
1 Brugge 116 þúsund Höfuðborg héraðsins og sjötta stærsta borg Belgíu
2 Kortrijk 74 þúsund
3 Oostende 69 þúsund
4 Roeselare 58 þúsund
5 Waregem 36 þúsund
6 Ieper 35 þúsund
7 Menen 32 þúsund