Lögbirtingablaðið
Lögbirtingablaðið er íslenskt tímarit þar sem birtast auglýsingar frá íslenskum stjórnvöldum vegna dómsmála, uppboða á vegum ríkisins, kröfulýsingar, stofnun og aflagningu félaga og annað það sem stjórnvöld vilja birta annað en lög og reglugerðir sem eru birt í Stjórnartíðindum.
Lögbirtingablaðið kom fyrst út í byrjun árs 1908 en áður höfðu stjórnvöld haft þann háttinn á að bjóða út birtingu auglýsinga. Hannes Hafstein bar fram frumvarp um sérstakt Lögbirtingablað þar sem ýmsum þótti óhentugt að birtingarstaður auglýsinga gæti breyst frá ári til árs og eins þótti stjórninni óviðeigandi að birta auglýsingar í sumum dagblöðunum af pólitískum ástæðum. Frumvarpinu var mótmælt meðal annars á þeirri forsendu að með því yrði ríkissjóður ekki aðeins af tekjum vegna uppboðsins heldur þyrfti líka að bera hallann af rekstri blaðsins.[1] Frumvarpið var þó samþykkt árið 1907.
Frá árinu 2002 hefur blaðið verið aðgengilegt á Vefnum[2] og 2005 var ákveðið að hætta prentútgáfu þess þótt áfram verði hægt að panta prentuð eintök[3].
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Björn Bjarnason (19. janúar 2008). „Lögbirtingablaðið 100 ára“. Sótt 2. janúar 2009.
- ↑ „Um Lögbirtingablaðið“. Sótt 2. janúar 2009.
- ↑ Björn Bjarnason (1. júlí 2005). „Rafrænt Lögbirtingablað opnað á Hvolsvelli, 1. júlí, 2005“. Sótt 2. janúar 2009.