Inga Lára Lárusdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Inga Lára Lárusdóttir (fædd 23. september 1883, dáin 7. nóvember 1949) var kennari, bæjarfulltrúi í Reykjavík, ritstjóri og útgefandi tímaritsins 19. júní og ein helsta baráttukona fyrir réttindum kvenna á fyrri hluta 20. aldar.

Inga Lára var fædd í Selárdal í Dalahreppi í Vestur-Barðastrandasýslu. Foreldrar hennar voru hjónin Ólafía Sigríður Ólafsdóttir og sr. Lárus Benediktsson prestur í Selárdal og var Inga Lára elst fimm systkina.

Nám og störf[breyta | breyta frumkóða]

Hún nam við Kvennaskólann í Reykjavík veturinn 1902-1903 en stundaði nám í Danmörku og Svíþjóð á árunum 1904-1907. Veturinn 1910-1911 lærði hún hannyrðir í Svíþjóð. Inga Lára var kennari við Barnaskóla Reykjavíkur frá 1907-1917 og kenndi við Kvennaskólann í Reykjavík frá árinu 1921. Árið 1917 stofnaði Inga Lára tímaritið 19. júní sem hún ritstýrði og gaf út mánaðarlega samfleytt til ársins 1929. Inga Lára sat í bæjarstjórn Reykjavíkur frá 1918-1922 og sat í fátækranefnd, leikvallanefnd og dýrtíðarnefnd. Inga Lára sinnti fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum. Hún var ein af af stofnendum Lestrafélags kvenna árið 1911 og Heimilisiðnaðarfélags Íslands árið 1913. Hún sat um tíma í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, var um skeið formaður Bandalags kvenna og starfaði einnig innan Kvenréttindafélags Íslands og sat í stjórn þess árið 1912-1913. Inga Lára vann einnig ötullega að Landspítalamálinu svokallaða, var mikil baráttukona fyrir byggingu nýs spítala og var formaður Landspítalasjóðs frá 1941-1949. Hún tók virkan þátt í alþjóðastarfi kvenfélaga og sótti t.d. fund alþjóðasambands kosningaréttarfélaga í Stokkhólmi árið 1911 fyrir Kvenréttindafélagið og fundi International Congress of Women í Osló árið 1920 og í Washington árið 1925 sem fulltrúi Bandalags kvenna.[1][2]

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

Hrafnhildur Ragnarsdóttir, „Hver var hún?“, Sagnir, 1. tbl. 24. árg. 2004

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]


  1. Kvennasögusafn.is, „Inga Lára Lárusdóttir“ (skoðað 20. júní 2019)
  2. Konur og stjórnmál, „Inga Lára Lárusdóttir“ (skoðað 20. júní 2019)