Fara í innihald

Kunming

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd sem sýnir dögun í Kunming borg, Yunnan héraðs í Kína.
Dögun í Kunming borg í Yunnan. Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Kunming um 8,5 milljónir manna.
Landakort sem sýnir legu Kunming borgar í Yunnan héraði í suðvesturhluta Kína.
Kort af sem sýnir Kunming borg í Yunnan, Kína.

Kunming borg (kínverska: 昆明市; rómönskun: Kūnmíng) er höfuðborg og eina stórborg Yunnan héraðs í suðvesturhluta Alþýðulýðveldisins Kína. Hún er staðsett í miðhluta héraðsins á frjósömu vatnasvæði við norðurströnd Dian-vatns, umkringd fjöllum í norðri, vestri og austri. Kunming þjónar sem hlið Kína að Suðaustur-Asíu og Suður-Asíu. Hún er þekkt söguleg menningarborg Kína og er viðsæl ferðaborg. Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Kunming um 8,5 milljónir manna.

Kunming er staðsett á miðri Yunnan – Guizhou hásléttunni í um 1.900 metra hæð yfir sjávarmáli. Borgin á frjósömu vatnasvæði við norðurjaðar Dian-vatns, umkringd fjöllum í norðri, vestri og austri. Hún samanstendur af fornri borg umlukin varnarmúrum, nútímalegu verslunarhverfi, háskólasvæðum, íbúðarhverfum.

Kunming, sem einnig er þekkt sem Yunnan-Fu (kínverska: 云南福; rómönskun: Yúnnánfǔ), er miðstöð stjórnmála, efnahags, menningar og flutninga Yunnan héraðs. Þar eru höfuðstöðvar margra stórfyrirtækja héraðsins.

Borgin þykir standa framarlega á sviði vísinda. Þar eru fjölmargir háskólar, lækna- og kennaraháskólar, tækniskólar og vísindarannsóknarstofnana: Yunnan háskólinn (stofnaður 1922), Kunming háskóli vísinda og tækni (1925), Yunnan landbúnaðarháskólinn (1938), Kunming læknaháskólinn (1933), og Suðvestur skógræktarháskólinn (1939). Í borginni er stór stjörnuathugunarstöð.

Efnahagslegt mikilvægi borgarinnar stafar af landfræðilegri legu við landamæri ríkja Suðaustur-Asíu. Hún er samgöngumiðstöð Suðvestur-Kína, sem tengist járnbrautum til Víetnam og á þjóðvegum til Mjanmar, Laos og Taílands.

Kunming er öflug iðnaðarborg. Þar er til að mynda vinnsla kopars og annarra efna, framleiðsla ýmissa véla, vefnaðarvöru, pappírs og sements.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Kunming hefur lengi verið samskiptamiðstöð tveggja mikilvægra verslunarleiða, annars vegar vestur inn í Búrma og hins vegar suður að Rauða fljóti einu meginfljóti Vietnam og í Suðaustur-Asíu á skaganum.

En þrátt fyrir að hafa næstum 2.400 ára sögu verða stærstu skrefin til nútíma velmegunar Kunming rakin frá 1910, með mikilli opnun svæðisins, þegar járnbrautir voru lagðar til víetnamsku iðnaðarborgarinnar Haiphong í þáverandi Franska Indókína. Á þriðja áratug síðustu aldar voru fyrstu þjóðvegirnir voru lagðir um svæðið og tengdu Kunming við Chongqing borg og Guiyang til austurs. Staða Kunming sem viðskiptamiðstöð styrktist mjög.

Mynd sem sýnir bogahlið „Gullna hestsins“ á Jinbi stræti í Kunming borg í Yunnan héraði í Kína.
Bogahlið „Gullna hestsins“ í Kunming borg í Yunnan, Kína.

En mesta umbreyting Kunming til nútímaborgar varð þegar Seinna stríð Kína og Japans braust árið 1937. Mikill fjöldi Kínverja flúði japanskar hersveitir inn í suðvestur Kína og tók með sér sundurhlutuð iðjuver, sem síðan voru endurreist í Kunming, utan athafnasvæðis japanskra sprengjuflugvéla. Að auki var fjöldi háskóla og rannsóknastofnana fluttur þangað. Þegar Japanir hertóku Franska Indókína árið 1940, jókst mikilvægi Kunming enn, bæði vegna nýbyggðs vegar til Búrma og með flugi. Í Seinni heimsstyrjöldinni varð borgin að flutningsstöð fyrir átökin í Suðaustur-Asíu. Þar var kínversk herstöð sem bandarísk flugstöð.

Í stríðinu jókst iðnaður borgarinnar mjög. Stórar verksmiðjur í eigu ríkisins voru fluttar til borgarinnar frá Hunan til framleiðslu rafmagnsvara, kopars, sements, stáls, pappírs og vefnaðarvöru.

Iðnaðarborgin Kunming þróaðist síðan enn frekar eftir 1949. Helstu atvinnugreinarnar voru framleiðsla á kopar, blýi og sinki. Þá varð járn- og stáliðnaður mikilvægur. Þar var einnig framleiðsla ýmiskonar véla, raftækja byggingartækja og bifreiða. Frá og með níunda áratugnum varð matvælaframleiðla og tóbaksvinnslu umfagsmikil.

Frá fimmta áratug síðustu aldar hafa verið byggðar járnbrautir sem tengja Kunming borg við Guiyang borg í Guizhou héraði, Chengdu í Sichuan, Nanning í Guanxi og til Víetnam. Borgin er einnig miðstöð þjóðvegakerfis suðvestur Kína. Byggður hefur verið alþjóðlegur flugvöllur sem þjónustar daglegt flug til Beijing, Hong Kong og Makaó auk stórborga Suðaustur-Asíu og Japans.

Borgin hefur þróast hratt síðari ár undir viðleitni stjórnvalda Kína til nútímavæðingar. Götur Kunming hafa breikkað á meðan byggingar byggjast hröðum skrefum. Þá hefur Kunming borg verið útnefnd sérstök ferðamiðstöð með tilheyrandi háhýsum og lúxus hótelum.

Lýðfræði[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2020 þegar síðasta manntal var gert í Kína, var íbúafjöldi borgarkjarna Kunming 5.273.144 en íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 8.460.088.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]