Fara í innihald

Nanning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd frá Nanning borg í Guangxi héraði í Kína.
Frá Nanning borg. Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Nanning um 8,7 milljónir manna.
Landakort sem sýnir legu Nanning borgar í sjálfstjórnarhéraðinu Guangxi í Kína.
Kort af legu Nanning borgar í sjálfstjórnarhéraðinu Guangxi í Kína.

Nanning (kínverska: 南宁; rómönskun: Nánníng; (Nan-ning)), er höfuðborg og stærsta borg sjálfstjórnarhéraðsins Guangxi í suðurhluta Alþýðulýðveldisins Kína. Hún er stjórnsýslu-, efnahags- vísinda- menningar- og samgöngumiðstöð héraðsins. Nanning er í suðurhluta Guangxi, við norðurbakka Yong-fljóts, umkringt hæðóttu vatnasvæði með hlýju, rakadrægu heittempruðu loftslagi. Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Nanning um 8,7 milljónir manna.

Staðsetning[breyta | breyta frumkóða]

Nanning er staðsett í suðurhluta sjálfstjórnarhéraðsins Guangxi, norðan Qingxiu fjalls og á norðurbakka Yong-fljóts, sem er eitt meginfljót Xi fljótskerfisins. Hún liggur um 30 kílómetrum frá mótum fljótanna You og Zuo.

Yong-fljótið (sem síðan myndar Yu-fljótið) er þrátt fyrir flúðir og sandbakka, skipgeng grunnristum bátum allt til Guangzhou höfuðborgar Guangdong héraðs.

Borgin liggur í 70 – 500 metra hæð yfir sjávarmáli og er umkringd hæðóttu vatnasvæði með hlýju, rakadrægu heittempruðu loftslagi. Vegna hins milda loftslags, er í og við borgina gnægð gróskumikilla svæða. Hún er því stundum kölluð „græna borgin“.

Nanning er um 160 kílómetra frá landamærunum að Víetnam. Borgin nær yfir 22.293 ferkílómetra landsvæði.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Mynd frá Changyou skálinn við Yong-fljót í Nanning borg í Kína.
Changyou skálinn við Yong-fljót í Nanning borg.

Nanning er forn borg með langa sögu og ríka menningu. Hún tilheyrði til forna Baiyue þjóðarbrotum. Árið 318 e.Kr., á fyrsta ári svokallaðs Daxing tímabils Austur-Jinveldisins (266–420) var Jinxing sýsla stofnuð þar sem nú er Nanning. Hófst þá samfelld 1700 ára saga stjórnsýslu á svæðinu. Árið 589 var sýslan endurnefnd Xuanhua. Árið 632 á valdatíma Tangveldisins (618–907) var svæðið kallað Yong-hérað (Yongzhou) og þar var stjórnarsetrið Yongzhou. Því var ætlað að stjórna þeim svæðum þjóðarbrota sem ekki voru kínversk í Guangxi og huga að landamæri Yunnan og Guizhou héraða.

Um miðja 9. öld börðust Tang og Tai-ríkið Nanzhao (í því sem nú er vesturhluti Yunnan) um svæðið og eftir 861 var því stýrt frá Nanzhao um skamma hríð. Á tímum Song ættarveldisins (960–1279) var bærinn landamærastöð. Í Lý – Song stríðinu árið 1076, var Yongshou umsetið af hersveitum Lý. Eftir fjörutíu og tvo daga lét borgin undan. Hún var þá jöfnuð við jörðu og íbúar hennar drepnir.

Yongzhou bærinn var síðan endunefndur Nanning árið 1324, á svokölluðu Taiding tímabili hins mongólska Júanveldis (1271–1368). Nanning þýðir „Kyrrðar-Suðrið“.

Allt frá tímum Songveldisins 960–1279 var Nanning þekkt af viðskiptum og hafði fastar viðskiptaskrifstofur frá öðrum kínverskum svæðum í Kína. Á valdatíma Mingveldisins (1368–1644) þróaðist varð Nanning borg efnahagsleg miðja fljótanna Zuo og You. Stjórnsýslahéraðið Nanning hélt á tímum Mingveldisins og á tíma Tjingveldisins (1644–1912).

Eftir að Tjingveldið opnaði fyrir utanríkisviðskipti árið 1907, óx Nanning borg hratt. Á árunum 1912 til 1936 var Nanning höfuðborg Guangxi í stað Guilin borgar. Á þriðja áratug síðustu aldar varð Nanning miðstöð „fyrirmyndar héraðsstjórnar“ undir stjórn stríðsherrans Li Zongren og nútímaborg var sett upp.

Í Kína-Japanska stríðinu (1937–45) var Nanning tímabundið (1940) hernumin af Japönum. Í kjölfarið var í borginni mikilvæg bandarísk flugstöð sem studdi kínversku hersveitirnar í Guangxi en á árunum 1944–45 náðu Japanir henni aftur á sitt vald.

Eftir að Nanning var hertekin af kínverskum kommúnistum árið 1950, var sveitarfélagið sett á laggirnar og gerð að höfuðborg Guangxi héraðs. Þegar sjálfstjórnarsvæðið Guangxi var síðan stofnað árið 1958 varð Nanning héraðshöfuðborg þess.

Í stríðinu í Franska Indókína (1946–54) var í Nanning miðstöð fyrir víetnamskt herlið, sem og í Víetnamstríðinu sem fylgdi í kjölfarið á sjöunda áratugnum og snemma á áttunda áratugnum. Þaðan voru birgðir sendar suður á bóginn til Norður-Víetnam. Í átökunum Kína og Víetnam árið 1979 varð borgin mikilvæg birgðamiðstöð kínverskra herja.

Upp úr 1949 var Nanning verslunar- og stjórnsýslumiðstöð. Eftir það þróaðist iðnaður í borginni hratt og matvælaframleiðsla af nærliggjandi frjósömum landbúnaðarsvæðum jókst til muna.

Lýðfræði[breyta | breyta frumkóða]

Mynd sem sýnir gosbrunnur á Minzu Dadao, í Nanning borg í Kína.
Gosbrunnur Minzu Dadao í Nanning borg.

Í Nanning búa allt að 50 þjóðarbrot. Árið 2010 var um helmingur borgarbúa af Zhuang-þjóðerni (um 51 prósent) sem eru komnir af frumbyggjum svæðisins. Han-kínverjar töldu 47 prósent. Önnur þjóðarbrot voru meðal annars: Yao, Miao, Dong, Mulao, Hui, Mansjú, Maonan og Tujia.

Han- Kínverjar tóku að flytjast til borgarinnar á tímum Qin-veldisins (221–206 f.Kr.) og Hanveldisins (202 f.Kr.–220 e.Kr.). Hui fólk kom á tíma mongólska Júanveldisins (1271–1368). Flestir íbúar af Yao og Miao þjóðarbrotunum eiga rætur í flutningum á tímum Tjingveldisins (1636–1912).

Árið 2020 þegar síðasta manntal var gert í Kína, var íbúafjöldi borgarkjarna Nanning 4.582.703 en íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 8.741.584.

Efnahagur[breyta | breyta frumkóða]

Mynd frá Pumiao landbúnaðarmarkaðinum í Nanning borg í Kína.
Pumiao landbúnaðarmarkaðurinn í Nanning borg.

Í dag er Nanning efnahags-, fjármála- og menningarmiðstöð Guangxi héraðs. Frá árinu 1949 hefur borgin byggst upp sem öfluga iðnaðarborg. Þar er að finna ýmsar steinefnaauðlindir sem unnar eru í borginni, meðal annars gull, járn, mangan, kvars, silfur, indíum, kol, marmari og granít.

Borgin er einnig miðstöð prentunar og pappírsgerðar.

Nanning, sem er staðsett í heittempruðu loftslagi , er umkringd mjög frjósömu landbúnaðarsvæði. Þar eru meðal annars ræktaðir ávextir og sykurreyr. Í borginni er umtalsverð matvælavinnsla, mjölsmölun, sykurhreinsun, kjötpökkun og leðurframleiðsla.

Menntir og vísindi[breyta | breyta frumkóða]

Mynd sem sýnir herþjálfun í Guangxi kennaraháskólanum í Nanning borg í Kína.
Herþjálfun í Guangxi kennaraháskólanum í Nanning borg.

Nanning er miðstöð menntunar og vísinda í Guangxi héraði. Alls eru starfandi í borginni 54 vísindarannsóknarstofnanir, 10 framhaldsskólar og 50 verkmenntaskólar eru að þjálfa sérhæft starfsfólk af öllu tagi. Í borginni eru 8 háskólar. Þar á meðal er Guangxi háskólinn, Læknaháskóli Guangxi og Listaháskóli Guangxi.

Samgöngur[breyta | breyta frumkóða]

Mynd af Austurlestarstöðinni í Nanning borg í Guangxi héraði í Kína.
Austurlestarstöðin í Nanning borg.

Í lok þriðja áratugarins hófst lagning járnbrautar sem tengdi borgina Hengyang í suðurhluta Hunan héraðs við borgirnar Guilin og Liuzhou, Nanning og landamæri Víetnam. Síðar var lögð járnbraut frá Liuzhou til Guiyang í Guizhou. Eftir það tengdist Nanning borg beint Mið-Kína. Árið árið 1957 var borgin síðan tengd enn frekar með lagningu járnbrautar til hafnar í Zhanjiang borgar í Guangdong. Á tíunda áratug síðustu aldar var lokið við járnbrautarlínu milli Nanning og Kunming í Yunnan héraði og lagningu járnbrauta frá Nanning til hafnarborganna Fangchenggang og Beihai við Tonkinflóa. Við það mynduðust stystu lestarsamgöngur Suður-Kína til sjávar.

Í samtímaborginni Nanning eru í dag tvær lestarstöðvar. Sú þriðja er í byggingu sem ætluð er fyrir háhraðalest frá Nanning til Guiyang höfuðborgar Guizhou héraðs. Á 350 km hraða mun háhraðalestin stytta lestarleiðina milli borganna úr 10 tímum niður í 2.5 tíma.

Á síðustu árum hefur verið byggt upp snarlestarkerfi í Nanning borg, alls níu línum.

Meginflugvöllurinn borgarinnar og Guangxi héraðs er Nanning Wuxu alþjóðaflugvöllurinn sem er staðsettur um 31 km suðvestur af miðborg Nanning. Í byggingu er nýr flugvöllur, Nanning Lingli alþjóðaflugvöllur, í bænum Lingli, um 45 kílómetrar að miðbæ Nanning. Í framtíðinni verður hann meginflughöfn héraðsins.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Mynd frá matarmarkaði Zhongshan strætis í Nanning borg í Kína.
Matarmarkaður Zhongshan strætis í Nanning borg.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]