Fara í innihald

Kringlan

Hnit: 64°07′50″N 021°53′37″V / 64.13056°N 21.89361°V / 64.13056; -21.89361
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Kringlubíó)

64°07′50″N 021°53′37″V / 64.13056°N 21.89361°V / 64.13056; -21.89361

Kringlan árið 2013. Hér má sjá merki hennar.

Kringlan er verslunarmiðstöð sem liggur við götuna Kringluna. Hún opnaði þann 13. ágúst 1987 (Borgarkringlan opnaði 1991 sem sér verslunarmiðstöð við hlið Kringlunnar) og var ein af fyrstu verslunarmiðstöðvunum sem byggðar voru í Reykjavík en þar höfðu áður risið verslunarkjarnarnir Austurver, Suðurver, Glæsibær og Grímsbær auk Skeifunnar. Kjörgarður við Laugaveg var sem dæmi hannaður út frá innra sameiginlegu svæði, en Kringlan var samt sem áður fyrsta eiginlega verslunarmiðstöðin með innri göngugötu á tveimur hæðum og tugi verslana samankomna á einum stað.

Kringlan er stærsta verslunarmiðstöð Reykjavíkur og sú næst stærsta á Íslandi og eru þar starfræktar yfir 180 búðir, veitinga- og þjónustustaðir.[1] Þar er allt frá bókasafni, fasteignasölu, kvikmynda- og leikhúsi, til vín- og fataverslana. Miðstöðin hefur vaxið mikið á síðari árum og hefur hún verið talin ógnun við Laugaveginn og aðra verslunarkjarna. Helsti keppinautur Kringlunnar er Smáralind sem er í Smáranum í Kópavogi.

Saga Kringlunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Það var Pálmi Jónsson, kenndur við Hagkaup, sem talinn er upphafsmaður byggingu Kringlunnar. Bygging Kringlunnar hófst árið 1984 og eru stoðir og bitar hennar aðallega gerðir úr forsteyptum einingum. Síðar árið 1991 var Borgarkringlan opnuð, nokkurs konar „lítil Kringla“, minni verslunarmiðstöð milli Kringlunnar og Borgarleikhússins sem hýsti meðal annars Kringlukrána og margar gjafavöruverslanir. Eftir það var farið í stækkun Kringlunnar árið 1996 og síðan aftur árið 1998 þar sem verkið var unnið í tveimur áföngum og lauk fyrri áfanga haustið 1998 en þeim síðari í október 1999.[2]

Kringlan varð landsþekkt fyrir verslanir, kaffihús, veitingahús, snyrtistofur, skrifstofur og læknastofur, sérverslanir og stórmarkaði í sama húsnæðinu og hélt titlinum sem stærsta verslunarmiðstöð Íslands með um 40.000 fermetra í einungis 2 ár í viðbót eða þar til árið 2001 þegar Smáralindin opnaði um 62.000 fermetra verslunarmiðstöð í Smáranum í Kópavogi. Hún virtist lítil ógn fyrir Kringlunni í fyrstu en byrjaði hins vegar að vera „hin landsþekkta“ verslunarmiðstöð síðar og hefur undanfarin ár laðað að fræga einstaklinga og má sem dæmi nefna Jerome Jarre sem olli miklu öngþveiti í Smáralind í byrjun ársins 2014.[3]

Í kringum Kringluna liggur gatan Kringlan og eiga bílar þar greiða leið inn í bílastæðahús á 2 stöðum, vestanmegin og austanmegin. Vestan verslunarmiðstöðvarinnar er mun meira um umferð og er bílastæðahúsið þar auk þess stærra en það sem er austan Kringlunnar. Austanmegin eru einnig innkeyrslur í íbúðabyggðir og því lítið um umferð þar. Norðan Kringlunnar liggur einnig sama gatan og eru þar eingöngu innkeyrsla vörubíla í Kringluna, bensínstöð og aðreinar og fráreinar, til og frá Kringlunni.

Strætisvagnar eiga leið hjá Kringlunni reglulega. Það eru vagnar númer 1 og 4 sem fara Kringlumýrarbraut, 2, 13 og 14 sem fara Listabraut og 3 og 6 sem fara Miklubraut.

Lengi hefur verið rætt um tengingu léttlestar eða hraðvagns við Kringluna og hefur það verið í höndum Reykjavíkurborgar að ákveða það.

Stækkun Kringlunnar

[breyta | breyta frumkóða]
Borgarkringlan áður en hún sameinaðist Kringlunni

Kringlan hefur verið stækkuð áður en það gerðist formlega árið 1996 þegar byggð var 7000 rúmmetra viðbygging fyrir kvikmyndahús.[4] Næst var ráðist í framkvæmdir við sameiningu Kringlunnar og Borgarkringlunnar árið 1998 ásamt þriggja hæða torgbyggingu, nýju torgi, bílageymslu fyrir 400 bíla, nýjum sal í Borgarleikhúsið og tengibyggingu við Borgarleikhúsið, samtals rúmlega 10.000 fermetrar. Því var öllu lokið árið 1999.[5][6][7]

Þegar nákvæmlega 6 ár liðu hófust aftur framkvæmdir til suðurs frá Kringlunni. Í því voru um 1500 fermetrar og lauk framkvæmdum vorið 2006.[8]

Það hefur lengi legið fyrir áform um að stækka Kringluna mun meira en hrunið árið 2008 kom í veg fyrir það. Gert var ráð fyrir um 20.000 fermetra stækkun til vesturs og yfir götuna Kringluna við hlið verslunarmiðstöðvarinnar. Það yrði stærsta stækkun Kringlunnar frá upphafi en nú hafa hins vegar Reitir, sem eiga 80% hlut í Kringlunni, undirbúið stækkun hennar innan nokkurra ára og á Kringlan eftir stækkunina að vera um 60.000 fermetrar og yrði því svipað stór og Smáralind, sem er um 62.200 fermetrar. Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir allt að 100.000 fermetra af nýju húsnæði á öllu Kringlusvæðinu en það hefur hins vegar engin ákvörðun verið tekin um nákvæma útfærslu, eða hvenær framkvæmdir hefjast.

Mögulegt er að miðstöð skiptitenginga almenningssamganga fari í gegnum Kringlusvæðið.[9][10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. https://is-is.facebook.com/Kringlan.is/info/?tab=overview
  2. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. apríl 2016. Sótt 15. desember 2015.
  3. http://www.ruv.is/frett/netstjarna-veldur-ongthveiti-i-smaralind
  4. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/291180/
  5. http://www.mbl.is/frettir/innlent/1998/04/07/umfangsmiklum_framkvaemdum_vid_kringluna_lokid_a_na/
  6. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/1998/05/05/framkvaemdir_vid_staekkun_kringlunnar_hafnar/
  7. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/440989/
  8. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. mars 2016. Sótt 15. desember 2015.
  9. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. mars 2016. Sótt 15. desember 2015.
  10. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. mars 2016. Sótt 15. desember 2015.


  Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.