Skrifstofa
Skrifstofa getur átt annaðhvort við herbergi eða stærra rými þar sem fólk vinnur. Starfsemi margra fyrirtækja og samtaka fer fram á skrifstofum og mörg fyrirtæki hýsa höfuðstöðvarnar sínar í þeim. Skrifstofur eru hannaðar á ýmsan hátt en nú er algengt að hanna skrifstofur sem opin rými; það er að segja, starfsmenn vinna flestir eða allir við skrifborð í sama herbergi.
Á skrifstofum má finna meðal annars skrifborð, skrifborðsstóla, skjalaskápa, síma, tölvur og ljósritunarvélar. Á sumum nútíma skrifstofum eru þægileg húsgögn eins og sófar eða grjónastólar þar sem starfsmenn geta slappað af. Eldri skrifstofur skiptast oftast í lítil einkarými en þetta skipulag er nú ekki eins algengt og áður af því það er talið aðskilja starfsmenn og draga úr félagsanda.