Konstantín 1. Grikkjakonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Lukkuborgarætt Konungur Grikklands
Lukkuborgarætt
Konstantín 1. Grikkjakonungur
Konstantín 1.
Ríkisár 18. mars 1913 – 11. júní 1917
19. desember 1920 – 27. september 1922
SkírnarnafnΚωνσταντῖνος Διάδοχος
Fæddur2. ágúst 1868
 Aþenu, Grikklandi
Dáinn11. janúar 1923 (54 ára)
 Palermo, Ítalíu
GröfTatoi-höll, Grikklandi
Konungsfjölskyldan
Faðir Georg 1. Grikkjakonungur
Móðir Olga Grikkjadrottning
DrottningSoffía af Prússlandi
BörnGeorg, Alexander, Helena, Páll, Írena, Katrín

Konstantín 1. (gríska: Κωνσταντίνος Α΄ της Ελλάδας; 2. ágúst 1868 – 11. janúar 1923) var þriðji konungur nútímaríkisins Grikklands og annar Grikkjakonungurinn af Lukkuborgarætt. Hann var konungur frá 1913 til 1917 og aftur frá 1920 til 1922 með titlinum „konungur Hellena“.

Konstantín var erfingi Georgs 1. Grikklandskonungs og hlaut hermenntun þegar hann var mjög ungur, bæði í heimalandi sínu og í Þýskalandi. Konstantín átti því eftir að gegna herþjónustu og ýmsum stjórnarembættum í gríska hernum. Árið 1897 var hann foringi gríska hersins í stríði við Tyrkland og var kennt um ósigur Grikkja í stríðinu af almenningi. Konstantín varð mjög óvinsæll og neyddist til að láta af flestum embættum sínum eftir Goudi-valdaránið árið 1909 og yfirgaf Grikkland um hríð. Þessi útlegð hans entist ekki lengi og Konstantín sneri brátt aftur til landsins og tók allar gamlar skyldur sínar að sér á ný árið 1911 að beiðni Elefþeriosar Venizelosar forsætisráðherra. Eftir að hafa endurskipulegt herinn stýrði Konstantín her Grikklands árin 1912 og 1913 í Balkanstríðunum tveimur þar sem Grikkland lagði undir sig Þessalóníku, grísku Makedóníu og hluta af Epírus. Með þessum hernaðarsigrum tvöfaldaðist fjöldi þegna Grikkjakonungs. Í lok stríðsins var faðir Konstantíns, Georg konungur, myrtur þann 18. mars í Þessalóníku. Konstantín tók þar með við krúnunni.

Í fyrri heimsstyrjöldinni varð ágreiningur milli Konstantíns og Venizelosar um það hvort Grikkland ætti að taka þátt í stríðinu og með hvorri fylkingunni. Venizelos aðhylltist bandamenn en Konstantín, sem var Þýskalandsvinur, studdi Miðveldin. Venizelos fékk að endingu sínu framgengt og Grikkir börðust með bandamönnum í stríðinu. Þessi ágreiningur leiddi til hinnar svokölluðu „þjóðarsundrungar“ (εθνικός Διχασμός) Grikklands sem átti eftir að skilja eftir sig djúp sár í þjóðarímynd landsins. Árið 1915 reyndi konungurinn að neyða Venizelos til að segja af sér en að endingu var það Konstantín sem þurfti að láta af embætti árið 1917 eftir að bandamenn hótuðu að varpa sprengjum á Aþenu. Konstantín sagði því af sér og eftirlét krúnuna syni sínum, Alexander, og settist sjálfur að í Sviss. Alexander lést hins vegar fyrir aldur fram árið 1920. Sama ár tapaði Venizelos í þingkosningum og kosið var í þjóðaratkvæðagreiðslu að leyfa Konstantín að snúa aftur og gerast konungur á ný. Á seinni valdatíð Konstantíns bað Grikkland afhroð í öðru stríði við Tyrkland og því sagði konungurinn af sér í annað og síðasta sinn árið 1922 og fór í útlegð til Ítalíu, þar sem hann lést fáeinum mánuðum síðar. Við honum tók annar sonur hans, Georg 2. Grikkjakonungur, en hann sagði sjálfur af sér eftir stutta valdatíð.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Georg 1.
Konungur Grikklands
(18. mars 191311. júní 1917)
Eftirmaður:
Alexander
Fyrirrennari:
Alexander
Konungur Grikklands
(19. desember 192027. september 1922)
Eftirmaður:
Georg 2.